9.1.2013 | 11:38
Að heilsast og kveðjast
Páll J. Árdal frá Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, gagnfræðingur frá Möðruvöllum 1882 og skólastjóri Barnaskóla Akureyrar 1884 til 1901, var gott skáld og orti meðal annars hina alþekktu stöku:
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
Stökuna nefndi hann Sögu lífsins. Saga lífsins er sannarlega að hryggjast og gleðjast, heilsast og kveðjast hér um fáa daga og er hugsunin svipuð og í hinu gamla íslenska orðtaki: "Enginn ræður sínum næturstað." Að sínu leyti er hugsunin um hverfulleik lífsins einnig hin sama og í þjóðvísunni Góða veislu gjöra skal þar sem segir:
Góða veislu gjöra skal,
þá geng ég í dans,
kveð ég um kóng Pípin
og Ólöfu dóttur hans.
Stígum fastar á fjöl.
Spörum ei vorn skó.
Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.
Í kvæði sínu Einræðum Starkaðar segir Einar Benediktsson: Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það skiptir því máli í hverfulleika lífsins að hafa aðgát í nærveru sálar og þá einnig hvernig við heilsumst og kveðjumst, en með kveðjuorðum okkar eins og raunar öllum orðum okkar höfum við áhrif á annað fólk.
Sögð er saga af erlendum ferðamanni sem kom til Íslands um miðja 19du öld og hreifst að því, hvernig þessi fátækasta þjóð í Evrópu heilsaði og kvaddi með fallegum kveðjuorðum eins og: Komdu blessaður og sæll eða: Vertu sæl og blessuð og guð veri með þér en slík kveðjuorð eru afar mörg í íslensku.
Á auglýsingu Coca-Cola frá árinu 1943, fallegri vatnslitamynd af bandarískum hermanni og íslenskum fiskimanni sem brosa hvor til annars um leið og þeir lyfta flösku af töfradrykknum, stendur: Have a Coca-Cola = Come, be blessed and be happy or how to break the ice in Iceland, sem er eins konar þýðing á kveðjuorðunum: Komdu blessaður og sæll, enda undruðust bandarísku hermennirnir á Íslandi falleg kveðjuorð Íslendinga eins og ferðamaðurinn einni öld áður.
Stuðmenn sungu líka í lagi sínu Ofboðslega frægur: Hann sagði: Komdu sæll og blessaður á plötunni Hve glöð er vor æska frá árinu 1990 en bættu svo við: Ég hélt ég myndi fríka út.
Við íhaldsamir málræktarmenn erum líka að fríka út, þegar við verðum vitni að því dag hvern að meirihluti þjóðarinnar, jafnvel miðaldra fólk svo ég segi ekki gamalt fólk heilsast orðið með því að segja: Hæ og kveður með því að segja: OK, bæ.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2013 | 18:01
Hlutverk forseta Íslands
Enn einu sinni er ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands í fortið, nútíð og framtíð, því að enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar blandað sér á óviðeigandi hátt í stjórnmáladeilur samtímans.
Eins og oft áður hefur höfundur þessara orða hlustað á áramótaræður Margrétar Danadrottningar og Haralds Noregskonungs, en frá Noregi og Danmörku var Íslandi stjórnað í 656 ár hálfa sjöundu öld og engum þjóðum erum við Íslendingar skyldari.
Megináhersla í orðum þessara tveggja þjóðhöfðingja um nýliðin áramót var lögð á það sem sameinaði þjóðirnar. Bæði Margrét Danadrottning og Haraldur Noregskonungur lögðu áherslu, hversu mikilsvert það væri að hefja sig yfir deilumál samtímans og Haraldur Noregskonungur sagði:
Það - að þroska bestu eiginleika sína er sérstaklega mikilsvert fyrir þá sem gegna forystuhlutverki í samfélaginu þannig að valdið sé notað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Bæði innan stjórnmálanna og í atvinnulífi, rannsóknum, umhverfismálum og fjölmiðlum stöndum við andspænis miklum áskorunum.
Við þurfum á vitrum leiðtogum að halda sem hafa getu til þess að hugsa langt fram í tímann og geta ráðið við áskoranir. Það er erfitt að taka ákvarðanir sem bera árangur inni í framtíðinni og ekki er auðvelt að mæla. En það eru hyggindi sem við þurfum á að halda, leiðtogar sem starfa í þeirri trú að góðar ákvarðanir borgi sig þegar til lengdar lætur.
Ólafi Ragnari var ólíkt farið. Hann lagði áherslu á deilurnar í þjóðfélaginu:
Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum.
Daginn áður hafði Ólafur Ragnar lagt fram bókun á fundi ríkisráðs. Kom þar til deilna og orðaskipta í kjölfar bókunarinnar. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði í nær 70 ára sögu lýðveldisins.
Í áramótaávarpinu gerði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá að sérstöku umræðuefni, einkum tillögur um að ríkisráð verði lagt niður. Taldi hann ríkisráð væri vettvangur fyrir samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar. Guðni Th. Jóhannesson segir, að ríkisráð hafi aldrei verið samráðsvettvangur, eins og Ólafur Ragnar vill vera láta.
Einnig má benda á, að ríkisráð er arfleifð frá konungsríkjunum Noregi og Danmörku og ef til vill óþarft með öllu. Þá hafa fræðimenn bent á, að Ólafur Ranar sé vanhæfur að ræða um nýja stjórnarskrá sem felur í sér leikreglur fyrir forseta og alþingismenn.
En hvernig sem allt veltist, er eitt víst: Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn og koma fram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar án undirmála. Það gerðu fyrri forsetar. Þeir voru hafnir yfir flokkadrætti sem vitrir, víðsýnir og umburðarlyndur þjóðhöfðingjar en lögðu sig ekki fram um að stuðla að sundrungu og átökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)