Framtíð íslenskrar tungu

16da þ.m. var Dagur íslenskrar tungu haldinn víðs vegar um land á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.  Á þessum degi hafa Móðurmálsverðlaunin verið veitt frá 1996 og aðrar viðukenningar þeim til handa sem stuðlað hafa að vexti og viðgangi elstu lifandi þjóðtungu Evrópu.

19da nóvember var haldin afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni 200 ára afmælis félagsins sem stofnað var í Kaupmannahöfn og var „einn hinn mesti atburður í sögu íslenzkra mennta, því að hún táknar gagnger umskipti í viðhorfi manna gagnvart íslenzkri tungu og bókmenntum síðari alda,” eins og Þorkell Jóhannesson segir í Sögu Íslendinga.

Á afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags töluðu Guðni Th. Jóhannesson forseti, Jón Sigurðsson forseti Bókmenntafélagsina og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.  Allir gerðu stöðu íslenskrar tungu og framtíð að umræðuefni. Jón Sigurðsson ræddi sérstaklega um framtíð tungunnar í stafrænum heimi og sagði, að þegar Bókmenntafélagið var stofnað hefði íslensk tunga verið í hættu og þá – eins og nú – hefðu margir haft áhyggjur af stöðu og framtíð tungunnar. Stofnendum félagsins hefði verið ljóst að sérstaða íslenskrar menningar – sjálf líftaugin í sögu þjóðarinnar – væri fólgin í óslitnu samhengi tungu og bókmennta frá upphafi og yfir þessu samhengi þyrfti að vaka. Yfir streymdi í vaxandi mæli margvíslegt efni á erlendum tungum í ýmsum myndum. Gæfa Íslendinga hefði verið að varðveita forna skáldskaparhefð og málið væri dýrmætasti þáttur íslenskrar menningar og um leið einn áhrifaríkasti hvati þeirrar endurreisnar á nítjándu og tuttugustu öld sem að lokum leiddi til sjálfstæðis. „Tungumálinu megum við ekki týna – því að þá týnum við okkur sjálfum”, sagði forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og hélt áfram:

Nú er í vændum að viðmót hvers konar véla og tækja sem beita þarf daglega verði þannig úr garði gert, að það taki við fyrirmælum á mæltu máli. Eigi íslenskt mál að verða gjaldgengt í þeim samskiptum þarf að koma upp íslenskum máltæknigrunni til að tengja talað mál við tölvur. Vísir að slíkum grunni er til hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Google vegna þess að íslenskir starfsmenn hafa séð til þess að íslenskan er eina fámennistungumálið sem komið hefur verið fyrir í máltæknigrunni þar á bæ. ... Áætlað hefur verið að það kosti á annan miljarð króna að smíða nothæfan máltæknigrunn fyrir íslensku. Tíminn er naumur og næstu þrjú til fjögur ár geta ráðið úrslitum um framtíð íslenskunnar á þessum vettvangi. Til þess að koma þessu í kring þarf samstillt átak hins opinbera og atvinnulífs og allra þeirra sem láta sér annt um framtíð tungunnar. Bókmenntafélagið hyggst kveðja til ráðstefnu á næsta ári sem flesta er láta sig framtíð íslenskunnar varða til þess að stilla saman krafta í slíku átaki. Íslensk málnefnd hefur lagt  sérstaka áherslu á mikilvægi máltækni fyrir framtíð íslensku í stafrænum heimi. Íslendingar þurfa að fjárfesta myndarlega í eigin móðurmáli. Framtíð íslenskrar tungu er ekki einkamál Íslendinga. Hverfi hún, hverfur heill menningarheimur. Forvígismenn Bókmenntafélagsins á nítjándu öld sýndu og sönnuðu að íslenska gat dafnað mitt í tækni- og samskiptabyltingu þeirrar aldar. Núlifandi kynslóð þarf að sýna og sanna að íslensk tunga geti blómstrað mitt í stafrænni byltingu á okkar öld – og þeirri næstu.

Undir þessi orð Jóns Sigurðssonar, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, skal tekið. Þetta er aðkallandi verkefni fyrir íslenska menningu og framtíð íslenskrar tungu.


Fegursta ljóð á íslensku

Stundum getur verið gaman að spyrja spurninga sem ekkert rétt svar er til við – jafnvel ekkert svar.  Á dögunum spurði ég nokkra vini míona, karla og konur, hver væri að þeirra dómi fegursta vísa sem ort hefði verið á íslenska tungu.  Engin frekari skýring var gefin á því, við hvað átt væri með orðinu fagur. Ekki þurfti heldur að rökstyðja svarið.  Einu gilti hvort um væri að ræða stöku, erindi úr litlu ljóði eða úr löngu kvæði.

 

Svör bárust frá flestum, sem spurðir voru.  Þar af voru tvær vísur eftir Skáld-Rósu eða Vatnsenda-Rósu, Rósu Guðmundsdóttur sem fæddist 1795 í Hörgárdal og ólst þar upp, bjó allvíða og lést 1855, tæplega sextug að aldri.  Hún á sér afar merka sögu, átakasögu, sem ekki verður rakin hér. Ekki er vitað til hvers eða hverra hún orti þessar vísur, enda önnur saga.  Báðar þessar vísur bárust frá konum.

 

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tal' og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

 

Langt er síðan sá ég hann,

sannlega fríður var hann,

allt sem prýða mátti einn mann

mest af lýðum bar hann.

 

Þriðja vísan sem birt verður að þessu sinni barst einnig frá konu.  Vísan er eftir Árna Böðvarsson rímnaskáld sem fæddur var í Staðarsveit 1713 og dáinn 1776.  Langafi hans var séra Ketill Jörundarsonar að Hvammi í Hvammssveit, móðurfaðir Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara, en móðir hans Ólöf Árnadattir, systurdóttir Jóns biskups Vídalíns.  Árni Magnússon og Árni Böðvarsson voru því skyldir að öðrum og þriðja, en Jón Vídalín ömmubróðir hans.  Árni Böðvarsson varð stúdent frá Hólum í Hjaltadal 1732 en bjó lengst af á Snæfellsnesi, kenndur við Akra á Mýrum.  Árni var dæmdur fyrir hórdómsbrot með giftri konu og skildi við konu sína. En til seinni konu sinnar, Ingveldar Gísladóttur, orti hann þriðju vísuna sem barst og hér verður birt:

 

Ætt' eg ekki vífaval

von á þínum fundum,

leiðin eftir Langadal

löng mér þætti á stundum.

 

Til Ingunnar, konu sinnar, orti Árni stöku sem fangar hugann og á heima í þessu safni:

 

Þú ert út' við eyjar blár,

eg er sestur að Dröngum.

Blóminn fagur kvenna klár,

kalla eg löngum

- kalla eg til þín löngum.

 

En á degi íslenskrar tungu, afmæli sveitunga míns og félaga Jónasar Hallgrímssonar, ætla ég að birta það ljóð hans, sem hefur hrifið mig einna mest og er einna torskildast allra kvæða hans og ljóða, kvæðið Alsnjóa, sem hann orti í Sórey á Sjálandi 1844:

 

Eilífur snjór í augu mín

út og suður og vestur skín,

samur og samur inn og austur,

einstaklingur! vertu nú hraustur.

 

Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór,

hjartavörðurinn gengur rór

og stendur sig á blæju breiðri,

býr þar nú undir jörð í heiðri.

 

Víst er þér, móðir! annt um oss,

aumingja jörð með þungan kross,

ber sig það allt í ljósi lita,

lífið og dauðann, kulda’ og hita.

 


Framtíð ferðamála á Íslandi

Fróðlegt var að lesa viðtal við Dag Eggertsson arkítekt í Fréttatímanum 10da þ.m., en Dagur hefur búið í Noregi í 30 ár og rekur arkítektastofu í Ósló og Bodö.  Eftir ferðalag um Ísland í sumar segir hann að vakning sé í gangi varðandi ferðaþjónustu á landinu en greinilega sé verið að vinna af miklum vanefnum og í miklum flýti, bygingum hróflað upp, sem stundum líta þokkalega út en eru á kolvitlausum stað, byrgja fyrir útsýni eða eru á stað sem myndar ekki nægilega góðar gönguleiðir og eru í raun að skemma landslagið.  

Dagur Eggertsson nefnir að fyrir teimur áratugum hafi norska vegagerðin hrundið af stað verkefninu „ferðamannavegir” til að skapa aðlaðandi umhverfi við vegi landsins og laða ferðamenn að minna fjölförnum svæðum og ekki síst að gera ferðalagið ánægjulegra og skapa öryggi.  Hafist var handa að skipuleggja áningarstaði, salernisaðstöðu og gera útsýnisstaði með reglulegu millibili og arkítektar og landslagsarkítektar fengnir til að túlka staðhætti og laga mannvirki að umhverfinu.  Hafi verið efnt til samkeppni víða og niðurstöður vakið athyglu vía og fengið alþjóðleg hönnunarverðlaun.

Verkefnið „ferðamannavegir” var ekki upphaflega hugsað sem fjárfesting í hönnun en vegirnir séu nú orðnir með þeim vinsælustu í Noregi og ferðamenn upplifa náttúruna og mannvirkin í náttúrunni.  Upphaflega hagfi þetta verið hjávegir yfir fjöll og hálendið’ og djúpa dali og firði og áður ókunnum stöðum gefið.  Síðan voru fleiri áningarstaðir hannaðir á fjölfarnari stöðum þar sem fólk hafði hætt lífi sínu við að taka myndir af klettum og fjöllum.  Arkítektastofa Dags Eggertssonar hefur hannað útsýnispall við stöðuvatn í Seljord í Norður Noregi en samkvæmt þjóðsögum búa í vatninu sæskrímsli, eins og þekkt er úr íslenskum þjoðsögum.  Auk þess hefur arkítektastofa Dags hannað brú með listhúsi yfir eina straumhörðustu á í Noregi þar sem njóta má veitinga um leið og nátturan er skoðuð.

Átaks er þörf - strax

Viðtalið við Dag Eggertsson er afar fróðlegt og mættum við Ísleningar – eða öllu heldur verðum við Íslendingar að læra af þessu starfi frænda okkar Norðmanna, ef okkur er einhver alvara að fá hingað til lands erlenda ferðamenn áfram og halda í þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur – og verður lyftistöng, en þá verður ný ríkisstjórn, yfirvöld ferðamála, starfsmenn í ferðaiðnaði, sveitarfélög og landeigendur að taka höndum saman og finna færar leiðir, en hætta að tala í austur og vestur um tittlingaskít.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband