Strútskýring, málrækt og mannlegt mál

Gamlir málræktarmenn, nemendur Halldórs Halldórssonar, prófessors við Háskóla Íslands fyrir hálfri öld og kennara við MA á sínum tíma, sem einnig nutum leiðsagnar Árna Kristjánssonar frá Finnasstöðum í Kaldakinn og Gísla Jónsssonar frá Hof í Svarfðaradal í Menntaskólanum á Akureyri, höfum áhyggjur af framtíð íslenskrar tungu, ekki síst eftir að nemendur í grunnskóla eru farnir að tala saman á ensku, eins og Morgunblaðið greinir frá í vikunni. Mannlegt mál er félagslegt tjáningartæki sem við notum til þess að koma til skila hugsun og hugmyndum okkar. Ef sumir þegnar málsamfélagsins taka að tala annað tungumál, verður hins vegar rof sem skiptir þessu fámenna samfélagi í hópa eftir tungumáli – og þá er illt í efni.

Nú er því þörf á almennri umræðu um íslenska málrækt og íslenska málvernd á svipaðan hátt og á 19du öld, þegar Fjölnismenn með Jónas Hallgrímsson og Konráð Gíslason í broddi fylkingar hrundu af stað endurreisnarstarfi íslenskrar tungu, m.a. með nýyrðasmíð sem átti sér fyrirmynd í þýðingum á miðöldum og starfi Guðbrands Hólabiskups og Arngríms lærða á 16du og 17 öld. Enn er áhugi á nýyrðasmíð lifandi og enn gera orðvísir menn – konur og karlar – ný orð til þess að koma til móts við þarfir samfélags sem sífellt er að breytast, samfélags í sífelldri þróun, ellegar nýyrðin eru til þess gerð að bregða ljósi á samfélag sem verður stöðugt flóknara og ógagnsærra.

Guðmundur Andri Thorson rithöfundur, ættaður úr Bótinni á Akureyri, skrifar vikulega þátt í Fréttablaðið þar sem hann fjallar um málefni líðandi stundar. Fyrra mánudag skrifaði hann um hina sigri hrósandi vanþekkingu og segir, að með allsherjartengingu hins netvædda mannkyns fái fávísin rödd og rými sem aldrei fyrr – og í kjölfarið virðingu. Með þessu móti breiðist hin sigri hrósandi vanþekking út með ógnarhraða sem sé áberandi í umræðunni um loftslagsvandann þar sem framtíðarsýnin er svo ógnvænleg að mörgum reynist um megn að horfast i augu við vandann en reyna að drepa málum á dreif með útúrsnúningum og afneitun. „Þessa iðju mætti kalla strútskýringar með vísan til hins snjalla nýyrðis „hrútskýring”, sem er þýðing Hallgríms Halgasonar á enska orðinu „mansplaining” og vísar til áráttu karlmanna til að þagga niður í konum með yfirlætislegum útskýringum á hlutum sem þær þekkja iðulega betur til en hrútskýrandinn. Strútskýringar snúast um ólíkar aðferðir afneitunarsinna við að stinga höfðingu í sandinn.” Þannig kemst Guðmundur Andri Thorsson að orði og er nýyrði hans – strútsskýring – skemmtilegt orð og lýsandi.

Sagt er að Sigurður Nordal hafi notað orðið kjalfróður um menn sem þekktu nöfn á bókarkjölum en vissu lítið um efni eða innihald bókanna. Orðið kjalfróður kemur fyrst fyrir á prenti í tímaritinu Múlaþingi árið 1981 og síðan í Tímariti Máls og menningar 1988. Hins vegar hefur þetta nýyrði enn ekki komist á orðabækur. Hvenær má þá búast við að nýyrðið strútskýring, sem fyrst sá dagsins ljós í Fréttablaðinu mánudaginn 13.mars 2017, komist á orðabók?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband