Uppreisn og landflótti

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar vanda heimilanna sem kynntar hafa verið, eru allsendis ófullnægjandi, leysa ekki þann vanda sem þeim er ætlað að leysa, lægja ekki óánægjuöldur og koma ekki í veg fyrir uppreisn og landflótta.

Það sem gera þarf er að færa höfuðstól allra húsnæðislána til lánskjaravísitölu 1. maí 2008, fella niður vísitölutryggingu og breyta myntkörfulánum í almenn húsnæðislán. Þá er meginvandi heimilanna leystur og bankar og lánastofnanir neyðast til að vanda sig og hjól atvinnulífsins fara að snúast.

Kostnað af þessu skal greiða með sektum fjárglæframanna og eignum þeirra.


Uppreisn í janúar

Ef Alþingi og ríkisstjórn finna ekki leiðir til þess að leysa vanda heimilanna fyrir veturnætur, verður uppreisn í janúar og landflótti í vor.

Æðruleysisbæn fyrir stjórnmálamenn

Eftir hegðan íslenskra stjórnmálamanna og árangur af starfi þeirra undanfarið ár, tel ég brýnt að þeir tileinki sér æðruleysisbænina:

"Guð, gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til þess að breyta því sem ég get breytt - og vit til að greina þar á milli."


Hvað sameinar eina þjóð

Atburðir undanfarna mánuði og misseri hafa vakið til umhugsunar um hvað sameini þessa sundruðu þjóð, hver séu gildi samfélagsins og styrkur íslenskrar menningar og hvort fámenn þjóð, sem eitt sinn var talin búa á mörkum hins byggilega heims, geti staðið auðvaldi heimsins snúning á tímum hnattvæðingar, sem svo er kölluð.

Einnig hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla á Íslandi séu með svipuðum hætti og hjá frændþjóðum okkar, en í ljós hefur komið að siðferði í stjórnmálum og traustir fjölmiðlar skipta sköpum fyrir virkt lýðræði og farsælt stjórnarfar.

 

Land, þjóð og tunga

Þrennt sameinar þjóð og má kalla sameign hennar. Í fyrsta lagi landið sem hún byggir. Í öðru lagi sagan og í þriðja lagi tungan sem þjóðin hefur alið af sér. Engin þjóðernishyggja býr að baki þessum orðum heldur eiga orðin við allar þjóðir sem ala með sér vitund um að vera þjóð og vilja vera þjóð.  

Lengi gat Ísland aðeins brauðfætt um 50 þúsund manns vegna kulda og harðinda, lítillar verkmenningar og lélegs stjórnarfars. Á 18du öld, erfiðustu öld í sögu þjóðarinnar, fækkaði fólki stöðugt. Í upphafi aldar voru landsmenn um 50 þúsund, álíka margir og þeir höfðu verið um 1200. Í Stóru bólu 1706-1709 fækkaði fólki um þriðjung og voru Íslendingar þá aðeins 36 þúsund og hafa aldrei orðið færri í sögu þjóðarinnar og urðu ekki 50 þúsund aftur fyrr en 1825. Mannfjöldi í Danmörku og Noregi hafði þá þrefaldaðist frá því um 1200. Ísland var þá á mörkum hins byggilega heims.

Fólksfjölgun er nú meiri á Íslandi en í flestum löndum Evrópu. Veðurfar fer hlýnandi, verkkunnátta er sambærileg við nágrannalöndin og landgæði eru mikil: ósnortin víðerni, auðug fiskimið, orka í fallvötnum og jarðvarma, hreint vatn og hreint loft og stórbrotin og fjölbreytileg náttúra. Ræktun og uppgræðsla hefur tekið stakkaskiptum, skógrækt er orðin atvinnugrein og farið að rækta korn og grænmetisrækt á sér framtíð ef orka er nýtt til slíkrar framleiðslu og rétt er á málum haldið. Allt er þetta styrkur fyrir þjóðina.

 

Þúsund ár á einni öld

Styrkur íslensku þjóðarinnar felst í fleiru. Á einni öld hefur samfélagið breyst úr einagruðu bændasamfélagi í margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Menntun er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Rannsóknir og vísindi hafa stóreflst. Sem dæmi má nefna að fyrir 50 árum höfðu fáir tugir Íslendinga lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar þúsundum.

Heilsugæsla er ekki síðri en í nágrannalöndunum og barnadauði, sem í lok 19du aldar var hæstur á Íslandi af öllum löndum Evrópu, er nú lægstur í heiminum. Þetta sýnir framfarirnar í hnotskurn.

Fyrir rúmri öld var landið dönsk hjálenda. Borgmenning hafði ekki fest rætur og gamalt bændasamfélag var einrátt. Níu af hverjum tíu bjuggu í sveit og þjóðhátíðarárið 1874, þegar Íslendingar fengu danska stjórnarskrá, bjuggu rúmlega tvö þúsund manns í þorpinu Reykjavík af þeim 70 þúsund sem í landinu bjuggu.

Nú er Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki með trausta innviði, gott heibrigðiskerfi, þjóðin er vel menntun og auðlindir landsins miklar. Af þeim sökum má segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.

 

Tunga, menning og listir

Íslensk tunga er fornlegasta tungumál Evrópu – sem í raun er mikill styrkur því að hvert mannsbarn getur lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár. Tungan hefur heldur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Nýyrðasmíð er öflug og fleiri nota íslensku í daglegu starfi og tómstundum en nokkru sinni. Ritað er um flest þekkingarsvið á íslensku. Leikritun, ljóðagerð og skáldsagnaritun standa með blóma og nýmæli hafa komið fram í auglýsingagerð og orðanotkun. Menning og listir blómstra, bæði leiklist, tónlist og myndlist – og staðarmenning vex um allt land og íslensk hönnun vekur athygli. Stjórnvöld og almenningur eru einhuga um málrækt og er síðasta dæmið íslensk málstefna, sem Alþingi samþykkti í mars í vetur, en markmið hennar er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Þetta er styrkur og dýrmæt sameign þjóðar.

 

Hrunið og hið alþjóðlega auðvald

Í lok 19du aldar var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu. Hagtölur árið 2002 sýna hins vegar að landsframleiðsla á mann var þá 10% hærri en meðaltal í löndum Evrópusambandsins. En svo kom hrunið. Í ljós kom að velsældin byggðist á svikagróða og blekkinum, sýndarmennsku og gróðafíkn – en fégirndin upphaf alls ills.

Reynt er að grafast fyrir um orsakir hrunsins og stjórnvöld leita leiða til bjargar þjóð sem er skuldum vafin eins og skrattinn skömmunum. Reynt er að finna þá sem valdir eru að ósköpunum og gerðust brotlegir við lög – og er skömm þeirra mikil. Már Guðmundsson hagfræðingur segir í grein í vorhefti SKÍRNIS að erfitt sé að skilja flókna atburði meðan þeir gerast. Eigi það við um fjármálakreppuna sem tröllriðið hafi heimsbyggðinn, ekki síst vegna þess að áhrifin séu enn ekki komin fram og viðbrögð stjórnvalda í mótun. Í bók sinni um HRUNIÐ rekur Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur atburði vetrarins frá degi til dags. Það er ljót lesning og bregður upp skuggalegri mynd af fjármálum á Íslandi þar sem fákunnátta og óheilindi einkenna öll viðskipti. Eftir lesturinn má efast um að fámenn þjóð geti staðið alþjóðlegu auðvaldi snúning nema til komi meiri þekking, aukinn heiðarleiki, virkara lýðræði og traustari stjórn.

Óvarlegt er að blanda sér í umræður um efnahagsmál. Þó virðist krafa auðvaldsins um 20% arð af fé hljóti að leiða til ófarnaðar. Ekkert fyrirtæki getur skilað slíkum arði nema hagur starfsmanna sé fyrir borð borinn eins og í löndum þriðja heimsins þar sem enn er stundað arðrán, angi af gömlu nýlendustefnunni. Þetta arðrán og arðsemiskrafa er birtingarmynd fégræðgi – og meginorsök hrunsins.

 

Umræðuhefð og stjórnmálasiðferði

Hér að framan var að því vikið hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla væru með sama hætti og í nágrannalöndunum, en rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega, lýðræðislega umræðu og frjálsa skoðanamyndun og farsælt stjórnarfar.

Samanburður á starfsháttum stjórnmálaflokka og umræðuhefð í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar leiðir í ljós mun. Umræða er þar málefnalegri og ekki eins gildishlaðin og hér. Brigslmælgi og stóryrði, sem stjórnmálamenn á Íslandi temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi. Með slíkri hegðan græfu stjórnmálamenn á Norðurlöndum sér gröf. Hér á landi eru stóryrði iðulega talin merki um djörfung og festu og talin hafa skemmtanagildi.

Þessi umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu. Umræðuhefðin hefur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og komið í veg fyrir eðlilegt samstarf – jafnvel á örlagastundu. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum íslensku þjóðarinnar nú eigi rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og lélegs stjórnmála-siðferðis og frumstæðrar umræðuhefðar.

 

Fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa oft verið þess vanmegnugir að brjóta til mergjar og skýra á yfirvegaðan hátt atburði liðandi stundar. Veldur margt, s.s. fámenni og eignarhald á fjölmiðlum. Sá fréttamiðill, sem ber af og nýtur mests trausts, er fréttastofa útvarps. Er vonandi að breytt skipulag og hagræðing breyti því ekki.

Nokkrir íslenskir fréttamenn og blaðamenn eru hins vegar því marki brenndir að vilja frekar vekja athygli – selja fréttir – en upplýsa mál á hlutlægan hátt. Þá hafa einstaka umræðuþættir í sjónvarpi einkennst af yfirheyrsluaðferðinni þar sem stjórnandi reynir að koma höggi á viðmælanda, gera hann tortryggilegan og fella yfir honum dóm. Í stað dómstóls götunnar – kjaftagangsins – er því kominn dómstóll fjölmiðla. Vegna þessa hafa iðulega ekki fengist svör við spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum.

Í Danmörku og Noregi leita þáttastjórnendur svara á hlutlægan hátt og fella ekki dóma – heldur er hlustendum látið eftir að draga ályktanir.

 

Frumstæð umræðuhefð

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar hér á landi eru margar. Borgmenning hefur ekki fest rætur með þeirri tillitssemi og persónulegu fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámennið veldur því einnig að úrval fréttamanna er minna, allir þykjast þekkja alla og návígið nálgast iðulega dónaskap. Stéttskipting og agi hafa einnig verið með öðrum hætti en í flestum Evrópulöndum og enn eimir eftir af agaleysi bændasamfélagsins. Yfirveguð umræða er grundvallarþáttur í lýðræðislegri endurreisn og aukinni samfélagsmenningu á Íslandi. Þar gegna fjölmiðlar mikilsverðu hlutverki - ásamt skólunum.

 

Stjornlagaþing - samfélagssáttmáli

Íslensk þjóð hefur áður gengið gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu og á grundvelli dýrmætra sameigna sinna – lands, sögu og tungu – en einnig á grundvelli aukinnar menntunar og náttúruauðlinda.

Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.

Til að stuðla að þessu þarf að efna til sjálfstæðs stjórnlagaþings – stjórnlagaþings þjóðarinnar – sem kosið er til í almennum kosningum með landið sem eitt kjördæmi. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von – og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélags-sáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.


Pólitík - um hvað snúast stjórnmál?

Mikið er talað um pólitík. Sagt er að eitt og annað sé pólitískt - ákvörðun eða afstaða fólks sé pólitísk.

Eins og menn þekkja, er íslenska orðið stjórnmál notað um það sem á flestum öðrum tungumálum er kallað pólitík, e politics, d politik.

Ekki ætla ég að rekja upprunalega merkingu orðsins pólitík. Orðið er dregið af gríska orðinu polis, sem merkir borgríki. Kemur sú merking í raun lítið við merkingu orðsins stjórnmál eða pólitík í daglegu tali og pólitískum átökum samtímans.

Til þess að gera langa sögu stutta snýst pólitík fyrst og síðast um hagsmuni. Pólitísk barátta er hagsmunabarátta og þegar talað er um að eitthvað sé pólitískt, er um það að ræða, að ólíkir hagsmunir rekist á.

Mikilsvert er því að stjórnmálamenn, pólitíkusar, taki tillit til hagsmuna sem flestra, þegar þeir taka afstöðu. Stjórnmálamenn - svo sem alþingismenn - eiga því ekki aðeins að fara eftir samvisku sinni, þótt hún kunni að vera góð, heldur einkum eftir dómgreind sinni og þá eiga þeir hinir sömu stjórnmálamenn, alþingismenn og ráðherrar, að líta á hagsmuni sem flestra.

Í því að taka tillit til hagsmuna sem flestra, felst réttlæti, sem er meginþáttur lýðræðis, sem er annað stórt orð og mikið (mis)notað.


Icesafe - samningur til bjargar Íslandi

Því er haldið fram að enginn samningur verði erfiðari Íslendingum en Icesafe samningurinn síðan Gamli sáttmáli var gerður 1262. Gamli sáttmáli er án efa örlagaríkasti samningur í þúsund ára sögu þjóðarinnar. Með honum glötuðu Íslendingar sjálfstæði sínu og urðu skattland erlendra ríkja hálfa sjöundu öld.

Með Icesafe samningnum er hins vegar verið að leita leiða til að endurreisa virðingu og efnahag íslensku þjóðarinnar og tryggja framtíð Íslendinga í samfélagi þjóðanna.

Það er því út í hött að bera saman þessa samninga og ber annaðhvort vitni um þekkingarleysi eða lýðskrum – nema hvort tveggja sé.

Rætur Gamli sáttmála

Orsakir þess að Gamli sáttmáli var gerður og þjóðveldið leið undir lok voru margar og flóknar. Meginorsökin var þó sú að skipulag þjóðveldisins var orðið úrelt og átti sér enga hliðstæðu í Evrópu og hafði raunar veri gallað frá upphafi. Ekkert sameiginlegt framkvæmdavald var fyrir hendi og þegar komið var fram á 13du öld logaði landið í illdeilum og skipaferðir til útlanda voru í hættu vegna þess að Íslendingar áttu sjálfir engin skip lengur.

Orsakir hruns íslensku bakanna sem leiddu til erfiðleika í íslensku atvinnulífi eru einnig margar og flóknar og naumast á færi nokkurs manns að greina þær enn. Meginástæður voru hins vegar þrjár: ágirnd, hroki og mannfyrirlitning en þetta þrennt var fyrrum talið til dauðasyndanna sjö. Íslendingar stóðu í október einangraðir og öllu trausti rúnir og lánalínur til útlanda voru lokaðar.

Tilgangur Icesafe samningsins

Icesafe samningurinn er gerður til þess að leysa þennan vanda og hann er gerður að bestu manna yfirsýn. Formaður íslensku samninganefndarinnar var Svavar Gestsson sendiherra, margreyndur stjórnmálamaður sem hafði með  sér trausta ráðgjafa, starfsfólk Seðlabanka og þriggja ráðuneyta auk íslenskra hagfræðinga og lögfræðinga með sérþekkingu og mikla yfirsýn.

Þegar stjórnmálamenn og fréttaskýrendur saka slíkt fólk um vanþekkingu og óheilindi, gera þeir hinir sömu lítið úr sjálfum sér og menntun þjóðarinnar og hitta sjálfa sig fyrir. Ef besta fólk þjóðarinnar er vankunnandi og því er ekki treystandi, hvernig er þá um hina verstu sem hafa hvorki reynslu né þekkingu. Slíkur málflutningur ber vitni um tortryggni eða vænisýki og vometakennd og leiðir þjóðina í ógöngur.

Málflutningurinn felur einnig í sér þá trú að Íslendingar geti ekki ráðið fram úr vandanum sjálfir heldur verði að leita til útlendinga með alla hluti, enda hefur sá málflutningur einnig heyrst af hálfu stjórnmálamanna og fréttaskýrenda.

Ábyrgð

Icesafe samningurinn er gerður á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hefur sér til fulltingis Indriða H. Þorlákssonar hagfræðing, fyrrverandi ríkisskattstjóra, margreyndan og traustan embættismann. Hvorugur þeirra átti nokkra aðild að svikum þeim sem liggja að baki hruninu, en hreinsa nú upp eftir óreiðumenn.

Engum vafa er undirorpið að báðir eru vanda sínum vaxnir. Steingrímur J. Sigfússon er einn reyndasti stjórnmálamaður landsins og hefur auk þess lagt pólitíska framtíð sína að veði til þess að vinna þetta endurreisnarstarf. Er honum betur treystandi en öðrum íslenskum stjórnmálamönnum til þess að leysa úr þessum vanda þjóðarinnar.

Tilgangur Icesafe

Megintilgangur Icesafe samningsins er að láta Íslendinga axla siðferðilega ábyrgð sem þeir bera sem þjóð, án þess almenningur – hver og einn einstaklingur – eigi hlut að máli og enga sök á hruninu. Icesafe samningurinn á einnig að rétta hlut útlendinga sem trúðu á fagurgala nýríkra auðmanna. Síðast en ekki síst er samningnum ætlað að endurvekja traust annarra þjóða á Íslandi og Íslendingum. Það er megurinn málsins.

Allar líkur benda til þess, að eftir sjö ár – þegar afborganir hefjast vegna samningsins – hvíli á ríkissjóði skuld sem nemur um 20% landsframleiðslu. Þessa skuld skal greiða á átta árum. Afborganir nema því tveimur til þremur prósentum af landsframleiðslu Íslendinga á ári að meðtöldum vöxtum. Undir þessu getur þjóðin risið - og undir þessu verður þjóðin að rísa, bæði til þess að sýna hvers hún er megnug og til þess að sýna hvað hún vill: góð samskipti við aðrar þjóðir.

Möguleikar Íslendinga í framtíðinni eru fjölmargir og afkoma þjóðarinnar trygg ef auðlindir og mannauður eru rétt nýtt og lýðskrum og rangar upplýsingar villa mönnum ekki sýn.


Skuldir óreiðumanna

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri iðnaðarins, skrifar í dag grein í Morgunblaðið, sem er skýr, skorinorð og vel skrifuð.

Erfitt er hins vegar fyrir óbreytta alþýðumenn eins og mig að átta mig á hinum æðri fjármálavísindum. Hins vegar skil ég vel orð Jóns Steindórs þegar hann segir að mikilvægasta verkefni Íslendinga sé að efla og treysta atvinnulífið hratt og örugglega svo það geti aflað þjóðarbúinu tekna til þess að standa undir skuldbindingum þjóðarinnar.

Jón Steindór bendir á að endurreisa verði  traust alþjóðasamfélagsins á íslensku atvinnulífi. Slíkt sé forsenda þess, að íslensk fyrirtæki  geti átt eðlileg viðskipti við umheiminn. Þess vegna eigi Alþingi ekki annan kost en samþykkja frumvarpið um Icesafe til þess að deilur við nágrannaríki dragist ekki á langinn. Íslenskt atvinnulíf geti ekki búið við óvissu og einangrun.

Þetta kann allt að vera satt og rétt. Hins vegar er ekki ljóst hverjar raunverulegar skuldbindingar Íslendinga eru, þ.e.a.s. ríkissjóðs eða almennings. Skuldbindingar Landsbankans vegna Icesafe eru ekki skuldbindingar ríkissjóðs eða almennings.

Það er síðan hlutverk sjálfstæðra atvinnufyrirtækja á Íslandi og samtaka þeirra, Samtaka atvinnulífsins, að endurreisa traust alþjóðasamfélagsins á atvinnulífi á Íslandi. Traust alþjóðasamfélagsins á öðrum þáttum íslensks samfélags hefur ekki beðið tjón, s.s. traust á háskóla- og rannsóknarsamfélaginu, listum og menningu lands og þjóðar, og enn eigum við marga vini í útlöndum.

Vilji erlend fyrirtæki sækja íslensk fyrirtæki til saka vegna skulda eða vanefnda, verður að láta reyna á það fyrir dómi. Varnarþing íslenskra fyrirtækja er á Íslandi, eins og gamall nemandi minn, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, hefur bent á og Davíð Oddsson og fleiri hafa tekið upp eftir honum. Svo einfalt er það.

Samþykki Alþingi núverandi Icesafe samning, er lagður skuldaklafi á almenning í landinu um ófyrirsjáanlega framtíð. Þá er verið að hengja bakara fyrir smið og íslenskir launþegar og látnir greiða "skuldir óreiðumanna". Það er ekki réttlæti heldur fullkomið ranglæti. 

Samtök atvinnulífsins undir styrkri stjórn Jóns Steinars Valdimarssonar, gamals nemanda míns, verða að finna leið til þess að endurreisa íslenskt atvinnulíf og traust alþjóðasamfélagsins á því. Það erhlutverk þeirra.


Orðvísi Davíðs

Eins og oft áður ratast Davíð Oddsyni satt orð á munn og  hann kemur betur orðum að skoðunum sínum en flestir aðrir, þótt stundum sér kjaftur á keilunni þegar hún gapir. 

Viðtal hans í MBL á morgun, sunnudag, á vonandi eftir að hrista upp í mönnum, ekki síst alþingismönnum. Í ljósi upplýsinga þeirra, sem koma fram koma í viðtalinu, verða íslenskt stjórnvöld, Alþingi og rikisstjórn, að endurskoða afstöðu sína frá grunni. 

Tvennt í viðtalinu er merkilegast að mínum dómi. Í fyrsta lagi niðurstöður skýrslu nefndar OECD sem fjallaði um evrópsk tryggingamál og innstæðutryggingar og unnin var undir stjórn núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet. Í skýrslunni segir að innstæðutrygginakerfið gildi ekki ef um algert bankahrun sé að ræða í viðkomandi landi.

Hitt atriðið, sem Davíð Oddsson bendir á af glöggskyggni sinni,  er að varnarþing mála, sem tengjast Icesafe, er á Íslandi.  Vilji einhver sækja mál á hendur Landsbankanum eða íslenska ríkinu skal málið rekið fyrir íslenskum dómstólum. Þarf frekar vitnanna við.

 


Réttur Íslendinga, svar til Sighvats Björgvinssonar

Kynlegt var að lesa grein Sighvats Björgvinssonar, gamals alþingismanns og ráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Greinina nefnir hann „Ábyrgð Íslendinga“. Engan gæti grunað af orðfæri greinarinnar og röksemdafærslu höfundar, að þar færi gamall jafnaðarmaður, ráðherra gamla Alþýðuflokksins, flokks jafnaðarmanna. Í greininni segir:

„Þetta er ekki spurning um auðmagn, vonda kapítalista. ... Þetta er spurning um hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína annars vegar á Íslandi og hins vegar í öðrum löndum. Hvernig ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú ætlar að koma fram viðósköp venjulegt fólks eins og þig og mig. “

Þetta er vond latína úr munni gamals jafnaðarmanns fyrir utan rökleysurnar. Auðvitað er hrunið spurning um „vonda kapítalista“ - ekki spurning um „ábyrgð Íslendinga“, allra síst venjulegs fólks. Auk þess var það ekki almenningur, alþýðan, sem lagði inn á reikninga íslenskra banka í útlöndum. Það voru smáborgarar sem ætluðu sér að verða auðugir. Fégræðgin, sem er upphaf alls ills, blindaði þá.

Þegar gamli ráðherrann spyr hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína á Íslandi, felst í því augljós rökleysa, eins og víðar í greininni. Þá getur gamall alþingismaður og ráðherra ekki talið sig í hópi „venjulegs fólks“, þótt hann gjarna vildi. Hann er í hópi blindra - svo ég segi ekki spilltra stjórnmálamanna, sem heyra fortíðinni til, en reyna enn að láta á sér bera og kenna öðrum um og gangast helst ekki við eigin ábyrgð.

Sannarlega þurfum við Íslendingar að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, eins og við höfum reynt. Hins vegar hafa afvegaleiddir jafnaðarmenn í Bretlandi, flokksbræður gamla ráðherrans, sett Íslendinga á bekk með hryðjuverkamönnum - og á þann vönd kyssi ég ekki, þótt gamli ráðherrann geri það.

Íslendingar eiga margra kosta völ og geta selt dýrmætar vörur sínar til annarra en ójafnaðarmannanna í Evrópusambandinu og byggt upp traust lýðræðisþjóðfélag jafnaðarmanna og jafnréttis á öllum sviðum á grunni sögu okkar og menningar, mannauðs og náttúruauðlinda sem seint þrýtur. Þá getur gamli ráðherrann áfram keypt föt frá útlöndum.

Og að lokum þetta: Íslenska þjóðin hefur ekki glatað trausti nágranna sinna á Norðulöndum, eins og gamli ráðherrann segir. Þar eigum við enn vini og þá vináttu skulum við rækja, eins og gamall samstarfsráðherra Norðurlanda hlýtur að skilja.

 


Þjóðstjórn og gerðardómur

Hvenær er ástæða til að mynda þjóðstjórn - ef ekki nú - og hvers vegna leggur ríkisstjórnin ekki deiluna um Icesafe í alþjóðlegan gerðardóm til þess að hljóta hlutlausa málsmeðferð?

Vonandi fellir Alþingi samninginn um Icesafe og leggur deiluna í gerðardóm svo að stjórnmálamenn neyðist til að mynda þjóðstjórn og leysa þjóðina úr skuldafjötrum - og sýna hvað í þeim býr.

Fólk sem kosið er til setu á Alþingi verður að sýna að það geti snúið bökum saman á örlagastundu og kunni annað en málróf og útúrsnúninga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband