9.10.2010 | 23:46
Fegurð Íslands
Undir kvöld ókum við Gréta úr "Blásölum himnanna" norður í sæludalinn, sveitina besta, að Hrauni í Öxnadal, þar sem Jónas fæddist forðum. Á leið okkar úr borginni um Kjalarnes og Hvalfjörð blasti haustfegurðin alls staðar við í logninu. Í Borgarfirði hljómaði haustsinfónía landsins í þúsund tónum með skugga Snæfellsness í norðri og hvítt Okið og Eiríksjökul í austri.
Ekki var fegurðin í Húnavatnssýslum minni þar sem Strandafjöllin blánuðu vestan Húnaflóa og að austan spegilskyggnd fjöllin á Skaga með flatan koll Spákonufells nyrst. Þegar við ókum út Víðidal roðnaði Borgarvirki, einstakt í sinni röð á Íslandi - eins og segir í gömlu landafræðinni - og svört kirkjan á Þingeyrum minnti á horfna sögu landsins.
Af Vatnsskarði sýndist Drangey svört, en Málmey og Þórðarhöfði blá og aftansólin feykti rauðri glóð úr Glóðafeyki. Í suðri reis Mælifellshnjúkur eins og brjóst á ungri blökkukonu. Kóróna fegurðarinnar var skuggamynd Hraundranga og yfir skein skær kvöldstjarna.
Dýrmætt er að eiga þvílíkt land og geta notið fegurðar þess sem kostar ekkert utan virðingu okkar.
Bloggar | Breytt 10.10.2010 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2010 | 00:58
Hismið og kjarninn
Í dag var ég í þriðju jarðarförinni á einni viku. Jarðarfarir snerta mig orðið á annan hátt en áður. Það er aldurinn. Þær opna augu mín fyrir hverfulleika lífsins og vekja til umhugsunar um hismið og kjarnann, og sýna mér, hversu lítið ég hef þekkt samferðarmenn mína.
Séra Auður Eir flutti áhrifamikil minningarorð. Yfirlætislaus en örugg þjónusta hennar tók fram flestu sem ég hef séð. Í orðum séra Auðar Eirar um mikilhæfa samferðarkonu, sem þarna var kvödd, kom fram, hversu margt gott er gert og sagt sem aldrei er talað um.
Gamalt kínverskt orðtak segir, að fegurðin búi í augum þess sem horfir, og austur á Indlandi hefur verið brýnt fyrir fólki í fimm þúsund ár, að sjá ekkert ljótt, segja ekkert ljótt og hlusta ekki á neitt sem ljótt er. Um þetta ætla ég að hugsa í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2010 | 17:23
Hvað þarf að gerast til þess augu alþingismanna opnist?
Hvað þarf að gerast til þess augu alþingismanna opnist og þeir taki höndum saman og leysi vanda þjóðarinnar? Þurfa 200 læknar að flytjast burtu af landinu? Þarf að bjóða upp 2000 íbúðir á einum mánuði? Þurfa 200 þúsund manns að koma saman í miðborg Reykjavíkur að augu alþingismanna opnist?
Hvers vegna er ekki lagður skattur á inngreiðslur í lífseyrissjóði, skattur sem færir ríkissjóði milljarðatugi á ári meðan þörfin er mest. Í stað þess eru fjárveitingar til skóla og sjúkrastofnana skornar niður og atvinnuleysi og vanlíðan aukin?
Hvers vegna eru vextir ekki lækkaðir til þess að koma atvinnulífinu af stað? Hvers vegna er ekki ráðist í að fullvinna heima allan fiskaflann? Hvers vegna er ekki þegar í stað ráðist í að nýta alla gufu úr jarðvarmaveitum til þess að efla grænmetis- og ávaxtarækt í landinu?
Síðast en ekki síst: Hvers vegna er ekki helmingur af hagnaði nýju bankanna við yfirtöku gömlu bankanna notaður til þess að bjarga ungu fólki frá fjárhagslegu og tilfinningalegu gjaldþroti. Það eru þúsund leiðir til bjargar ef augu alþingismanna opnast - og þeir þora!
Bloggar | Breytt 7.10.2010 kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)