Hugarafl - opið samtal

Undanfarin fimmtán ár hefur fagfólk innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: sálfræðingur, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og jógakennari starfað í teymi í samvinnu við Hugarafl, sem eru frjáls samtök þeirra sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu.  Starf teymisins er nefnt „geðheilsa-eftirfylgd” og er hornsteinn þjónustustarfs sem byggir á nýrri leið innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins í samræmi við áherslur í aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum, ályktun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, þar sem megináhersla er lögð á opin úrræði og samstarf við þá sem á hjálp þurfa að halda – og fjölskyldur þeirra – sem geta leitað eftir þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.  Orðið valdefling felur í sér að hafa vald til þess að taka ákvarðanir sjálfur, hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum og læra að hugsa á gagnrýninn hátt og hafa áhrif á eigin líf og efla jákvæða sjálfsmynd sína og vinna bug á fordómum.

Nú hefur yfirstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ákveðið að leggja niður fjögur stöðugildi, tengd þessu hjálparstarfi – án rökstuðnings – og heilbrigðisráðherra hefur enn ekki lagt til lausn á málinu sem henni ber skylda til.  Fella á þetta hjálparstarf undir tilvísanakerfi og þeir, sem á hjálp þurfa að halda, geta ekki lengur leitað beint til þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.

 

Fimmtán ára starfi kastað fyrir róða

Árið 2016 fengu á sjötta hundrað einstaklingar reglubundna þjónustu „geðheilsu-eftirfylgdar”. Það ár leituðu nær 900 einstaklingar beint til Hugarafls.  Voru komur þessa fólks yfir 12 þúsund.  Veitt voru yfir 2000 viðtöl (símaviðtöl ekki meðtalin), auk vitjana, þjálfunar á vettvangi og útkalla vegna bráðatilfella. 

Nú á að kasta fyrir róða fimmtán ára starfi þar sem brotið var blað í hjálp við þá sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu sinnar.  Guðný Björk Eydal, prófessor við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, telja starfið sé einstök þjónusta sem ekkert annað úrræði veitir með sama hætti. „Aðferðir sem byggja á hugmyndafræði valdeflingar og aðferðum batalíkans hafa á undanförnum árum verið grunnstef í alþjóðlegri stefnumótun í geðheilbrigðismálum,” eins og segir í greinargerð Guðnýjar Bjarkar og Steinunnar Hrafnsdóttur.

 

Áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar

Sem kennari hálfa öld, þar sem ég horfði upp á vanmátt nemenda sem máttu sín minna og áttu fáa úrkosti, og sem aðstandandi einstaklinga sem hafa þurft á hjálp að halda vegna geðheilsu, skora ég á forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, Alþingi og Verferðarsvið Reykjavíkurborgar að reka af sér slyðruorðið og gefa Hugarafli kost á að vinna áfram að „geðheilsueftirfylgd”, sem er hornsteinn þjónustustarfs við þá sem glíma við geðheilsu og byggir á nýrri leið, bæði innan hins  íslenska og hins alþjóðlega geðheilbrigðiskerfis.

 

 


Staða og framtíð íslenskrar tungu

Mikið er rætt um stöðu og framtíð íslenskrar tungu, fornlegustu tungu Evrópu sem hefur varðveitt tvennt sem flest önnur germönsk mál hafa tapað: fallakerfi og gagnsæja merkingu orða og orðstofna. Skoðanir eru hins vegar mjög skiptar um stöðu og framtíð íslenskunnar, sem margir telja er á fallanda fæti.

Á ráðstefnu í Hagaskóla í Reykjavík í síðustu viku um skort á íslensku lesefni fyrir ungt fólk var því haldið fram að íslenskan væri í mikilli hættu vegna þess að nemendur á grunnskólaaldri leita frekar að nýju lesefni á ensku en á íslensku og Hildur Knútsdóttir rithöfundur sagði á ráðstefnunni að ekki væri unnt að lifa af því að skrifa barnabækur á Íslandi.

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og alþingismaður sagði í þingræðu á dögunum, að rannsóknir heima og erlendis hefðu leitt í ljós að „yndislestur”, sem hann kallaði svo, gegndi lykilhlutverki í því að efla lesskilning. „Við þurfum vitundarvakningu, við þurfum aukinn sýnileika og framboð bóka í daglegu lífi, við þurfum að gera barnabókahöfundum kleift að sinna skriftum með því að efla sjóði sem þeir geta leitað í. Stjórnvöld verða að líta á það sem forgangsmál að stórefla bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, þau þurfa að hætta skattlagningu á bækur og þau þurfa að fylla skólabókasöfnin af nýjum og ilmandi bókum,” sagði Guðmundur Andri.

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, formaður Rithöfunda-sambands Íslands, lét svo um mælt í viðtali í RÚV, að meinið lægi djúpt, unglingar tali saman á ensku, sem ógni hugsun, og að Íslendingar væru ekki stoltir af tungumáli sínu.

Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku við Háskóla Ísland, ræddi um stöðu íslenskunnar í Kastljósi í síðustu viku.  Taldi hann m.a. að vegna vinnuálags hefðu foreldrar lítinn tíma til að sinna börnum sínum og stytting vinnuvikunnar gæti orðið foreldrum til hjálpar við að tala við börn sín eins og fullorðið fólk og samræðan við matarborðið skipti þar miklu máli.

Þá eru tölvur og tölvuleikir oft nefndir sem ógn við íslenska tungu og valdi því að mörg börn og unglingar vilja helst tala saman á ensku. Þá er ógn talin standa af snjalltækjum þar sem samskiptamálið er enska og ekki nóg að gert til þess að mæta þeirri ógn. 

Skiptar skoðanir eru því um stöðu og framtíð íslenskrar tungu. Enginn vafi leikur á að við þurfum að vera á varðbergi.  Hins vegar ber að hafa í huga,  að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi tjáningartæki en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni.  Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og listgreinar sem byggja á tjáningu málsins, svo sem kvikmyndagerð og útvarps- og sjónvarps-þættir, standa með miklum blóma. Fleiri vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarinn aldarfjórðung en nokkru sinni. Auglýsingar eru nú gerðar af meiri hugkvæmni en áður og gamanmál hafa breytt og lyft íslenskri fyndni.  

Hins vegar verða Íslendingar að vera á varðbergi – ekkert gerist af sjálfu sér. Þrennt skiptir mestu máli um varðveislu tungunnar: skáldin, heimilin og skólarnir, en heimilin og skólarnir eru tvær mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar, og tvær mikilvægustu stéttir samfélagsins eru  foreldrar og kennarar. Með hjálp foreldra, skólanna – og skáldanna og á grundvelli sterkar þjóðtungu og áhuga almennings á tungunni mun íslenskan halda velli um ófyrirsjáanlega framtíð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband