Ný stjórnarskrá - ný hugsun - lýðræðisleg hugsun

Eitt meginmarkmið með endurskoðun gildandi stjórnarskrár er að gera lýðum ljóst, að uppruni valdsins er hjá þjóðinni, almenningi, kjósendum – ekki forseta og því síður hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Í skólum landsins ber að kenna að lýðræði er hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðisleg hugsun byggist á virðingu fyrir öllum, jafnrétti og frelsi fyrir til orða og athafna. Lýðræðisleg hugsun kristallast í orðinu mannvirðing

Annað markmið með endurskoðun stjórnarskrár er að tryggja skýra og algera skiptingu löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavaldsvalds og kveða á um eðli og takmörk fjórða valdsins - fjölmiðlanna, og fimmta valdsins, fjármagnsins eða auðvaldsins.

Fækka á þingmönnum og bjóða fram í tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með því er ábyrgð alþingismanna aukin, þekking þeirra á hagsmunum fólks verður meiri, tengsl við kjósendur nánari – og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking, persónuleg kynni og ábyrgð eru krafa í upplýstu fulltrúalýðræði.

Komið skal á þriðja stjórnsýslustiginu, fjórðungunum, til þess að efla sveitarstjórnir og veita ríkisvaldinu aðhald og tryggja búsetu í landinu öllu. Fámenni og dreifðar byggðir - sveitirnar - hafa miklu hlutverki að gegna og eru hluti af menningarsögu þjóðarinnar. 

Ný stjórnskráin á einungis að geyma grundvallarlög – meginreglur samfélagsins - og þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt heldur sérstakt stjórnlagaþing.

Í nýrri stjórnarskrá þarf að tryggja réttindi minnihluta á Alþingi svo og minnihluta kjósenda. Á Íslandi ríkir meirahlutaræði þar sem meirihlutinn hefur komist upp með að virða skoðanir minnihlutans að vettugi.

Skýr ákvæði þarf í nýja stjórnarskrá um þjóðaratkvæði þannig að ljóst sé hvenær kjörnir fulltrúar eiga einir að taka ákvörðun og hvenær almenningur. Tryggja að fleiri en forseti geti lagt mál í hendur þjóðinni, bæði minnihluti þingmanna og ákveðinn hluti kjósenda. Slík ákvæði um þjóðaratkvæði yrðu til þess að veita meirihlutanum aðhald.

Í stórmálum á þjóðin að geta staðfest ákvörðun meirihluta Alþingis í þjóðaratkvæði, svo sem þegar um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda og samninga við erlend ríki. Þá ber að afnema það ákvæði gildandi stjórnarskrár að forseti – eða réttara sagt ríkisstjórn – geti leyst Alþingi upp - eða með öðrum orðum: Alþingi á að sitja út hvert kjörtímabil. Með því læra þingmenn að starfa saman, leysa vandann sameiginlega.


Ný stjórnarskrá

Brýna nauðsyn ber til þess að móta nýja stjórnarskrá nú. Til þess leggja margar ástæður. Í fyrsta lagi er núverandi stjórnarskrá úrelt og gamaldags og tákn um liðinn tíma. Uppbygging og skipulag hennar, orðalag og efnistök svara ekki kalli tímans. Stjórnskrá á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og hún á að tryggja á borði – enn ekki aðeins í orði – þrískiptingu valds, jafnrétti á öllum sviðum, frelsi til orða og athafna, en um leið ábyrgð einstaklinga, félaga og stofnana, lýðræðisleg réttindi og félagslegt öryggi.

Í öðru lagi er það krafa þjóðarinnar að setja ný grundvallarlög. Hrunið varð þess valdandi að viðhorf til stjórnmálamanna hefur breyst. Nú er krafan að stjórnmálamenn sýni heiðarleika og gangist við ábyrgð – og allar stjórnarathafnir séu gagnsæjar. Ný stjórnarskrá á að stuðla að trausti milli kjósenda og stjórnmálamanna í upplýstu fulltrúalýðræði.

Í þriðja lagi er sundrung í þjóðfélaginu, vartraust á Alþingi, reiði og vonleysi. Gildi nýrrar stjórnarskrár felst í því að sameina þjóðina, lægja öldur, vekja von og efla traust á Alþingi, efla traust á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Í upplýstu fulltrúalýðræði komumst við ekki af án stjórnmálaflokka, en við verðum að geta treyst stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá á að veða samfélagssáttmáli.

Stjórnskrá á aðeins að geyma grundvallarlög – meginreglur samfélagsins. Þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt - heldur stjórnlagaþing sem kjörið er af almenningi með landið allt sem eitt kjördæmi. Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og heiðarleika, sem er krafa þjóðfundar. Fyrsta setning stjórnarskrárinnar á að vera: Virðing fyrir sérhverjum einstaklingi er ófrávíkjanleg og algild.

Fækka á þingmönnum í 36 og bjóða fram í 18 tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með þessu verður ábyrgð þingmanna meiri og þekking þeirra á hagsmunum fólksins meiri og tengsl þingmanna við kjósendur meiri - og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking og persónuleg kynni eru nauðsynleg í upplýstu fulltrúalýðræði.

Stjórnarskrá skal reist traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.


Upphafin umræða

Þorsteinn Pálsson lét svo um mælt á dögunum, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hefði að sumu leyti verið upphafin – og það skilaði ekki árangri. Sjálfur vildi hann horfa á þetta frá „praktískari sjónarmiðum”, því að ekki þurfi að stofna nýtt ríki, gera byltingu, þótt okkur hafi mistekist. Stjórnarskráin væri ekki orsök hrunsins og hefði ekki leitt til stjórnskipulegra árekstra.

Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur og gamalreyndur stjórnmálamaður með kalt höfuð – og kalt hjarta og gerir sér ekki grein fyrir því, hversu mikilsvert það er, að almenningur sýni endurskoðun stjórnarskrárinnar lifandi áhuga, auk þess sem óbreyttur almúginn vill bæta samfélagið og endurreisa lýðveldið eftir mesta áfall í 65 ára sögu þess, eins og glögglega hefur komið fram á tveimur þjóðfundum.

Andstætt því sem Þorsteinn Pálsson segir, tel ég mikilsvert, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sé upphafin –„sett til virðingar” – eins og merkingin að baki orðinu upphafinn segir til um. Umræðan verður að koma frá heitu hjarta því að "maður sér ekki vel nema með hjartanu - það mikilvægasta er ósýnilegt augunum", eins og segir í bókinni Litli prinsinn eftir franska skáldið Antoine de Saint-Exupéry. Heitt hjarta er líklegra til að bæta böl en kaldur hugur, svo ég segi ekki kaldhyggja stjórnmálamanna og gamalla lögfræðinga.

Þorsteinn Pálsson segir, að ekki þurfi að gera byltingu og stofna nýtt ríki, þótt okkur hafi mistekist. Mergurinn málsins er hins vegar sá, að bylting var gerð í samfélaginu fyrir tveimur áratugum með því að gefa glæframönnum nýfrjálshyggju lausan tauminn. „Okkur” mistókst ekki, heldur siðblindum „athafnamönnum” og ófyrirleitnum útrásarvíkingum. Kjarklitlir og jafnvel getulitlir stjórnmálamenn létu svo “praktísk sjónarmið ráða” og horfðu aðgerðarlausir á.

Meirihluti þjóðarinnar vill breyta stjórnarskránni á komandi stjórnlagaþingi til þess að gera grundvallarreglur þjóðfélagsins skýrar og breyta þeirri hugsun og þeirri afstöðu sem ríkt hefur. En stjórnlagaþingi bíður mikill vandi – meiri vandi en öllum samkomum og þingum sem haldin hafa verið á Íslandi frá upphafi og meiri vandi en Alþingi hefur staðið frammi fyrir í sögu lýðveldisins. Allir menn, karlar og konur, ungir og gamlir til sjávar og sveita verða því að sameinast um að sýna kosningu til stjórnlagaþings áhuga og virðingu – meiri virðingu en Alþingi nýtur nú. Þá er von til þess að virðing Alþingis aukist einnig.


Burt með ofbeldi, jafnari lífskjör – betra líf

Íslenskt þjóðfélag hefur fengið miklu áorkað undanfarna öld. Fyrir einni öld áttu Íslendingar einn lærðan skóla, voru fátækasta þjóð í Evrópu og barnadauði mestur allra landa. Nú eru Íslendingar með ríkustu þjóðum, lægstan barnadauða í öllum heiminum og menntun okkar sambærileg menntun annarra þjóða í Evrópu.

Margt gott er enn verið að gera og þjóðin sækir fram til betra mannlífs, ekki bættra lífskjara heldur jafnari lífskjara - og þó einkum til aukinna lífsgæða. Orðið lífsgæðakapphlaup fékk á sig neikvæðan stimpil þótt orðið lífsgæði sé jákvætt og merkir einfaldlega gott líf - þýðing á danska orðinu livskvalitet.

Þrennt er það þó einkum sem mér þykir afar aðkallandi nú, þegar þjóðin er að rísa á fætur eftir hrunið og sækir fram til betra lífs.  Í fyrsta lagi að hjálpa fíklum og þeim sem hafa ánetjast eitri. Í öðru lagi finna viðunandi leiðir fyrir þá sem veikst hafa af geðsjúkdómum - og í þriðja lagi að vinna gegn hvers konar ofbeldi, einkum ofbeldi á konum og börnum og ekki síst kynferðislegu ofbeldi.

Fréttir um hörmulegar afleiðingar af notkun fíkniefna og ofbeldi af ýmsu tagi eru óhugnanlegar. Fyrir aldarfjórðungi heyrðist ekki minnst á kynferðislegt ofbeldi, ekki vegna þess að það væri ekki fyrir hendi, heldur vegna þess að við vildum ekki vita af því og lokuðum augunum, þögguðum það niður. Og ofbeldi virðist sífellt að aukast.

Viðtal við konu í sjónvarpsþættinum Návígi 16. nóvember 2010 var sorglegt dæmi um ofbeldi og misrétti af versta tagi. Slíkt framferði, sem hún lýsti með varfærnislegum orðum og með sorg í augum, tók mjög á mig og má ekki - og á ekki að eiga sér stað.

Ríkisvaldið og almenningur og hvers konar góð samtök verða að taka höndum saman og koma í veg fyrir slíkt og þvílíkt. Ríki og sveitarfélög verða að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, því að fjölskyldur fíkla, fjölskyldur þeirra sem veikjast af geðsjúkdómum, fjölskyldur ofbeldismanna og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir ofbeldi megna ekki að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Með slíkri hjálp gerum við lífið betra.


Gildi nýrrar stjórnarskrár

Enn spyrja menn, hvaða gildi stjórnlagaþing hafi, hvers vegna þörf sé á slíku þingi nú, hvort menn hafi ekki annað þarfara að iðja á þessum viðsjárverðu tímum, hvort gamla stjórnarskráin sé ekki fullgóð og hvort Íslendingar hafi ráð á að efna til þings á þessum síðustu og verstu tímum.

Sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni í garð stjórnmálamanna, reiði fólks og vonleysi margra fjölskyldna getur torveldað kosningar til stjórnlagaþings og jafnvel hindrað, að árangur náist á þessu þingi þjóðarinnar. Frumstæð og neikvæð umræða og ótti einstakra manna getur einnig torveldað árangur.

Hins vegar leikur engin vafi á því, að krafa meirihluta þjóðarinnar er um breytt viðhorf í stjórnmálum, að stjórnmálamenn sýni heiðarleika og ábyrgð og gagnsæi sé í stjórnarathöfnum og afdráttarlaus og skýr þrískipting valds.

Gildi stjórnlagaþings og nýrrar stjórnarskrár nú felst í því að sameina þjóðina, gefa fólki von, lægja öldur, vekja von og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkunum og stjórnmálamönnum – sem við komumst ekki af án. Ný stjórnarskrá á að verða samfélagssáttmáli.


Stjórnlagaþing fólksins - lýðræði og jafnrétti

Gagnlegt var að hlusta á yfirvegaða umræðu dr Eiríks Bergmanns á ÍNN í gær þar sem hann fjallaði um stjórnlagaþingið 2011 og nýja stjórnarskrá. Benti hann á, að þing af þessu tagi væri einsdæmi og mikilsvert tæki til að móta stjórnarskrá á lýðræðislegan hátt.

Stjórnlagaþing fólksins er einsdæmi í sögunni. Tortryggilegt er því þegar Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, og Davíð Oddsson reyna að finna þinginu allt til foráttu. Sigurður segir "bestu menn þjóðarinnar" eigi að setja saman stjórnarskrá og Davíð að "engin skýring hafi komið fram á því að nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni". 

Eftirtektarvert er að Sigurður notar orðin "bestu menn þjóðarinnar" og Davíð að "gera atlögu að stjórnarskránni". Þeir viðast ekki skilja kröfu tímans um lýðræði og jafnrétti - eða öllu heldur: Þeir vilja ekki skilja kröfu tímans um lýðræði og jafnrétti.


Að loknum þjóðfundi, svar til leiðarahöfundar MBL

Sorglegt er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag. Ályktunarorð leiðarans eru, að engin skýring hafi komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.

Sorglegt er að lesa háðslegt orðbragð, niðurbælda reiði, útúrsnúninga og dulinn ótta um þetta mikilsverða mál. Sorglegt er að þetta gamla málgagn heiðarlegra íhaldsmanna leggst svona lágt.

Sorglegt er að svona er komið fyrir umræðu Morgunblaðsins sem undir forystu Matthíasar Johannessens og Styrmis Gunnarssonar fór fyrir í málefnalegri umræðu um ágreiningsmál í stjórnmálum um áratuga skeið.

Nú reynir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að gera vilja meginhluti þjóðarinnar hlægilegan og þykist ekki skilja það sem flestum hugsandi mönnum er ljóst.

Ný stjórnarskrá er nauðsyn eftir verk spilltra stjórnmálamanna og glæpsamlegt athæfi einstakra manna í viðskiptalífinu undanfarin ár. Þjóðin er ekki síður reið en leiðarahöfundur MBL og hefur til þess meiri ástæðu. Afskræmd frjálshyggja og stjórnmálaspilling lagði líf tugþúsunda manna í rúst, ekki gamla, danska stjórnarskráin - heldur brostið siðvit.

Ný stjórnarskrá er nauðsynleg til þess að treysta siðvit og tryggja undirstöður lýðræðis, skýra þrískiptingu valds og eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, stjórnarskrá sem reist á virðingu fyrir öllum – einnig þeim sem hafa andstæða skoðun – en það er grundvöllur heilbrigðrar umræðu.

Heiðarlegum Íslendingum mun á grundvelli jafnréttis á öllum sviðum og skýrrar þrískiptar valds takast að reisa landið úr rústunum frjálshyggjunnar, en verk óbótamanna gleymast ekki.


Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja

Í dag, laugardag 6ta nóvember 2010, var haldinn þúsund manna þjóðfundur í Reykjavík. Fólk alls staðar að af landinu, ungt fólk og gamalt, karlar og konur, lærðir og leikir komu saman til þess að láta í ljós álit sitt á því hvernig ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið ætti að líta út.

Lítið þýðir að segja að fundurinn hafi verið heimssögulegur atburður, því heimurinn er stór og Ísland er lítið. Þjóðfundurinn var heldur ekki fyrsta frétt í fjölmiðlum heimsins heldur ofbeldi í skjóli hervalds, misrétti í skóli auðvalds og yfirgangur í skjóli blindra stjórnvalda sem troða á rétti barna, kvenna og fátæks fólks.

Þjóðfundurinn ER engu að síður heimsögulegur atburður af því slíkt hefur aldrei verið reynt áður í hinum stóra heimi. Þjóðfundurinn er einnig sögulegur atburður á litla Íslandi og markar tímamót í sögu þjóðar og á fundinum ríkti einurð, samstaða - og bjartsýni.

Enda er margt gott að gerast með þessari fámennu þjóð. Ungt fólk vinnur afrek á sviði tónlistar, leiklistar, íþrótta og annarrar menningar og staðarmenning eflist um allt land. Hugmyndir fæðast um nýjar leiðir í atvinnumálum og landið býr yfir auðlindum: hreinu vatni, hreinu lofti, jarðvarma, fallorku og síðast en ekki síst gjöfulum fiskimiðum.

En heimilum landsins er að blæða út. Á meðan sitja alþingismenn eins og umskiptingar og formaður stærsta stjórnmálaflokksins segist ekki vinna með stjórn landsins af því að hann viti allt, skilji allt og geti allt. Auk þess leggst flokkurinn gegn því að ný stjórnarskrá sé samin. Sú gamla sé nógu góð.

Þegar lærisveinarnir spurðu Jesú, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum, sagði hann: Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum að sjáandi sér þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Þetta á við um alþingismenn. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

Þjóðin mun hins vegar ekki tala til þeirra í dæmisögum - heldur í verkum sínum.

 


Íslensk umræðuhefð

Í kvöld horfði ég á vikulegan umræðuþátt í norska sjónvarpinu, DEBATT, eins og þátturinn nefnist. Rætt var um njósnir Bandaríkjamanna í Noregi, viðkvæmt efni og óskiljanlegt: að "vinaþjóð", sem svo er nefnd, brjóti lög samstarfsþjóðar.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða um nú undir miðnætti, heldur hvernig rætt var um þetta viðkvæma mál í norskum stjórnmálum sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Skoðanir voru skiptar og skoðanaskipti hörð og einörð. Hins vegar sýndu viðmælendur öðrum virðingu og tóku aldrei fram í fyrir öðrum, því síður þeir notuðu háð og brigslmælgi.

Mér varð hugsað til umræðu á Alþingi fyrr í dag, elsta þings í Evrópu, eins og kallað er, þar sem sama hanaatið fer fram og áður, ómálefnaleg umræða, skortur á virðingu og skortur á hugmyndum þegar landið er að sökkva. Þingmenn þyrftu sannarlega að snúa bökum saman og finna leiðir til lausnar, lausnir sem liggja í augum uppi fyrir þá sem sjáandi eru. Alþingismenn Íslendinga eru hins vegar blindir - og haga sér eins og götustrákar.


Er Evrópusambandið eina leiðin?

Lengi fannst mér tvær þjóðir búa í þessu landi, þjóðin í borgríkinu Reykjavík - og hin þjóðin. Nú er mér farið að finnast eins og margar þjóðir búi í þessu fagra og landi og gjöfula: fátækt fólk og ríkt, menntað fólk og ómenntað, hógvært fólk og dónar, hugsandi fólk og götulýður og að sjálfsögðu ungt fólk og gamalt, konur og karlar, sjómenn og bændur, iðnaðarmenn og ófaglærðir - og svo atvinnustjórnmálamenn sem ekki koma sér saman um neitt, þótt landið sé að sökkva - eða hvað.

Ýmislegt bendir nefnilega til þess, að landið hafi aðeins sokkið að hluta. Meðan þúsundir þurfa að þiggja mat í plastpokum og íbúðir 20 þúsund fjölskyldna séu á uppboði, getur fjölmargt fólk leyft sér hvað sem er í efnalegu tilliti. Bjórkrár eru fullar af fullu fólki kvöld eftir kvöld, veitingastaðir og sælkerahús eru troðin af úttroðnu fólki á besta aldri viku eftir viku, uppselt er að verða í sólarlandaferðir í vetur og dýrir bílar eru farnir að seljast aftur eins og heitar lummur, en sumir virðast telja það bera vitni um velmegun í landinu.

Hefur eitthvað gleymst? Hefur hrunið ekki kennt nýríkum og sjálfselskum Íslendingum neitt? Getur ekkert komið okkur í skilning um að jafnrétti, hófsemi og mannvirðing á að gilda? Eða getum við ef til vill ekki bjargað okkur sjálf? Þurfa aðrir að koma okkur til hjálpar, eins og lærðir menn frá útlöndum í Silfri Egils prédika sunnudag eftir sunnudag? Er Evrópusambandið ef til vill eina leiðin?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband