26.1.2012 | 11:10
Norsk örnefni á Íslandi
Fjölmörg örnefni á Íslandi eru norsk að uppruna, enda töluðu landnámsmenn norsku, en gamla málið, sem talað var í Noregi á landnámsöld, kalla Norðmenn enn gammel norsk. Að lokum varð þetta gamla mál svo að íslensku, sem nú er elsta mál í Evrópu.
Dæmi um örnefni á Íslandi, sem einnig eru til í Noregi, eru örnefnin Glóðafeykir, Herðubreið og Hegranes. Margir hafa vafalaust talið, að örnefnið Glóðafeykir fjallið sem feykir, varpar glóðum - sé aðeins við austanverðan Skagafjörð. Í Noregi eru tvö fjöll sem bera nafnið Gloføken, annað á Heiðmörk, vestan vatnsins Femund, hitt á eynni Bremanger þar sem fyrrum bjó Berðlu-Kári, fóstbróðir Kveld-Úlfs, afa Egils .
Herðubreið á Mývatnsöræfum var valin þjóðarfjall Íslendinga á alþjóðaári fjallsins árið 2002. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum og Herðubreið við Eldgjá, sunnan Ófærufoss í Skuggafjallagjá. Fjallið Herdabreida stendur við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmenn komu. Nokkur líkindi með fjöllunum tveimur, þótt fjalladrottningin sé tignarlegri og herðabreiðari en fjallið við Harðangursfjörð.
Annað skagfirskt örnefni er Hegranes sem væntanlega er líkingarnafn. Fuglsheitið hegri kemur fyrir í Hávamálum og er þar notað um 'gleymskufuglinn' óminnishegran, sem býr í áfengu öli og fær menn til að gleyma: Óminnishegri heitir, / sá er yfir öldrum þrumir,/ hann stelur geði guma./ Þess fugls fjöðrum / eg fjötraður var eg / í garði Gunnlaðar.
Hegrenes er nes norðan Sandvíkur, Sandviken, í Bergen, Björgvin, sem varð höfuðborg Íslands þegar Íslendingar gengu Hákoni gamla á hönd árið 1262. Yst við sunnanverðan Førdefjorden í Firðafylki er annað Hegrenes, gegnt bænum Kvellestad, Kvöldstöðum, en í Firðafylki hefur varðveist sögn um að Kveld-Úlfur, faðir Skalla-Gríms, hefði búið á Kvellestad og af þeim sökum hlotið viðurnefnið Kveld-Úlfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.1.2012 | 12:44
Alþingismenn ekki þingtækir
Talað er um að mál sé þingtækt. Þá er átt við að unnt sé að ræða málið á Alþingi, sem stundum er kölluð elsta elsta löggjafarþing í heimi. Hins vegar sýnist mér margir alþingismenn séu ekki þingtækir, þeas ekki færir um að ræða málefnalega og af yfirvegun mikilverð mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2012 | 23:16
Styrmir Gunnarsson og ójöfnuðu okkar tíma
Styrmir Gunnarsson, ritstjóri og blaðamaður MBL nær fjóra áratugi, segir í Sunnudags Mogganum 22. janúar 2012, að ójöfnuður sé mesti þjóðfélagsvandi okkar tíma. Þetta eru orð að sönnu. Hins vegar er ójöfnuður ekki nýtt fyrirbæri og því síður þjóðfélagsvandi "okkar tíma". Jafnaðarmenn hafa frá dögum sonar trésmiðsins í Nasaret barist gegn ójöfnuði.
En ég skil ekki, hvers vegna Styrmir Gunnarsson, glöggskyggn og mætur maður, kom ekki auga á ójöfnuðinn meðan hann þjónaði Reykjavíkuríhaldinu tvo mannsaldra. Reykjavíkuríhaldið hefur frá upphafi kynnt undir ójöfnuð í samfélaginu og gerir enn. Hins vegar verða forréttindi íhaldsins og eignastéttarinar hvar í flokki sem kann að finnast að láta undan síga fyrir jafnréttiskröfu sem, fer nú eins og logi um akur um allar álfur. Þá er hins vegar gott að eiga gamla afturbata íhaldsmenn eins og Styrmi Gunnarsson að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2012 | 11:16
Dönsk orð í daglegu tali
Dönsk orð og dönsk orðasambönd eru æði mörg í daglegu tali en prýða ekki íslenskt mál og bera hvorki vitni um vandað málfar né mikla málkennd. Einna verst er, hvernig klifað er á dönsku sögninni kíkja, kíkja á, kíkja inn, kíkja í blöðin - og danska orðasambandinu reikna með. Virðist af máli sumra starfsmanna RÚV eins og þeir þekki ekki sögnina líta, líta á, líta inn, líta í blöðin, skoða að ég tali ekki um að hyggja að eða íhuga ellegar orðasambönd eins og að gera ráð fyrir, ætla, búast við. Nei, kíkja og reikna með skal það heita.
Til gamans má hins vegar nefna þrjú orð, sem algeng eru í íslensku talmáli, öll komin úr dönsku og okkur málhreinsunarmönnum mun reynast erfitt að útrýma. Fyrst skal nefnt orðið ha sem á rætur að rekja til orðanna Hvad behager og á dönsku eru borin fram [va: be'ha] með þungri áherslu á síðasta atkvæðið. Ætla má að Íslendingar, sem heyrðu Dani segja: Hvad behager, hafi einkum heyrt ['ha] og þannig hafi þetta einkennilega spurnarorð ha orðið til.
Annað danskt orð í íslensku er merkingarlausa fyllingarorðið sko, komið af upphrópuninni sgu eða så gu sem er stytting á: Så hjelpe meg gud. Upphrópunin sgu er ekki talin fara vel í vandaðri dönsku en hefur þó nýlega verið tekið af skrá um dönsk bltótsyrði.
Bent skal á, að til er annað orð, ritað á sama hátt en af allt öðrum rótum, sem er boðháttur sagnarinnar að skoða, eins og þegar sagt er við lítið barn: Sko fuglana í merkingunni 'sjáðu fuglana'. Sögnin er notuð í biblíumáli og kemur fyrir víða í þjóðsögum. Auk þess er sögnin notuð í föstum orðasamböndum s.s.: Í upphafi skal endinn skoða, Skoða ofan í kjölinn og Skoða hug sinn. Jónas Hallgrímsson notar sögnina skoða í ævintýri sínu Fífill og hunangsfluga þar sem segir:
Fífillinn var nýsprottinn út. Hann hafði dreymt morgunroðann og vaknaði þegar sólin kom upp en aldrei séð kvöld og forsælu. Hann leit ekki í kringum sig en horfði brosandi í sólina og sólin kyssti hann þúsund sinnum eins og móðir kyssir nývaknað barn og hann roðnaði af gleði í sólarylnum og hlakkaði til að lifa og verða stór. Þá kom flugan út í holudyrnar og skoðaði til veðurs.
Þriðja danska orðið, sem notað er í daglegu máli, er fyllingarorðið jæja sem komið er af ja, ja í dönsku og Danir nota mikið og borið er fram /jæja/. Halldór Laxness hafði dálæti á þessu orði og lagði út af því á ýmsa vegu. Í Fegurð himinsins lætur hann t.a.m. hreppstjórann í Bervík segja við Ólaf Kárason: Segirðu jæa helvítis bjáninn þinn. Hver veit nema þú fáir að borga það orð fullu verði áður en lýkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2012 | 11:55
Heimsljós - jólasýning Þjóðleikhússins
Enginn íslenskur rithöfundur á síðustu öld stenst samjöfnuð við Halldór Laxness. Þekking hans og innsæi, dirfska, orðvísi og víð veraldarsýn tekur öðru fram. Hann var skáld minnar kynslóðar, en virðist síður höfða til ungu kynslóðarinnar, a.m.k. ekki þess hluta hennar sem alinn er upp við sýndarveruleika bandarískra kvikmynda.
Ef til vill væri ástæða til þess að kynna ungu kynslóðinni enn frekar heim Halldórs Laxness til þess auka henni gagnrýni og opna henni víðari sýn. Ein leiðin til þess er að flytja verk hans á leiksviði eins og Þjóðleikhúsið hefur gert áratugum saman, síðast með eftirminnilegri uppfærslu á Íslandsklukkunni, sérstæðri sýningu á Gerplu og nú með áhrifamikilli sýningu á sögu Ólafs Kárasonar.
Ekki er vandalaust að koma mikilfenglegum fjórleik Halldórs Laxness um skáldið Ólaf Kárason til skila í einni leiksýningu. Þetta mikla verk fjallar um lífið og ástina, um manninn og guð, um kúgun, svik og ánauð og um vonina, fegurðina og kærleikann og hinn breyska og vanmáttuga einstakling og baráttu hans fyrir réttlæti og góðvild.
Aðalpersónan, Ólafur Kárason, skáldið sem ber heiminn á herðum sér, hefur sterka skírskotun til Krists, ljóss heimsins, mannssonarins sem ber allar syndir heimsins og á móður en engan föður nema föðurinn á himnum.
Kjartani Ragnarssyni hefur ásamt leikurum og öðru hæfu starfsfólki sínu tekist að gera sýningu þar sem orðlist Halldórs Laxness nýtur sín og kjarni fjórleiksins kemur fram, vanmáttug barátta mannsins fyrir réttlæti og jöfnuði, þráin eftir ást og leitin að guði.
Með þessari sýningu hefur Kjartan Ragnarsson enn einu sinni sýnt listræna hæfni sína og sýning hans ber vitni um að við eigum góða leikara og Þjóðleikhúsið hefur enn einu sinni gegnt því meginhlutverki sínu sem musteri íslenskrar tungu að sinna íslenskum skáldskap og íslenskum leikverkum.
Vonandi verður þessi sýning til þess að opna augu ungu kynslóðarinnar fyrir mikilfengleik íslenskra bókmennta og þá ekki sýst mikilverðu hlutverki Halldórs Laxness sem rithöfundar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2012 | 09:09
Gleðimaður og gleðikona
Talað er um að karlmenn séu gleðimenn og kona gleðikona. Eins og lesendur vita, endurspeglar tungumálið afstöðu samfélagsins til manna og málefna og breytist eftir því sem samfélagið málsamfélagið breytist.
Afstaða samfélagsins kemur m.a. fyrir í orðum sem notuð eru um konur annars vegar og karlmenn hins vegar. Talað er um að karlmaður sé gleðimaður. Er þá átt vi glaðsinna karlmann sem vekur aðdáun og heillar með sögum og hnyttiyrðum, og það er eftirsóknarvert að vera gleðimaður.
Þegar talað er um gleðikonu er annað uppi á teningnum. Hún er ekki mikils virt og kölluð lauslát, lausgirt og nefnd hóra eða skækja, dræsa, dækja, flyðra, gæra, mella, portkona, púta, vændiskona og lítils virt. Karlmaður, sem kemur víða við, nýtur kvenhylli - er kvennamaður.
En hvernig er orðið gleðikona hugsað? Naumast er mikil gleði í því fólgin að vera gleðikona, enda þótt hún kunni að geta notið kynlífs. Hún stundar þessa iðju ekki til þess að auka sér gleði; því síður eykur þetta henni hamingju eða virðingu, þótt sögur fari af einstaka auðugri og jafnvel virtum gleðikonum úti í hinum stóra heimi. Starf gleðikonunnar er neyðarbrauð. Að baki býr ofbeldi, mansal, þrældómur og kynlífsþrælkun. Hugsunin að baki orðinu gleðikona er kona sem veitir manninum gleði. Í þessu orði, sem og mörgum öðrum orðum málsins, kemur því fram afstaða samfélagsins oft afstaða karlmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2012 | 09:36
Skömm Ríkisútvarpsins
Áramótaskaup Ríkisútvarpsins var eins og við var að búast grátt gaman, þar sem á einstaka stað var slegið á létta strengi, en einkum níðst á fólki og óþverrabrandarar hafðir í fyrirúmi. Hefur öllu skammotað aftur síðan Stefán Jónsson, Flosi og Jón Múli skemmtu með léttri gamansemi sinni.
Af öllu aumu í Áramótaskaupi Ríkisúvarpsins frá upphafi voru þessi orð þó verst: Við [Norðmenn] tökum þó ekki ábyrgð á innfæddum sinnissjúkum karlmönnum á miðjum aldri sem skjóta þig og/eða sprengja húsið þitt með áburðarsprengjum.
Nú veit ég, að Páll Magnússon útvarpsstjóri biðst ekki afsökunar á þessum orðum. Hann biðst ekki afsökunar á neinum afglöpun sínum né starfsmanna sinna. Hins vegar vil ég fyrir hans hönd og sem gamall starfsmaður Ríkisútvarpsins og fyrsti fréttamaður þess í Noregi biðja frændur okkar og vini Norðmenn afsökunar á þessum orðum. Þetta áttu þeir ekki skilið eftir mestu hörmungar sem yfir norsku þjóðina hafa dunið á friðartímum.
Hafi Ríkisútvarpið skömm fyrir.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2012 | 20:37
Sameiningartákn
Ólafur Ragnar Grímsson er mikilhæfur stjórnmálamaður og verður talinn meðal svipmestu stjórnmálamanna lýðveldistímans. Hann getur brugðið sér mörg líki og látið með ólíkindalega og komið andstæðingum sínum á óvart, eins og slyngum stjórnmálamönnum er tamt. Flestir túlka óljós orð hans í áramótaávarpinu á nýársdag á þann veg, að hann muni ekki bjóða sig fram til forseta að nýju. Hins vegar má eins vel túlka þau á þann veg, að ef á hann verði skorað, muni hann svara kalli. Litlar líkur eru á því að á hanna verði skorað. Nú er nóg komið af Ólafi Ragnari sem forseta Íslands.
Orð hans í Kryddsíldinni á gamlársdag vöktu mér furðu komu mér á óvart, þegar hann talaði um þá kenningu manna að forsetaembættið væri sameiningartákn, enda vissi hann ekki til að neitt sambærilegt orð væri til í öðrum málum um þjóðhöfðingja, og væri þetta séríslenskt fyrirbæri og kenningin búin til af þeim sem vilja koma böndum á forsetann. Stundum hendir það mælska menn sem ástunda málskrúð eða lýðskrum og eru blindaðir af eigin ágæti að vita ekki hvað þeir segja af því að þeir þurfa ekki að hugsa áður en þeir tala.
Til er saga austan af fjörðum um mælskasta verkalýðsleiðtoga kalda stríðsins sem í miðri hvatningarræðu stansaði við og mæli: Hvurn andskotann er ég eiginlega að segja? Svo gekk hann úr ræðustól.
Aftur að kenningunni um þjóðhöfðingja sem sameiningartákn. Fjölmargir þjóðhöfðingjar hafa orðið þjóð sinni sameiningartákn bæði fyrr og síðar. Í síðari heimstyrjöldinni varð Hákon sjöundi Noregskonungur sameiningartákn norsku þjóðarinnar, raunar á sama hátt og Kristján tíundi Danakonungur, bróðir hans, afi Margrétar annarrar Danadrottningar. Þegar Hákon sjöundi var sjötugur, hinn 3. ágúst 1942, var hann landflótta í Lundúnum. Þúsundir Norðmanna og Englendinga tóku þátt í hyllingargöngu í Hyde Park og konungur talaði til 5000 Norðmanna í Albert Hall. Vakti þessi atburður athygli hins frjálsa heims og varð milljónum manna hvatning til þess að berjast gegn kúgunaröflunum. Heima í Noregi báru frjálsir Norðmenn blóm í hnappagatinu þennan dag til heiðurs konungi sínum.
Í Danmörku situr Margrét önnur Danadrottning á friðastól og er lýsandi sameiningartákn einnar fremstu menningarþjóðar í heimi. Á gamlársdag flutti hún fertugasta gamlársdagsávarp sitt. Danskir fjölmiðlar hafa síðan fjallað um drottningu sína sem sameiningartákn og skrifa m.a. um ræðuna: Talen favner alle, berører alle og inkluderer alle, så vi alle sammen føler os lidt mere danske, når dronningen har sagt Gud bevare Danmark, og vagterne foran Amalienborg genindtager skærmen.

Ef þetta eru ekki dæmi um sameiningartákn meðal annarra þjóða, veit ég ekki hvað sameiningartákn er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)