Norsk örnefni á Íslandi

Fjölmörg örnefni á Íslandi eru norsk að uppruna, enda töluðu landnámsmenn norsku, en gamla málið, sem talað var í Noregi á landnámsöld, kalla Norðmenn enn gammel norsk. Að lokum varð þetta gamla mál svo að íslensku, sem nú er elsta mál í Evrópu.

Dæmi um örnefni á Íslandi, sem einnig eru til í Noregi, eru örnefnin Glóðafeykir, Herðubreið og Hegranes. Margir hafa vafalaust talið, að örnefnið Glóðafeykirfjallið sem feykir, varpar glóðum - sé aðeins við austanverðan Skagafjörð. Í Noregi eru tvö fjöll sem bera nafnið Gloføken, annað á Heiðmörk, vestan vatnsins Femund, hitt á eynni Bremanger þar sem fyrrum bjó Berðlu-Kári, fóstbróðir Kveld-Úlfs, afa Egils .

Herðubreið á Mývatnsöræfum var valin þjóðarfjall Íslendinga á alþjóðaári fjallsins árið 2002. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum og Herðubreið við Eldgjá, sunnan Ófærufoss í Skuggafjallagjá. Fjallið Herdabreida stendur við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmenn komu. Nokkur líkindi með fjöllunum tveimur, þótt fjalladrottningin sé tignarlegri og herðabreiðari en fjallið við Harðangursfjörð.

Annað skagfirskt örnefni er Hegranes sem væntanlega er líkingarnafn. Fuglsheitið hegri kemur fyrir í Hávamálum og er þar notað um 'gleymskufuglinn' óminnishegran, sem býr í áfengu öli og fær menn til að gleyma: Óminnishegri heitir, / sá er yfir öldrum þrumir,/ hann stelur geði guma./ Þess fugls fjöðrum / eg fjötraður var eg / í garði Gunnlaðar.

Hegrenes er nes norðan Sandvíkur, Sandviken, í Bergen, Björgvin, sem varð höfuðborg Íslands þegar Íslendingar gengu Hákoni gamla á hönd árið 1262. Yst við sunnanverðan Førdefjorden í Firðafylki er annað Hegrenes, gegnt bænum Kvellestad, Kvöldstöðum, en í Firðafylki hefur varðveist sögn um að Kveld-Úlfur, faðir Skalla-Gríms, hefði búið á Kvellestad og af þeim sökum hlotið viðurnefnið Kveld-Úlfur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég hef verið að leita að orðinu Skrauma eða frekar gömlu útgáfunni að því Skraumiligr í Norsku en þar sem þú virðist vera í þessari línu datt mér að skjóta þessu á þig. Ég er mikið í rúnasteinum í Ameríku og þetta orð fannst á steini í fylkinu Rhode  Island.

Valdimar Samúelsson, 26.1.2012 kl. 11:50

2 Smámynd: Agla

Skemmtileg færsla eins og oftar,Tryggvi.

Ég er engu að síður undrandi á þeirri staðhæfingu þína  að íslenska sé "nú elsta mál í Evrópu" og  leikur forvitni á þeim  málvísindalegu rökum sem kunna að liggja þar að baki.

Hvað skyldi finnskan vera gamalt tungumál? Hvenær byrjuðu Baskar að tala sitt  tungumál? Hve gömul eru keltnesku tungumálin sem enn eru töluð í Evrópu?            Ef nútíma "norska" og nútíma "íslenska" eru báðar sprotar af "gammel norsk", hvor sprotinn ætti að teljast "eldri"?                                                                              Hvaða fuglategund skyldi annars vera sú elsta í Evrópu (og hvers vegna)? 

Agla, 27.1.2012 kl. 14:00

3 Smámynd: Agla

Fyrirgefðu málfræðivilluna: "á þeirri staðhæfingu þína" á náttúrulega að vera staðhæfingu "þinni"!

Agla, 27.1.2012 kl. 14:07

4 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Orðið skrauma finnst ekki í þeim gömlu orðabókum sem ég hef við höndina, Valdimar, og heldur ekki skraumiligr. Hins vegar kemur mannsnafnið Skraumi fyrir í þulum og er talið merkja "snakkesalig person, vrövlhode, skrytepave". Meira veit ég ekki.

Lengi hef ég haldið því fram, Agla, að íslenska væri elsta tungumál í Evrópu, jafnvel elsta tungumál í heimi, bæði í gamni - og alvöru. Auðvitað er erfitt um þetta að dæma og fer eftir því við hvað er miðað. Hins vegar veit ég ekki um neitt málsamfélag sem getur lesið þúsund ára gamla texta sem varðveist hafa í samfélaginu annað er íslenska málsamfélagið. En þakka þér fyrir athugasemdina og að lesa pistlana mína.

Tryggvi Gíslason, 27.1.2012 kl. 15:07

5 Smámynd: Agla

Þakka svarið, Tryggvi.

Það væri ekki amalegt að eiga elsta tungumál Evrópu, heimsins og þá væntanlega alheimsins  sem sitt móðurmál.Ef svo væri hefði ég þá  ekki vitsmunalegt forhlaup á hina Evrópubúana sem hafa bara nýbura mennsks máls sér til ágætis?

Just joking!

Rakalausar stæðhæfingar pirra mig, sér í lagi ef þær  eru svo dregnar til baka með "Just joking. + It all depends on what you mean by..."

Kveðja frá Auld Reekie

Agla, 27.1.2012 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband