Lifandi stjórnarskrá

Grundvöllur að mannlegu samstarfi og samskiptum er traust, hvort heldur er í fjölskyldu og hjónabandi, fyrirtæki, stofnunum eða samfélaginu sjálfu. Í samfélaginu er mikilsvert, að almenningur geti borið traust til grundvallar- stofnana ríkisins: Alþingis, framkvæmdavaldsins og dómstólanna.

Þessu er því miður ekki að heilsa í íslensku þjóðfélagi, þjóðfélagi sem státar sig af því að eiga elsta löggjafarþing í Evrópu og kom þegar á þjóðveldisöld á fót fullkomnara dómskerfi en nokkurt annað land. Framkvæmdavald var að vísu ekki til og eini embættismaður ríkisins var lögsögumaðurinn, sem „sagði upp lögin” og var í raun lifandi stjórnarskrá þjóðveldisins.

Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920.

Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í sögu lýðveldisins, töldu margir að tími væri kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að “danska” stjórnarskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu – móta nýtt Ísland – eftir að í ljós kom glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum.

Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og augljós fyrirlitning stjórnmálamanna – svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum – hefur kynt ófriðarbál sem enn brennur með þjóðinni og hefur tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.

Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi – ekki síst frumstæð og ómálefnaleg umræða á Alþingi – gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum. Með nýrri stjórnarskrá – nýjum þjóðarsáttmáli – má vænta þess að unnt verði að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum.

Þetta er eina von alþingismanna sem þeim gefst um langan tíma að efla traust almennings á Alþingi. Óskandi er að alþingismenn þekki sinn vitjunartíma, hætti að rífast og vindi sér í að ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland sem borin yrði undir atkvæði við alþingiskosningar næsta vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Miklir guðsvolaðir hroka gikkir getið þið menntamenn verið Tryggvi. 

Megum við einföld og vesöl ekki hafa stjórnarskránna sem við fengum með frelsinu og skapaði okkur áræði og gaf okkur rými til athafna sem skapaði ykkur nútíma hræsnurum Pening til menntunar, til að niður níða niður undirstöðuna sem ber uppi hroka ykkar?  Eru virkilega allar erlendar stjórnarskrár rusl?  

  

Hrólfur Þ Hraundal, 24.10.2012 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband