Óvinur fólksins - frábær sýning þjóðleikhússins

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit Henriks Ibsens Óvinur fólksins í leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur, sem er leikstjóri.  Er leikgerðin allverulega stytt en kemur ekki að sök.  Leikmynd og búninga gerði Eva Signý Berger og tónlist og hljóðmynd Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson.

Leikritið heitir á norsku En folkefiende og er skrifað árið 1882 og var í fyrri þýðingu á íslensku nefnt Þjóðníðingur.  Bandaríski rithöfundurinn Arthur Miller gerði leikgerð af verkinu á sjötta áratug síðustu aldar og kallaði það An Enemy of the People, sem hlaut mikla athygli, enda var þetta á tímum ofsókna í Bandaríkjunum á hendur róttæku fólki, svo kölluðum MacCarthy tímanum. 

Leikritið Óvinur fólksins er eitt frægasta verk Henriks Ibsens.  Verkið fjallar um átök í smábæ í Noregi.  Þar hafa verið stofnuð heilsuböð sem draga að sér fólk víðs vegar að og eru böðin orðin undirstaða atvinnulífs og velmegunar í bænum.  Hins vegar kemur í ljós að vatnið í böðunum er mengað, eitrað, frá verksmiðju sem rekin hefur verið í bænum þrjá mannsaldra.  Bæjarstjórinn, Katrín Stokkmann, sem leikin er af Sólveigu Arnarsdóttur, vill leyna menguninni og reyna að finna leiðir til þess að bjarga böðunum og bæjarsamfélaginu, en bróðir hennar, læknirinn Tómas Stokkmann, sem Björn Hlynur Hallsson leikur, vill upplýsa almenning um málið.  Skiptist fólk í tvær andstæðar fylkingar sem takast á, en margir skipta um skoðanir og sumir oftar en einu sinni.  Einn er sá sem ekki skiptir um skoðun og það er læknirinn og vísindamaðurinn sem vill berjast fyrir lýðræði og sannleika.

Verkið lýsir á áhrifamikinn hátt hverjir hafa vald yfir sannleikanum og hvernig má skrumskæla lýðræðið.  Lokaorð verksins eru orð Tómasar Stokkmanns: „Ég gerði nýja uppgötvun. Þegar maður berst fyrir sannleikanum, þarf maður að standa einn.  Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn.  Ég er sá maður.  Ég er sterkasti maður heims.”  Á norsku hljóða lokaorð Stokkmanns: „Den sterkeste mann i verden, det er han som står mest alene.”

Hljóðmyndin er afar áhrifamikil og leikmyndin frábær, sýnir hinn lokaða heim iðnaðarsamfélagsins með járnmöstrum og byggingum úr stáli.  Verkið kallast á við samtíma okkar þar sem takast á gróðahyggja og mengun annars vegar og hins vegar krafa um valddreifingu, velsæld og mannvirðingu. 

Þessi sýning Þjóðleikhússins á leikritinu Óvinur fólksins er ein áhrifamesta sýning sem undirritaður hefur séð um langan tíma og leiðir í ljós að óvinir fólksins í samtíma okkar eru margir.


Snjalltæki, skólastarf og íslenskt tunga

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt og ritað um samskipti Íslendinga við snjalltæki, einkum tæki og tól á borð við eldavélar, ísskápa og ekki síst bíla framtíðarinnar, sem einvörðungu muni skilja ensku í samskiptum við notendur. Telja sumir þessi „enskumælandi” snjalltæki gangi að íslenskri tungu dauðri. Þótt erfitt sé að spá – einkum um framtíðina – er það spá mín, að aðrir þættir gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli, enda hefur komið í ljós að unnt er að nýta tækni sem gerir samskipti við snjalltæki á íslensku auðveld. Það sýnir m.a. árangur íslenskra starfsmanna hjá Google eins og getið var um í fréttum á dögunum. 

Á netinu er vefsíða Snjallskólans, en netfang hans er: http://www.snjallskoli.is. Þar er að finna greinar og upplýsingar um ýmislegt sem hefur verið að gerast í samskiptum Íslendinga við snjalltæki undanfarin ár. Ritstjóri vefsíðunnar, Sveinn Tryggvason rekstrarverkfræðingur, segir í kynningu, að tilgangurinn með vefnum sé að safna og miðla upplýsingum til kennara og nemenda og annarra sem láta sig menntun varða og leggja eitthvað af mörkum í umræðunni um skólastarf á Íslandi í von um betri menntun og betri skóla. Eitt af markmiðunum með Snjallskólanum sé að stuðla að því að nám í skólum á Íslandi búi nemendur betur undir framtíðina, stuðla að betri – „snjallari“ – skólum á Íslandi, skólum sem búi nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi og frekara nám. Snjalltæki, s.s. snjallsími og spjaldtölva, hafi rutt sér til rúms á örfáum árum og hafi þegar sett mark sitt á íslenskt samfélag. Sé rétt á málum haldið geti notkun snjalltækja í skólastarfi valdið straumhvörfum á öllum skólastigum og haft áhrif á hvernig kennarar kenna og hvernig nemendur læra, hvað þeir læra og hvenær þeir læra. Snjallskóli muni fjalla um og hvetja til umræðu um þessi mál. Jafnframt sé ástæða til að fjalla um áhrif snjalltækja, samfélagsmiðla og annarrar tækniþróunar síðustu ára á félagsleg tengsl fólks, líðan nemenda og aðra þætti sem koma námi og kennslu við og eru óneitanlega hluti af skólastarfi og samvinnu heimilis og skóla.

Við þetta má bæta, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku. Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar bæði á Íslandi og erlendis en nokkru sinni áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, bókmenntum, sagfræði, fornleifafræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í háskólum á Íslandi og í öðrum annarra rannsóknarstofnunum. Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því starfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf.  

Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.


Snjalltæki og íslensk tunga

Samskipti Íslendinga við snjalltæki verða íslenskri tungu ekki að falli. Unnt er að nýta tækni sem gerir samskiptin auðveld og einföld. Það sýnir frábært starf íslensku starfsmanna Google sem getið var um í fréttum á dögunum. Það eru aðrir þættir sem gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli.

Þá ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku.

Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar en áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, málnotkun, bókmenntum, sagfræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla á Íslandi og annarra rannsóknarstofnana.

Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir - og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því málræktarstarfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf.

Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband