Færsluflokkur: Menning og listir

Gulur, rauður, grænn og blár

Hver er sá veggur víður og hár

veglegum settur röndum:

gulur, rauður, grænn og blár

gerður af meistarans höndum

 

Flestir þekkja þessa gátu, þennan húsgang, en höfundur er ókunnur.  Í gamalli rímu er vegg keisarahallarinnar í Miklagarði lýst þannig:

 

Veggurinn bæði víður og hár,

vænum settur röndum,

grænn og dökkur, rauður og grár

og gjörr af meistara höndum.

 

Sennilegt er að gátan sé gerð eftir vísu rímunnar. Ráðningin er ekki veggur keisarahallarinnar í Miklagarði heldur regnboginn, eins og lesendur þekkja. Litir regnbogans eru að vísu gulur, rauður, grænn og blár - yst rauði liturinn, svo gulur, þá grænn og innst blái liturinn, eins og í listaverki Rúríar REGNBOGINN sem stendur við flugstöðina í Keflavík.

Mörgum reynist erfitt að nefna liti réttu nafni, enda eru litirnir orðnir fleiri en litirnir í regnboganum. Í maí 2011 skrifaði frönskumælandi Kanadabúi, Étienne Poisson, ritgerð við Háskóla Íslands undir leiðsögn Jóns Axels Harðarsonar prófessors um litarorðaforða í íslensku. Segist hún hafa ákveðið að „skrifa um liti vegna þess að þrátt fyrir góða kunnáttu í íslensku finnst mér ég oft ekki vera sammála Íslendingum þegar kemur að því að lýsa litum. Maður spyr sig stundum hvort aðrir sjái lit á sama hátt. Þetta stafar af einkar huglægu eðli lita, enda torskilgreinanlegt fyrirbæri. Öll tungumál eru fær um að lýsa litum, en tungumál eru með mismörg og nákvæm orð um þá. Ólíkt hlutlægum hlutum eins og trjám eða steinum eru litir ekki eins takmarkaðir – menn eru stundum ósammála um það hvað einn eða annan lit ætti að kalla. Til dæmis eru ljósir hestar oft sagðir vera gráir á íslensku, en hvítir á frönsku.” Og hún spyr:  

„Hvernig þróast litarorðaforði? Eru algildar reglur um það? Hvernig flokkast litarorð? Eru öll tungumál með orð yfir sömu litina? Hvaða áhrif hefur móðurmál manns á orðaval þegar kemur að því að lýsa lit? Hvað eru grundvallarlitarorð og hvers vegna eru ekki öll litarorð grundvallarlitarorð? Hvað hefur íslenska mörg litarorð? Hvaðan koma þau? Hversu mörg þeirra eru gamall arfur og hversu mörg eru af erlendum uppruna? Hvernig er íslenska frábrugðin móðurmáli mínu, Québec-frönsku?”

 

Fróðlegt er að lesa ritgerð Étienne Poisson um litarorð í íslensku.

 


Svartur og ljótur og líkur föður sínum

Hálft fjórða ár hef ég skrifað þætti um íslenskt mál, málfræði, málsögu, mannanöfn, örnefni - og menningarsögu í blað okkar Akureyringa, Vikudag. Til gamans birti ég hér 182. þátt á þessum drottins degi 11. júní 2015 -    en þversumman af 182 er 11.

Í upphafi Egils sögu segir frá því, að Salbjörg Káradóttir frá bænum Berðlu á eynni Bremanger, miðja vegu milli Björgvinjar og Álasunds, og Úlfur, sonur Bjálfa og Hallberu, systur Hallbjarnar hálftrölls, ættaður norðan af  Hálogalandi, hafi átt tvo syni. Hét hinn eldri Þórólfur en hinn yngri Grímur. En er þeir uxu upp voru þeir báðir miklir menn og sterkir, svo sem faðir þeirra. Þórólfur var manna vænstur og gjörvilegastur og líkur móðurfrændum sínum og vinsæll af öllum mönnum. „Grímur var svartur maður og ljótur, líkur föður sínum, bæði yfirlits og að skaplyndi,” eins og segir í sögunnu.

Nafngiftir voru á þessum tíma með öðrum hætti en nú, enda aðstæður og viðhorf ólík. Sum nöfn frá landnámsöld hafa hins vegar haldist alla tíð. Mannsnafnið Úlfur er eitt af mörgum dýranöfnum sem mönnum voru gefin, ef til vill til þess að þeir öðluðust styrk úlfsins. Nafnið hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, þótt lengi væri það sjaldgæft. Árið 1910 hétu aðeins tveir þessu nafni. Nú bera 149 karlmenn nafnið sem fyrsta eiginnafn.

Nafnið Bjálfi hefur alla tíð verið sjaldgæft. Eru raunar engin dæmi um það á Íslandi. Orðið bjálfi merkir „skinnfeldur” eins og orðið héðinn, sem þekkt er sem mannsnafn Íslandi allar götur. Sennilegt er að bæði nöfnin hafi upphaflega verið notuð um þá sem gengu í skinnfeldum - væntanlega bjarnarfeldum.

Kvenmannsnafnið Hallbera merkir „steinbirna” - hugsanlega birna sem býr undir steini. Nafnið kemur fyrir í Landnámu og Sturlungu og hefur tíðkast á Íslandi alla tíð. Í manntalinu 1702 báru 132 konur þetta nafn. Nú bera aðeins 16 konur nafnið sem fyrsta eiginnafn. Hallbjörn er af sama toga og kvenmannsnafnið Hallbera og hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, sjaldgæft í fyrstu, en nú bera 25 nafnið sem fyrsta eiginnafn.

Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, bar viðurnefnið hálftröll. Orðið tröll gat á þessum tíma merkt Finni eða Sami, þ.e.a.s. maður af samísku bergi brotinn. Orðið hálftröll merkir því „hálfur af kyni Sama eða Finna”. Samar, sem á þessum tíma voru nefndir Finnar í norrænum ritum, töluðu - og tala samísku, úralskt mál sem á rætur að rekja til Úralfjalla eða jafnvel enn legra að. Samar voru taldir göldróttir og sagðir búa yfir töfrum, sbr. íslenska orðið trölldómur og norska orðið trolldom sem merkja „galdrar”. Auk þess klæddust Samar bjarnarfeldum, sem vopn bitu ekki á, og var það talið yfirnáttúrulegt. Samar voru síðar nefndir lappar, en norska orðið lapp merkir m.a. „skinndrusla” og notað um þá sem klæddir voru í leppa úr skinni, sbr. leppalúði. Orðið lappi er raunar af sama toga og orðið skrælingi, sem leitt er af orðinu skrá „skinn”, notað um þann sem klæddur er skinnklæðum.

En mannsnafnið Grímur merkir „dökkur” eða „svartur”. Grímur hefur því borið nafn með réttu: „svartur maður og ljótur, líkur föður sínum”. Í Landnámu er getið tvíburnanna Geirmundar og Hámundar, sona Hjörs konungs Hálfssonar, sem báru viðurnefnið heljarskinn. Bendir viðurnefnið til þess að þeir hafi verið dökkir - borið hörundslit Heljar, en móðir þeirra bræðra hét Ljúfvina, dóttir Bjarmakonungs, og var því af samísku bergi brotin. Bræðurnir Geirmundur og Hámundur voru því „hálfir af kyni Sama” - hálftröll, eins og Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, og nóg um það að sinni.


Sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár

Sagt er að dýpsta speki mannlegrar hugsunar og mesta fágun máls komi fram í ljóðum. Ástæður þess eru margar. Í fyrsta lagi hafa ljóð fylgt skapandi hugsun mannsins frá örófi alda. Í öðru lagi hafa ljóð - og raunar annar kveðskapur - frá upphafi tengst föstu formi; af þeim sökum er orðum ekki eytt í óþarfa heldur hvert einstakt orð hugsað, vegið og metið. Í þriðja lagi eru skáld í ljóðum sínum að fást við hugsun, tilfinningar, upplifun - og dýpstu gátur lífsins, heimspeki eða spekimál, eins og það hefur verið nefnt. Skáld er því miklir orðasmiðir og upphafsmenn nýmæla í tungumáli, auk þess sem „skáld eru höfundar allrar rýni“, eins og hinn lærði Íslendingur, höfundur Fyrstu málfræðiritgerðar, segir um miðja 12tu öld.

Nú er verið að taka saman sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár. Sýnisbókin á að geyma úrval ljóða, heil kvæði eða einstakar vísur íslenskrar kveðskaparlistar, allt frá Hávamálum og Völuspá til Snorra Hjartarsonar, Hannesar Péturssonar og Gerðar Kristnýjar. Ljóðin og vísurnar í sýnisbókinni eiga að fela í sér lífsviðhorf eða lífsspeki, sem á erindi við hugsandi lesendur á hraðfara öld, ellegar áhrifamiklar náttúrumyndir og myndir úr mannlífinu sem hrífa eða vekja lesandann til umhugsunar. Ljóðin, vísurnar og kvæðin eru þannig valin að þurfa ekki að sérstakrar skýringar við. Mikill vandi er að velja í slíka sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár, eins og gefur að skilja, enda koma margir að vali á ljóðunum.

Óvíst er að margar þjóðir eigi jafn lifandi kveðskapararf og Íslendingar. Stafar það einkum af því að íslenskt mál hefur haldist lítið breytt í þúsund ár. Áhugasamur lesandi getur því lesið þúsund ára gamla texta fyrirhafnarlítið. Þá hefur kveðskapur verið þjóðaríþrótt Íslendinga frá upphafi búsetu í landinu og flestir Íslendingar hafa einhvern tíma reynt að yrkja kvæði eða gera stöku. Kveðskapur var einnig skemmtun Íslendinga á dimmum kvöldum, ekki síst rímurnar sem voru myndrænir framhaldsþættir þess tíma.

Elsta vísa í fyrirhugaðri sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár er ein af upphafsvísum Hávamála, en meginhluti spekimála kvæðisins er sennilega ortur á níundu og tíundu öld en mikið af hugsun kvæðisins er langt að kominn. Vísan er svohljóðandi:

 

Vits er þörf

þeim er víða ratar,

dælt er heima hvað.

Að augabragði verður

sá er ekkert kann

og með snotrum situr.

 

Þessi vísa á að vera auðskiljanleg áhugasömum og hugsandi lesendum. 

Ein yngsta vísa í sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár er ljóðið Við vatnið eftir Gerði Kristnýju úr ljóðabók hennar Höggstað sem út kom árið 2007:

 

Hvítir fyrir hærum

skríða hamrarnir

út úr nóttinni

 

Grátt fyrir járnum

ryður frostið veginn

 

Skammlíf birta

skreytir himin

 

Gul fyrir genginni stund.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband