Framtíð íslenskrar tungu

Ýmsir telja daga íslenskrar tungu talda og hún muni líða undir lok fyrir lok þessarar aldar. Ástæðurnar eru einkum taldar þrjár: aukin áhrif enskrar tungu, áhugaleysi ungs fólks á íslensku og stafræn samskipti í snjalltækjum. Aðrir hafa ólíkar skoðanir.

Sterk staða tungunnar

Snjalltækjabylting síðustu áratuga hefur haft í för með sér aukna enskunotkun á Íslandi, eins og víðast hvar annars staðar í heiminum. Íslenska er eitt af fjölmörgum tungumálum, sem eru undir miklu álagi vegna aukinnar notkunar ensku í kjölfar samfélagsbreytinga. Engu að síður stendur íslensk tunga sterkar sem lifandi þjóðtunga en nokkru sinni.  Þessi staðhæfing er reist á þeirri staðreynd að undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni.  Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og önnur orðlist hefur aldrei verið öflugri og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta hefur vaxið fiskur um hrygg.  Vandaðar bækur um margvísleg efni hafa verið gefnar út undanfarin ár og fleiri njóta nú kennslu í íslensku, bókmenntum og sögu en áður.  Víðtækar rannsóknir eru gerðar á máli, málnotkun, bókmenntum, fornleifafræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla og háskólastofnana og nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni þar sem bæði einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki hafa tekið þátt í því málræktarstarfi. 

Snjalltækjabyltingin

Hugvísindaþing er árleg ráðstefna Hugvísindastofnunar þar sem í stuttum fyrirlestrum er skýrt frá því helsta í hugvísindum sem gerst hefur og er ætlað bæði fræðasamfélaginu og almenningi. Hugvísindaþing 2019 var haldið 8. og 9. mars s.l. Á þinginu voru kynnt helstu markmið og yfirlit yfir niðurstöður verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis sem fyrir liggja.  Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka áhrif snjalltækja, sem bjóða upp á samskipti við notendur á ensku, á orðaforða, málkunnáttu og málnotkun Íslendinga og á stöðu og framtíð íslenskunnar.  Snjalltækjabylting síðustu ára hefur haft í för með sér aukna enskunotkun víða um heim, en í verkefninu er íslenska notuð sem dæmi um tungumál sem er undir auknu álagi vegna aukinnar notkunar ensku í kjölfar samfélagsbreytinga. Niðurstöður sýna að börn verða fyrir áhrifum frá ensku við noktun á snjalltækjum og áhrifunum fylgir jákvæðari afstaða til enskrar tungu, sem ekki þarf að koma á óvart, enda ensk menning tískufyrirbæri.

Máltækniáætlun

Íslenska er mál atvinnulífsins og hafa Samtök atvinnulífsins sett framtíð tungumálsins í forgrunn síðustu misseri.  Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Stefanía Guðrún Halldórsdóttir stjórnarformaður í Almannarómi skrifuðu í ágúst fyrra undir samning um að Almannarómur sæi um rekstur máltækni-áætlunar til ársins 2022.  Markmið áætlunarinnar er að tryggja að hvers kyns tæki og tól tali og skilji íslensku og að íslensku verði þar með forðað frá stafrænum dauða vegna yfirburðastöðu enskunnar. „Máltækniáætlunin er eitt mikilvægustu skrefanna sem við stígum nú til þess að tryggja betur framtíð íslenskunnar og þar með menningu okkar og sjálfstæði,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir við undirritun samningsins.

Ráðist verður í að kynna notkun máltækni í fyrirtækjum og stofnunum og koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni  þannig að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast með ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.

Innan Almannaróms koma saman aðilar með mismunandi og margvíslega reynslu til þess að  leggja sitt af mörkum til að tryggja að íslenskan glatist ekki. „Það er breiðfylking að baki Almannarómi, að stofnuninni standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem öll brenna fyrir þessu brýna verkefni að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í síbreytilegum tækniheimi. Markmið okkar er að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri máltækni svo framtíðin hljómi vel á íslensku,“ segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir.

Ráðstefna um íslenskukennslu

Hinn 1. apríl n.k. verður á vegum Mennta- og menningarmála-ráðuneytisins í samvinnu við Háskóla Ísland, Háskólann á Akureyri, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitar-félaga haldin ráðstefna um íslenskukennslu á öllum skólastigum til þess að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um niðurstöður rannsókna á stöðu íslensku sem birtar voru í ritinu „Íslenska í grunnskólum og framhadsskólum“ sem nýverið kom út í ritstjórn Kristjáns Jóhanns Jónssonar og Ásgríms Ásgeirssonar.  Í bókinni eru greinar eftir sjö íslenskukennara við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri auk meistara- og doktorsnema við skólana. Niðurstöðurnar sýna jákvætt starf en einnig er bent á ýmislegt sem betur má fara, s.s. hrakandi lestrarfærni og leskilningi íslenskra nemenda og erfiða stöðu nemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku.

„Íslenskan er sprelllifandi tungumál. Hún er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar og hún er skólamálið okkar.“ „Við ætlun að snúa vörn í sókn,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Íslenska, elsta lifandi tungumál í Evrópu, stendur því enn traustum fótum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband