Verður er verkamaðurinn launanna

Átök eru sífellt aukast í heiminum og verða ef til vill ekki umflúin við þá misskiptingu sem viðgengst þegar 5% eiga 95% auðsins og þeir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Birtingarmynd þessarar efnahagslegu misskiptingar og örbirgðar, sem fylgir í kjölfarið, blasa við hverjum sem vilja sjá alla daga sem guð gefur yfir. Þess vegna ber öllu hugsandi, ábyrgu og viti bornu fólki að vinna gegn aukinni misskiptingu, gegn auknu ranglæti og stuðla að samfélagi sem reist er á réttlæti, virðingu og jafnrétti.

Í okkar litla landi eru mörgum mislagðar hendur um þetta. Síðasta dæmið er úrskurður Kjararáð sem vakið hefur undrun og reiði þar sem notuð er „gamla góða” prósentureglan sem virðist vera réttlætið sem Kjararáð grípur til. Fyrir mörgum árum var reikningskennari fyrir norðan sem lagði þá spurningu fyrir nemendur sína í efsta bekk grunnskóla, hversu margir nemendur væru 30% af bekknum. Þegar í stað svaraði einn hvatvís og kunnáttulítill nemandi: “Kennari. Við erum bara 28 í bekknum.” Ætla mætti að þessi nemandi að norðan væri nú formaður Kjararáðs.

Fullskipað Kjararáð virðist ekki skilja það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þar sem sífellt er að aukast launamunur þeirra sem lægst hafa launi og t.a.m. hásettra embættismanna - að ekki sé talað um framkvæmdastjóra og formenn í einkafyrirtækjum. Ráðuneytisstjórar vinna gott verk og gegna mikilsverðu starfi, en með aukinni menntun og aukinni verkaskiptingu innan ráðuneytisins er álagi og ábyrgð af þeim létt. Sömu sögu er að segja um t.a.m. skólameistara. Fyrir 50 árum höfðu skólameistarar engan aðstoðarmann. Nú eru aðstoðarmenn skólameistara - og rektora við menntaskóla og framhaldsskóla margir og verkskipting mikil.

Í lögum nr. 47 14. júní 2006 er að finna starfsreglur sem Alþingi setti Kjararáði. Þar stendur, að „við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar ... og ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði”. Þetta er ekki gert í úrskurði Kjararáðs

Með því að nota reglu þá, sem Kjararáð notar - um sömu prósenttölu launahækkana allra - endar þetta með ósköpum eins og allir hugsandi menn sjá. Sem dæmi má taka að 25% launahækkun á 250 þúsund króna laun eru 62.500 krónur en sama prósentuhækkun á einnar milljón króna laun eru 250.000 krónur. Sé þessari reglu beitt fimm ár í röð, verða lægri launin orðið 610.352 krónur, en hærri launin - milljón króna launin - orðin 2.442.188 krónur og mismunurinn orðinn 1.831.836 krónur í stað 750.000 króna áður. Þetta gengur ekki. Vonandi setur nýtt Alþingi, sem margir binda vonir við, nýjar starfsreglur fyrir Kjararáð til að tryggja eðlilega launaþróun á vinnumarkaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kjararáði er hvorki ætlað að minnka né auka launamun. Ef prósentuhækkunin er ávallt sú sama verður launamunurinn áfram hinn sami. Hvers vegna er eitthvað athugavert við það?

Þorsteinn Siglaugsson, 17.7.2016 kl. 21:56

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Rétt er hjá þér, Þorsteinn, að hlutfallið milli launanna, sem ég tók dæmi um,  er ávallt hið sama.  En málið snýst ekki um hlutfallsreikning - reikningskúnstir - heldur félagslegt réttlæti og launþegar á almennum vinnumarkaði hafa ekki fengið þá launahækkun sem Kjararáð útdeilir nú.  Það er óeðlilegt og í andstöðu við lokamálsgrein 8du greina laga um Kjararáð stendur: “Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði” - og ég endurtek: vegna þess að launþegar á almennum vinnumarkaði hafa ekki fengið þá launahækkun sem Kjararáð útdeilir nú.

Tryggvi Gíslason, 17.7.2016 kl. 22:56

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held reyndar að þessar hækkanir Kjararáðs núna komi til af því að þessar stéttir sem verið er að hækka launin við hafi dregist aftur úr öðrum hópum. Svo virðist að minnsta kosti vera samkvæmt þessari frétt: http://www.sa.is/frettatengt/frettir/hopar-kjararads-hafa-setid-eftir-a-vinnumarkadi/

Þorsteinn Siglaugsson, 19.7.2016 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband