8.1.2010 | 16:06
Enn er deilt um menn - ekki málefni
Enn deila menn um forsetann, ekki það sem forsetinn sagði og vill gera: leyfa þjóðinni að taka afstöðu í þessu mikilsverða máli sem er ekkert annað en skattlagning erlendra ríkja á íslenska borgara.
Ólafur Ranar Grímsson er svipmikill og hæfileikaríkur forseti. Nú getur forseti Íslands ekki látið sér nægja tala um íslenska menningu og gróðursetningu heldur er forsetaembættið orðið alvöru embætti, pólitískt embætti og ekki aðeins upp á punt, sem misvitrir atvinnustjórnmálamenn geta ráðskast með og ráðið fyrir. Embætti forseta Íslands á að vera sjálfstætt embætti sem veitir stjórnmálamönnum aðhald og almenningi vernd í gerbreyttum heimi, heimi aukinna alþjóðlegra samskipta og alþjóðlegra átaka.
Enginn núlifandi Íslendingur hefur meiri pólitíska reynslu og pólitísk hyggindi en Ólafur Ragnar Grímsson. Hann er hins vegar hvorki alvitur né gallalaus, frekar en við sum hin, og ég fullyrði að enginn hefði getað gert það sem hann hefur nú gert á fáum dögum: vakið athygli umheimsins á óréttlæti því sem felst í að krefjast þess að ríkissjóður - eða réttara sagt almenningur á Íslandi greiði fyrir mistök Evrópusambandsins og gallað regluverk þess.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2010 | 15:10
Íslendingar ætla að borga skuldir sínar, ekki skuldir óreiðumanna

Gömlu fjandvinirnir Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson eru loks orðnir skoðanabræður. Davíð sagði í sjónvarpsviðtali 7. október 2008 að við Íslendingar ætluðum ekki að borga "skuldir óreiðumanna". Ólafur Ragnar hefur nú lagt ný lög Alþingis um ríkisábyrgð vegna Icesave í dóm þjóðarinnar en ljóst er að lögunum verður hafnað í þjóðaratkvæði. Þar með borgum við ekki skuldir óreiðumanna.
Bragð er að þá barnið finnur
Orð tíu ára drengs í fréttum ríkissjónvarpsins á dögunum gætu hins vegar orðið Íslendingum áminning og leiðarljós, þegar hann sagði, að það væri ekki réttlátt eða eðlilegt að almenningur borgaði skuldir einkafyrirtækja.
Hins vegar ber öllum að greiða skuldir sínar og ríkissjóði að greiða skuldir sem Alþingi hefur stofnað til. Svo einfalt er það.
Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, sem lögðu fé inn á Icesave reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi í von um meiri arð vegna hærri vaxta, verða að láta sér nægja fé sem fæst við sölu eigna bankans þegar þar að kemur og komi engar vaxtagreiðslur eða fjárbætur frá ríkissjóði eða íslenskum almenningi þar í viðbót, nema óháður dómstóll telji ríkið bera skaðabótaábyrgð vegna vanrækslu eða mistaka við eftirlit eða aðhald íslenskra stjórnvalda.
Ofbeldi
Yfirgangur ríkisstjórna Bretlands og Hollands gagnvart ríkisstjórn og Alþingi stafar annars vegar af gamalli ofbeldishefð með þessum þjóðum og hins vegar af því, að Evrópusambandið er að klóra yfir galla á regluverki sínu.
Það sem hins vegar veikir stöðu Íslendinga nú er tvennt. Annars vegar gamli sundurlyndisfjandinn þar sem hver höndin er uppi á móti annarri, eins og oft áður. Hins vegar óþroskuð umræðuhefð stjórnmálamanna og fjölmiðla, en þessi umræðuhefð er að verða þjóðarböl.
Dugnaður Íslendinga, auðlindir landsins, saga þjóðarinnar og menning eiga hins vegar eftir að efla hag þjóðarinnar og auka virðingu hennar fyrir sjálfri sér og virðingu annarra fyrir þessari fámennu og dugmiklu þjóð og við eigum þá vini sem við þurfum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)