Í upphafi var orðið - og Jónas Hallgrímsson

Í frumgerð Nýja testamentisins, sem ritað er á grísku, segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls í íslensku þýðingunni: Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.  Þar sem stendur Orðið í íslensku þýðingunni er í gríska frumtextanum notað logos, sem merkir „skynsemi”, „lögmál”, „skipulag” – og „orð”.  

Gríska orðið logos hefur mismunandi merkingar, enda nota grískir heimspekingar það á ólíkan hátt.  Þales frá Míletos [um 625-543 f. Kr.] er sagður fyrstur hinna miklu grísku heimspekinga nota orðið logos um „rökhugsun”.  Heimspekingurinn Heraklítos frá Efesos [um 535 til um 475 f. Kr.], taldi orðið tengja saman skynsamlega umræðu og uppbyggingu heimsins.  Einn þáttur í kenningum hans er að allt væri breytingum háð.  Hið eina sem væri óumbreytanlegt væri hverfulleiki hlutanna sem hann lýsti með orðunum panta rei sem merkja: allt streymir fram.  Margir heimspekingar, rithöfundar og skáld hafa tekið þessa hugmynd upp eftir honum. En Heraklítos taldi einnig að einhvers konar heimsskynsemi stjórnaði öllu í náttúrunni, en áleit hins vegar að hver einstaklingur stjórnaðist af eigin skynsemi og hefði sjálfstæðan vilja.

Sókrates [469-399 f. Kr.] og flestir heimspekingar, honum samtíða eins og sófistarnir, notuðu orðið logos um „fræðilega umræðu” og „fræðilega þekkingu” og  Aristóteles [384-322 f. Kr.] notaði hugtakið logos um „rökstudda umræðu” eða „rökin í orðræðunni”.

Stóumenn, en upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kíton [333-264 f. Kr.], notuðu logos um guðlega skynsemi sem þeir töldu ráða heiminum og gegnsýra allt.   Alheimsskynjunin væri uppspretta þeirra lögmála sem gilda um samfélagið og stjórn þess. Í hverjum manni væri neisti af hinum guðdómlega eldi, skynseminni sjálfri.

Heimspekingurinn Fílon, sem var samtímamaður Krists og sjálfur gyðingur en starfaði lengst af í Alexandríu, notaði gríska orðið logos um tengsl milli guðs og heimsins, þ.e.a.s. um þá skipan eða það lögmál sem gilti þar á milli.  Margir telja upphafsorð Jóhannesarguðspjalls endurspegli þessar hugmyndir sem mótuðu hugmyndir kristinna heimspekinga um hinn þríeina guð.

Orðin í upphafi Jóhannesarguðspjalls merkja því, að í upphafi hafi verið skipan og sú skipan hafi verið hjá guði og sú skipan hafi verið guð sem síðan birtist heiminum í mynd frelsarans Jesú Krists, sbr. orð Opinberunarbókarinnar: „Hann var skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er Orðið Guðs.”

Rómversku stóuspekingarnir Cicero [104 - 43 f. Kr. ], Seneca [4. f. Kr.- 65 e. Kr.] og Markús Árelíus 121-180 e. Kr.] töldu að líkt og heimur mannsins væri hluti af alheimninum, kosmos, væri skynsemi mannsins hluti af logos, eins og þeir nefndu alheimsskynsemina.

Af því sem hér hefur verið rakið, virðist hugtakið logos í upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls ekki ná til meginþátta í merkingu gríska orðsins.  Orðið logos felur í sér merkinguna lögmál, hugsun, skipan – auk merkingarinnar orð.  Ef til vill hefði því verið eðlilegra að þýða orðin þannig: Í upphafi var hugsun og hugsunin var hjá Guði og hugsunin var Guð.

 

Rómantíska stefnan og guð

Rómantíska stefnan kom fram í listum og stjórnmálum í Evrópu í lok 18. aldar og tók við af upplýsingarstefnunni, þótt margt úr upplýsingunni lifði áfram í rómantísku stefnunni á sama hátt og viðhorf rómantísku stefnunnar hafa lifað fram á þennan dag.

Rómantíska stefnan byggir á arfi allt frá grísku heimspekingum á öldunum fyrir Krists burð.  Sagt er að kenningar Platons um ríkið marki upphaf fræðanna um stjórnmál og með frummyndakenningu sinni hafi hann viljað renna stoðum undir siðfræði Sókratesar sem gekk gegn afstæðishyggju sófista. Kenningar Platons voru síðan endurvaktar í stefnu sem kölluð hefur verið nýplatónismi, en helsti frumkvöðull hennar var Plótínos sem uppi var á þriðju öld.  Í lok fornaldar blandaðist nýplatónismi kristinni dulfræði og allt þetta rennur saman í rómantísku stefnunni í sinni miklu mynd.

Lykilorð rómantísku stefnunnar eru: þrá, endurminning, sannleikur, frelsi og ást. Áhersla er lögð á tilfinningar einstaklingsins og að veruleikinn væri ekki einungis sýnileg tilvera heldur óáþreifanlegur og dulin verund – og í þessari duldu verund væri að finna algildar fyrirmyndir hugmynda manna um veruleikann.  Er þetta endurómur af kenningum Platons um frummyndirnar.

Samkvæmt kenningum rómantískustefnunnar er óræð uppspretta heimsins, sem Platon og aðrir grískir heimspekingar veltu fyrir sér, hið sama og guð. Hefur þessi hugmynd verið nefnd algyðistrú, panþeismi, og kemur fram í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.  Sagt er að í algyðistrú búi þrá eftir því sem er ekta og ósnortið í náttúrunni.  Er oft vitnað til þýska heimspekingsins Friedrichs Schellings [1775-1854] sem taldi að guð væri í náttúrinni, en Schelling er talinn fremsti heimspekingur rómantísku stefnunnar.  Fræg eru orð hans: „Náttúran er hinn sýnilegi andi og andinn er hin ósýnilega náttúra.” 

Rómantíska stefnan horfir á náttúruna frá sjónarhóli fegurðar þar sem upplifun einstaklingsins skiptir mestu.  Lengi hafði verið litið á náttúruna frá hagnýtissjónarmiði.  Í ljóðum sínum leitar Jónas Hallgrímsson víða að fegurð og að almættinu í náttúrunni og hann persónugerir náttúruna og telur að í náttúrunni birtist almættið í sannri fegurð sinni.  Af þessum sökum má segja að Jónas hafi fundið fegurð íslenskrar náttúru ljóðum sínum.

Í Hulduljóðum, kvæðabálki sem Jónas lauk aldrei við en lagði meiri rækt við en flest önnur ljóð sín, lætur hann Eggert Ólafsson ávarpa guð, sem nefndur er faðir og vinur alls sem er – og Eggert biður guð að annast Ísland:

 

Faðir og vinur alls sem er,

annastu þennan græna reit,

blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hvurri sveit.

 

Í Hulduljóðum koma fram einkenni rómantísku stefnunnar: trúin á guð í náttúrunni, alheimsvitundin, guð sem „skapara alls sem er”, guð sem birtist í blómum vallarins og flugi fuglanna – en náttúran var Jónasi ein lifandi heild.

 

Gátan um Guð

Enski eðlisfræðingurinn Stephen Hawking [1942-2018] segir í lok bókar sinnar A Brief History of Time:

"Finnist fullkomin kenning [um tilurð heimsins], þá ætti hún, eða að minnsta kosti aðaldrættir hennar, smám saman að verða skiljanleg öllum, en ekki aðeins fáum vísindamönnum. Þá getum við öll, heimspekingar, vísindamenn og almenningur, tekið þátt í umræðunni um það hvers vegna við og alheimurinn erum til. Takist að finna svar við þeirri spurningu, yrði það lokasigur mannlegrar skynsemi – þá þekktum við hugskot Guðs."

 

Enski eðlisfræðingurinn Paul Davies [f 1946] segir í bók sinni The Mind of God 1992:

"Ég tilheyri þeim hópi vísindamanna, sem aðhyllist ekki hefðbundin trúarbrögð, en hafna því engu að síður, að heimurinn sé tilviljun án tilgangs. Vísindalegt starf mitt hefur enn fremur sannfært mig um að trúa því stöðugt sterklegar, að hinn sýnilegi heimur, sem ég skynja með hugsun minni, sé saman settur af svo undraverðri hugkvæmni, að ég get ekki sætt mig við, að hann sé aðeins skynlaus veruleiki. Að mínum dómi hlýtur að vera einhver dýpri skýring. Hvort menn vilja kalla þessa dýpri skýringu „Guð”, þá er það spurning um viðhorf og skilgreiningar. Enn fremur hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að hugsun – þ.e. meðvitundin um heiminn – er ekki merkingarlausir og tilviljanakenndir duttlungar náttúrunnar, heldur alger undirstaða veruleikans. Með þessu er ég ekki að segja, að við séum tilgangur þess að heimurinn er til. Því fer fjarri. Aftur á móti trúi ég því, að við, mannlegar verur, séum skapaðar inn í þetta kerfi fyrirbæra sem einn af grundvallarþáttum þeirra."

Gátan um guð er því enn óleyst – og verður væntanlega enn um sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta eru allt saman góðar umræður sem að vantar inn í RÚV-sjónvarp með íslenskum heimspekingum; það væri örugglega grundvöllur fyrir slíkan þátt

sem að sérhæfði sig í LAUSN LÍFSGÁTUNNAR einu sinni í viku.

=Þátturinn gæti heitið: 

"HVAÐA SPRURINGUM ER ÓSVARAÐ TENGT LÍFSGÁTUNNI?" eða "SPEKINGAR SPJALLA!".

Frekar en að rúv sýni okkur þætti eins og

Fjörskyldu eða glæpaþætti eins og Luther.

Sem að eru stórt skref afturábak í mannlegri þróun.

Jón Þórhallsson, 15.2.2019 kl. 12:18

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það mætti jafnvel flokka umræður um upphaf mannsins sem tegundar

hér á jörðu í alla vega 3 flokka:

1.Allir kynþættirnir hér á jörðu komu hingað til jarðarinnar með hátæki-geimskipum frá öðrum stjörnukerfum á mismunandi tímum í fyrndinni.

= Fræðin hans Erich Von Danicen= Guðirnar voru geimfarar.

----------------------------------------------------------------------------

2.Að einhverskonar andavera sem að við gætum kallað GUÐ

hafi skapað manninn hér á jörðu með kraftaverki úr engu.

-----------------------------------------------------------------------------

3.Að maðurinn sem tegund hafi þróast út frá pöddum til apa og þaðan til manna bara fyrir stilstilli náttúru-úrvals og stökkbreytinga án aðkomu neinnar æðri hugsunar.

-----------------------------------------------------------------------------

Hverju skildu landsmenn trúa í þessu sambandi; hvernig myndi skífuritið líta út ef að landsmenn ættu að segja sína afstöðu til þessa máls?

Jón Þórhallsson, 15.2.2019 kl. 12:52

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Flott samantekt. Er ekki hugsunin í þessari þýðingu sú sama og ég man að Kristján Kristjánsson predikaði yfir okkur í MA á sínum tíma: Án tungumáls er engin hugsun möguleg og þar með engin skynsemi eða skilningur yfirleitt?

Þorsteinn Siglaugsson, 15.2.2019 kl. 20:31

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Jesú, hafir þú hugsað það, hefur þú gert það.

Nikola Tesla, veröldin er andleg, rúmmið eintómir geislar, ekkert tóm. 

Við skellum atominu sem myndpunkti í þrívíða geisla tölvuskjáinn, sem við lifum í, og sjáum þá þrívíðu punktamyndina. 

Í núverandi sjónvarpsskjá eru myndpunktarnir í fleti, tvívídd.

Hugmynd, tjáning, sama sem sköpun, og þá veröldin.

Það eru margir sem hugsa og tjá.

Egilsstaðir, 16.02.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 16.2.2019 kl. 06:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband