Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild

Eins og áður hefur komið fram, hef ég gerst svo djarfur að bjóða mig fram til stjórnlagaþings til þess að leggja mitt af mörkum við að móta nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Stjórnarskrá skal tryggja öllum lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna, treysta undirstöður nútímalýðræðis, sem er mannvirðing og umburðarlyndi, tryggja réttlátt samfélag, skýra þrískiptingu valds, eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum, landsréttindi og umhverfisrétt sem móti samskipti fólks við umhverfi sitt.

Stjórnarskráin skal reist á skýlausri virðingu fyrir öllum einstaklingum, traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.

Stjórnarskrá skal vera á vönduðu máli og gagnorð svo að allir skilji.Stjórnskráin á aðeins að geyma grundvallarlög lýðveldisins. Stjórnskráin á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og tryggja lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna.

Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og fyrsta setningin að vera: Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild, sbr. upphafsorð þýsku stjórnarskrárinnar: Die Würde des Menschen ist unantastbar.


Sælir eru fátækir í anda

Í morgun ræddi ég við gamla vinkonu mína sem bæði er orðin gömul að árum – komin á níræðisaldur, og hefur auk þess verið vinkona mín meira en hálfa öld. Hún er því gömul vinkona í tvennum skilningi.

Þegar við tölum saman, verða umræðurnar oft heimspekilegar. Ekki svo að skilja, að við sláum um okkur með lærðu orðalagi heimspekinga og torræðu tali. Nei, við tölum um lífið og tilveruna á einfaldan hátt, fegurð hversdagsleikans, um réttlæti og ranglæti hér í heimi, um gott og illt í manninum og þá gjarnan hvað í því felst að vera maður – vera almennileg manneskja, eins og sagt var fyrir austan.

Hún vinkona mín sagði mér, að hún hefði verið bæði seinþroska, barnaleg og einföld langt fram eftir aldri og gæti sennilega aldrei losnað við barnaskapinn. Sagði ég henni, að það væri öfundsvert að vera bæði barnalegur, seinþroska og einfaldur. Í fyrsta lagi virtust þeir sem væru seinþroska eldast betur en hinir sem yrðu fullorðnir þegar á barnsaldri.

Í öðru lagi fælist í mínum huga mikil einlægni í því að vera barnalegur, enda hefði frelsarinn sagt ýmislegt um börnin og einlægni þeirra, en hann var bæði vitur maður og mikill hugsuður og jafnvel einn mesti heimspekingur allra tíma.

Þá sagði ég líka við hana, að eftir því sem árin færðust yfir mig, félli mér betur við þá sem væru einfaldir en hina sem þykjast vita allt og skilja allt, en vissu svo ekkert og skildu fátt. Enda hefði frelsarinn átt við okkur - hina einföldu - þegar hann mælti: Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.


Hvers vegna stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá

Enn velta menn því fyrir sér hvers vegna halda skal stjórnlagaþing sem almenningur kýs þar sem forsetinn, alþingismenn og ráðherrar eru ekki kjörgengir. Einnig velta menn því fyrir sér hvort setja þurfi Íslandi nýja stjórnarskrá á þessum síðustu og verstu tímum svika, tortryggni og vonleysis.

Nokkrir fræðimenn og gamlir atvinnustjórnmálamenn, sem ráðið hafa ríkjum áratugum saman, hafa fundið kosningunum og þinginu flest til foráttu: þær séu flóknar, erfitt verði að kynna 500 frambjóðendur, þingið muni skipað óhæfum fulltrúum, ný stjórnarskrá verði marklaust plagg af því að „bestu menn” hafi ekki um hana fjallað, eins og Sigurður Líndal sagði í viðtali við MBL. Tíminn sé ekki réttur, engin umræða hafi farið fram og núverandi stjórnskrá sé góð af því að hún sé gömul.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og doktor í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, segir, að þeir sem eru þekktir, búsettir á höfuðborgarsvæðinu, hefðu aðgang að fjármagni og væru í sveigjanlegri vinnu ættu mesta möguleika á að „fóta sig í væntanlegri kosningabaráttu til stjórnlagaþings”, eins og haft var eftir honum í DV í ágúst, og hundruð ef ekki þúsund kynnu að bjóða sig fram og kosningaþátttakan verði eins góð og í „hefðbundnum" kosningum.

Þessir úrtölumenn telja sig vafalaust boðbera lýðræðis og jafnréttis, lausa við fordóma og meinbægni. Spádómar þeirra vekja hins vegar furðu og torskilið er af hverju þeir leggjast gegn því að almenningur, fólk upp og ofan, ungt og gamalt, konur og karlar, borgarbúar og sveitamenn, lærðir og leikir fái tækifæri til þess að spreyta sig á því að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem send verður Alþingi og síðan lögð fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Áhættan getur ekki talist mikil og ef stjórnlagaþinginu tekst ekki að sameinast um góðar tillögur tekur hið snauða Alþingi sem er rúð trausti almennings við og bætir um betur.

En það er önnur hlið á þessu máli. Almenningur hefur misst trú á stjórnmálamönnum og Alþingi nýtur ekki trausts. Hins vegar hefur almenningur sýnt stjórnlagaþinginu áhuga. 500 frambjóðendur til 25 þingsæta er tákn um lifandi áhuga almennings á virku lýðræði og fólk – almenningur - vill leggja sitt af mörkum til að móta nútímalega stjórnarskrá. Að baki 500 frambjóðendum eru 15 til 25 þúsund meðmælendur auk 30 til 50 þúsund vitundarvotta eða samtals 45 til 125 þúsund manns sem þegar hafa sýnt þessu máli áhuga.Kynning á stjórnlagaþinginu er þegar hafin.

Kynning á öllum frambjóðendum verður send inn á sérhvert heimili. Hver frambjóðandi fær 120 orð til þess að kynna sig. Kynning á fjórum frambjóðendum kemst á hverja síðu. Kynningarbæklingurinn verður því um hundrað síður sem tekur sæmilega læst fólk klukkustund að hornalesa slíkan bækling. Sýnikjörseðill verður fenginn hverjum kjósanda í hendur fjórum vikum fyrir kjördag.

Kjósendur geta því búið sig undir kosningarnar og útfyllt sýnikjörseðilinn og kosið einn frambjóðanda eða 25 frambjóðendur með því að skrifa fjögurra stafa tölu á kjörseðilinn. Í þessum kosningum til stjórnlagaþings almennings eru atkvæði kjósenda jöfn og landið eitt kjördæmi. Kjörseðlar verða skannaðir inn í talningarkerfi fyrir allt landið og það sem er mest um vert: þetta er fyrsta stjórnlagaþing sinnar tegundar í heiminum – og því heimssögulegur atburður.

Ný stjórnarskrá verður nýr vegvísir til framtíðar og samfélagssáttmáli sundraðrar þjóðar og kemur í stað gamallar, úreltrar, orðmargrar og óskipulegrar stjórnarskrár. Þjóðin hefur gengið gegnum mikla erfiðleika og orðið að líða fyrir ódugnað og sundrungu stjórnmálamanna og embættismanna og glæpsamlegu athæfi manna í viðskipta- og atvinnulífi.

Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.

Til að stuðla að þessu er efnt til stjórnlagaþings þjóðarinnar. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von – og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélagssáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.


Mikilvægi Ríkisútvarpsins 80 ára

Ríkisútvarpið er 80 ára á þessu ári og er mikilvægasta stofnun í eigu íslenska ríkisins.

Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og arfleifð og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og gætt fyllstu óhlutdrægni.

Ríkisútvarpið skal veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur mismunandi skoðana á málum sem efst eru á baugi og varða almenning, flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og sérstaklega fjölbreytt efni við hæfi barna.

Ríkisútvarpið skal flytja efni á sviði lista, bókmennta, vísinda og sagnfræði og veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega og miða við fjölbreytni þjóðlífsins og lögð áhersla á að tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

Þetta er afar mikilsvert hlutverk og Ríkisútvarpið hefur gegnt því hlutverki vel í 80 ár, enda ber meginhluti þjóðarinnar traust til þess. Á þessum síðustu og verstu tímum skiptir enn meira máli að Ríkisútvarpið gegni áfram vel þessu mikilsverða hlutverki.


Hvers vegna stjórnlagaþing nú?

Enn velta margir því fyrir sér hvort - og hvers vegna halda eigi frjálst stjórnlagaþing nú og hvers vegna þurfi að setja lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá á þessum síðustu og verstu tímum svika, tortryggni og vonleysis.

Nokkrir grónir fræðimenn og einstaka gamlir atvinnustjórnmálamenn, sem réðu ríkjum áratugum saman, hafa fundið kosningunum flest til foráttu: þær séu flóknar og stjórnlagaþingið muni skipað óhæfum og umboðslausum fulltrúum og "kverúlöntum. Ný stjórnarskrá verði marklaust plagg af því að “bestu menn” hafi ekki um hana fjallað. Tíminn sé ekki réttur, engin umræða hafi farið fram og núverandi stjórnskrá sé góð af því að hún er gömul og dönsk, eða belgísk eða jafnvel frönsk!

Sumt af því sem sagt hefur verið undanfarna vikur í þessari umræðu, er að sjálfsögðu í samræmi við íslenska umræðuhefð þar sem notuð eru stór orð, reynt að koma höggi á andstæðinginn og meiri áhersla lögð á útlit en innihald til þess að vekja athygli.

Ef það er rétt að ákveðnir hópar í samfélaginu vilji ekki taka þátt í því að móta nýja stjórnarskrá ber það vitni um andúð á lýðræðinu. Lýðræði er að vísu bæði stórt orð, mikið notað og iðulega misnotað. Lýðræði er hins vegar einstakt orð, bein þýðing á gríska orðinu demokratia, sem sett er saman af orðunum demos: fólk og sögninni kratein: ráða – og merkir að lýðurinn, almenningur, ráði stjórn landsins.

Allir fræðimennirnir og gömlu atvinnustjórnmálamennirnir telja sig lýðræðisinna í orði. Því vekur það furðu af hverju þeir leggjast gegn því að almenningur, fólk upp og ofan, ungt og gamalt, konur og karlar, borgarbúar og sveitamenn, lærðir og leikir fái tækifæri til þess að spreyta sig á því að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem síðan verður send Alþingi og eftir það lögð fyrir alla þjóðina til samþykktar eða synjunar. 

Hvað veldur þessu? Hvers vegna eru lýðræðissinnar eins og Björn Bjarnason og Birgir Guðmundsson, Sigurður Líndal og Guðmundur Hálfdanarson, sem skrifað hefur bók um "íslenska þjóðríkið – uppruna og endimörk", á móti lýðræðinu? Er það vegna þess að þeir fá ekki að ráða og segja til um það umfram annað fólk hvernig stjórnskráin á að líta út - eða er það vegna þess að þetta er í þeirra augum ekki lýðræði fyrst stjórnmálaflokkar, stjórnspekingar og fræðimenn eru ekki látnir ráða ferðinni - eða sjá þessir karlar (því engin kona hefur opinberlega lagst gegn þessu) að nýir tímar eru í uppsiglingu, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim?

Alræði elítunnar er á undanhaldi víðs vegar um heim í kjölfar þess að völd hafa verið misnotuð í skjóli peninga og þjóðfélagsstöðu og vegna þess að menntun er að aukast. Ekki er lengur hægt að segja sauðsvörtum almúganum fyrir verkum. Samskipti fólks eru að breytast með tilkomu netsins þar sem unnt er að afla upplýsinga og leita frétta með nýjum hætti, og prentmiðlar eru á undanhaldi og einnig ljósvakamiðlanir.

Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verður nýr vegvísir og sáttmáli og kemur í stað gamallar, úreltrar, orðmargrar og óskipulegrar stjórnarskrár. Vonandi er að sem flestir þekki sinni vitjunartíma og dæmi sig ekki úr leik heldur taki þátt í lýðræðinu.


Orð hinna skriftlærðu - prófessora, fræðimanna og farísea

Lítið leggst fyrir fræðimenn og prófessora í lögspeki og stjórnvísindum sem nú láta til sín heyra um komandi stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sem fulltrúar fólksins í landinu munu leggja drög að.

Í ummælum hinna skriftlærðu kemur fram vantrú á raunverulegt lýðræði þar sem fólkið, lýðurinn, ræður. Þeir nefna engu orði, að framboð 500 karla og kvenna á öllum aldri sýni, hversu mikill áhugi er í raun á því að leggja sitt af mörgum til þess að setja þjóðinni nýja og betri stjórnarskrá.

Þeir nefna engu orði, að bak við 500 frambjóðendur eru 15 til 25 þúsund meðmælendur auk þrjátíu til fimmtíu þúsund vitundarvotta eða samtals 45 til 75 þúsund manna, karla og kvenna, sem þegar hafa sýnt þessu máli áhuga.

Þeir nefna engu orði, að kynning á öllum frambjóðendum verður send inn á hvert heimili. Þeir nefna engu orði, að fólk geti búið sig undir kosningar með kjörseðli sem sendur verður til allra kjósenda. Þeir nefna engu orði, að atkvæði allra eru jöfn og landið eitt kjördæmi og unnt að kjósa hvar sem er. Þeir nefna engu orði, að kjörseðlar verða skannaðir inn í eitt talningarkerfi fyrir allt landið. Þeir nefna engu orði, að þetta er fyrsta stjórnlagaþing sinnar tegundar í heiminum – og því heimssögulegur atburður.

Nei. Birgir Guðmundsson dósent og deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri segir kosningarnar mjög flóknar og fæli fólk frá og ef þátttaka verði dræm komi það niður á umboði þingsins og vægi.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við HÍ segir hlæjandi að 500 frambjóðendur geri kosningarnar mjög flóknar og þær verði óbundnar stjórnmálaflokkum og kosið um persónur sem fólk þekki ekki og erfitt að koma kynningu við.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í félagsvísindum við Háskóla Íslands segir kosningarnar muni „snúast upp í fegurðarsamkeppni”, eins og hann orðar það, og ekki verði unnt kynna frambjóðendur af "neinu viti og lögmæti samkomunnar verði því umdeilanlegt".

Sigurður Líndal, fyrrum prófessor við Háskóla Íslands, kórónar svo skömmina með því að segja, að enginn þörf sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og honum lítist ekkert á stjórnlagaþing. „Mjög mikið vanti í þennan leik allan”, eins og hann orðar þetta. Taka hefði þurft eitt ár í umræður „bestu manna” og fá hefðu þurft nokkra „stjórnspekinga sem geri tillögu um stjórnarskrá" - þá megi boða til stjórnlagaþings. Á komandi stjórnlagaþingi muni „þrefarar og þrasarar taka yfirhöndina” og ræða um allt og ekkert. Umræðan í landinu undanfarin ár hafi byggst á vanþekkingu og rætt hafi verið um málið af „miklu rugli”. Stjórnarskrá sé því betri sem hún sé eldri.

Ljóst er af þessum orðum að stjórnspekingar verða ekki því betri sem þeir verða eldri.


Skuldavandi heimilanna - réttlæti fyrir alla

Ef sátt á að verða í samfélaginu eftir hrunið,þarf að leysa skuldavanda heimilanna strax. Heimilin, fjölskyldurnar í landinu,eru hornsteinn þjóðfélagsins og standa undir rekstri þess.

Allir verða að leggja sitt af mörkum: Alþingi, ríkisstjórn, launþegasamtök, lífeyrissjóðir, samtökatvinnulífsins og fjármálastofnanir auk samtaka heimilanna, umboðsmannsskuldara og talsmanns neytenda.

Kostnaður við almenna lækkun skulda heimilanna um20% er talinn nema ríflega tvöhundruð milljörðum króna. Spurt er, hvort - og hverniggreiða skuli kostnaðinn. Nú síðast hefur Árni Páll Árnason efnahags- ogviðskiptaráðherra spurt og sagst sammála niðurfærslu ef unnt er að benda á hvarfinna skuli fé til þess að greiða kostnaðinn.

Þessu skal ég svara þeim góða manni. Kostnaðinnskal greiða á þrjá vegu: með hluta af hagnaði nýju bankanna - með hagnaðilífeyrissjóðanna vegna hækkunar á vísitölu síðan í maí 2008 - og með greiðslumúr ríkissjóði. Rökin eru þessi:

Nýju bankarnir fengu eignir gömlu bankanna áþriðjungsverði, en innheimta skuldirnar að fullu. Það eiga þeir ekki að fá aðgera, heldur gefa eftir hluta af þessum hagnaði sínum til heimilanna.

Talið er að lífeyrissjóðirnir verði af 30 til 50milljörðum króna við almenna lækkun á húsnæðisskuldum heimilanna og muni þeir sligastundan. Auk þess fái lífeyrisþegar stórlækkaðan lífeyri í framtíðinni. Ekki er áþað minnst að sjóðirnir högnuðust á annað hundrað milljarða á því að vísitalanvar ekki fryst vorið 2008 og verðbólgan, sem fylgdi í kjölfarið, færði þeimstórfelldan hagnað - meðan heimilin voru látin blæða. Má ætla að framlaglífeyrissjóðanna til lækkunar skulda heimilanna sé innan við fjórðungur af þeimhagnaði.

Bent skal á að 50 milljarðar eru innan við þrjúprósent af heildareignum lífeyrissjóða landsmanna en eignirnar nema hátt áannað þúsund milljörðum – hátt á annað þúsund milljörðum.

Í þriðja lagi er það ríkissjóður, sjóðurinn allralandsmanna, sem leggja skal fram fé til þess að lækka skuldir heimilanna. Engarathugasemdir voru gerðar þegar þingmenn veittu fjármálaráðherra heimild meðneyðarlögunum 2008 til að reiða fram fé úr ríkissjóði til þess að yfirtakabankana svo að þeir gætu staðið við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum.Enginn greinarmunur var gerður á þeim sem áttu þrjár milljónir króna og hinumsem áttu tugi - eða hundruð milljarða króna í bönkunum. Ríkissjóður geturskattlagt þetta fé stóreignafólks til þess að mæta greiðslum til bjargarheimilunum, fé sem bjargað var að fullu með fé úr ríkissjóði.

Að lokum þetta: Réttlæti er fyrir alla - ekkiaðeins þá sem hafa völd og áhrif og eiga milljarða í fasteignum og lausu fé.

 


Framboð til stjórnlagaþings

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnlagaþings. Ástæðan er sú, að ég vil leggja mitt af mörkum til að móta nýja stjórnarskrá sem tryggi lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna.

Ný stjórnarskrá skal treysta undirstöður lýðræðis, sem er mannvirðing og umburðarlyndi, og tryggja skýra þrískiptingu valds, eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, landsréttindi og umhverfisrétt sem móta samskipti fólks við umhverfi sitt.

Ný stjórnarskrá skal reist á traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu, rituð á vönduðu máli og vera stuttorð og gagnorð svo allir skilji.


Stjórnlagaþing - nýi sáttmáli

Kosningar til fyrsta stjórnlagaþings á Íslandi verða í næsta mánuði. Stjórnlagaþing eru fágæt annars staðar, nánast einsdæmi. Þingið er því stóratburður í sögu lýðveldisins. Mikilsvert er því að vel takist til og áhugasamt fólk bjóði sig fram, kosningaþátttaka verði mikil og þingið fái frið til að starfa.

Heyrst hefur að þetta sé ekki rétti tíminn til þess að halda stjórnlagaþing. Þjóðin sé í sárum og önnur viðfangsefni meira aðkallandi. Satt er það: önnur eins ósköp og hrunið hafa ekki dunið yfir þjóðina á lýðveldistímanum og vandasamt verður að finna réttar leiðir út úr ógöngunum, en þær finnast!

En þessir erfiðu tímar eru einmitt rétti tíminn til þess að þjóðin, almenningur, fái að láta í sér heyra á þennan hátt, fái að láta til sín taka við setningu grundvallarlaga fyrir lýðveldið Ísland. Lýðveldi er stórt orð og merkir stjórnarfyrirkomulag þar sem almenningur, lýðurinn, hefur æðsta valdið.

Ákvæði um að almenningur hafi æðsta valdið skal vera einn af hyrningarsteinum nýrrar stjórnarskrár ásamt jafnrétti, réttaröryggi, skýrri þrískiptingu valds og virðingu fyrir hverjum einstaklingi og öllu sem lifir. Ný stjórnarskrá nú getur orðið sáttmáli fyrir íslenska þjóð - ef vel tekst til.


Stóryrði

Enn verðum við að hlusta á útúrsnúninga stjórnmálamanna og annarra málsmetandi manna sem ættu að geta lagt gott til málanna í erfiðleikum sem þjóðin glímir við.

Mörður Árnason alþingismaður notaði í Silfri Egils í gær enn sama orðbragðið og hann hefur notað síðan þeir Hannes Hólmsteinn stóðu í opinberum hanaslag fyrir hálfum öðrum áratug - sem skilaði heldur litlu, og í morgun kallar Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hugmyndir annarra manna "galnar".

Mikilsvert væri að málsmetandi menn hættu að nota sjóbúðartal, ef þeir vilja að tekið sé mark á þeim - og ef þeir vilja leggja gott til. Stóryrði og sleggjudómar leysa engan vanda.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband