Hörgarnir í Hörgárdal

Margir telja Hörgárdal draga nafn af heiðnum blótstöðum, hörgum, þótt engar heimildir séu um slíka blótstaði í Hörgárdal né annars staðar á Íslandi. Á landnámsöld var heiðinn átrúnaður á undanhaldi og kristni farin að festa rætur á Íslandi. Einnig af þeim sökum er ósennilegt að Hörgárdalur dragi nafn af heiðnum blótstöðum, enda hafa þeir naumast sett þann svip á dalinn að hann dragi nafn sitt þar af.

Orðið hörgur er í norsku notað um kollótt fjöll með brattar hlíðar - „fjellnut, særlig med flat topp og bratte sider". Örnefnafræðingar í Noregi telja líka öll hörga-örnefni þar í landi eigi rætur að rekja til þessa orðs. Hörga-örnefni eru mörg í Noregi. T.a.m. eru milli Harðangursfjarðar og Sognsævar mörg fjöll sem bera sanfnið hörgur – horg, s.s. Veskrehorg, Grönahorg, Svartahorgi og Lönahorgi, skammt norður af Voss, og þar norður af er Horgadalen – Hörgadalur. Raunar eru Hörgadalir fjórir á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmanna komu.

Þegar siglt er inn Eyjafjörð og Hörgárdalur opnast á stjórnborða, blasa við fjöllin vestan Hörgárdals: nyrst Þrastarhólshnjúkur, síðan Staðarhnjúkur og Fálkahaus sem mynda burstir í kollóttum og bröttum fjöllunum ofan Möðruvalla. Innar eru Lönguhlíðarfjall, Högg og Slembimúli, Grjótárhnjúkur og Háafjal. Öll þessi fjöll minna á hörgana á Hörðalandi.

Sennilegt er því, að fjöllin vestan Hörgárdals séu hörgarnir, sem gáfu dalnum nafn í upphafi og hafi minnt norsku landnámsmennina á hörgana heima í Noregi. Dalurinn hefur upphaflega heitið *Hörga-dalur, eins og dalirnir á Hörðalandi, eftir fjöllunum sem enn setja svip á dalinn og greina hann frá öðrum dölum við Eyjafjörð. Síðar hefur fólk tekið að kalla dalinn Hörg-ár-dal eftir *Hörg-a-á, á sama hátt og einstaka maður er farinn að tala um *Fnjósárdal eftir Fnjóská í stað þess að kalla dalinn Fjóskadal, eins og hann hefur heitið frá upphafi, nefndur eftir fnjóskunum, þurrum og feysknum trjástofnum sem enn setja svip á Fnjóskadal. Hörgarnir í Hörgárdal standa því enn – og hafa staðið í tíu þúsund ár.


Völd Sjálfstæðisflokksins

Hvað veldur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins verið öflugasti stjórnarmálaflokkur á Íslandi frá því Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 1929 og stefnuskrá hins nýja flokks birtist í Morgunblaðinu og Vísi undir fyrirsögninni „Ísland fyrir Íslendinga”, heldur hefur enginn stjórnmálaflokkur á Vesturlöndum haft sama kjörfylgi og völd og Sjálfstæðisflokkurinn í samanlagðri Kristni.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar kosningarnar 1987, þegar Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fékk 10.9% atkvæða, og kosningarnar 2009, þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs Oddsonar á einkavæðingartímabilinu á árunum 1995 til 2004.

Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn 50 ár á 67 árum lýðveldistímans eða 8 af hverjum tíu árum – eða með öðrum orðum 80% lýðveldistímans. Enginn flokkur á Vesturlöndum hefur því átt viðlíka fylgi og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi.

Hvað veldur

Vafalítið eru fjölmargar skýringar á þessu fylgi og völdum áhrifum Sjálfstæðisflokksins og fleiri en hér er unnt að rekja. En fyrst ber að nefna nafn flokksins: Sjálfstæðisflokkur. Íslendingar hafa viljað – og vilja vera sjálfstæðir menn, sjálfstæðismenn. Þetta viðhorf virðist okkur í blóð borið sem fátækri og hrakinni smáþjóð á hjara veraldar en fram á síðustu öld voru Íslendingar fátækasta þjóð í Evrópu, en efaðist aldrei um eigið ágæti vegna elstu tungu Evrópu og einstakra bókmennta allt frá miðöldum til Bókamessunnar í Frankfurt í október. Nafnið eitt vegur því þungt.

Í öðru lagi hefur skipulag Sjálfstæðisflokksins verið betra en hjá öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum allt frá því á fjórða áratugnum þegar sjálfstæðirmenn kynntust skipulagi stjórnmálaflokka í Þýskalandi,, eins og landsfundurinn 2011 bar vitni um. Flokkurinn hefur einn allra flokka stöðugt haldið uppi stjórnmálaskólum víðs vegar um land og komið sér fyrir í flestum launþegasamtökum, frjálsum samtökum almennings og landssamtökum á sviði íþrótta- og ræktunarmála. Skipulag og flokksagi hafa því skipti miklu.

Í þriðja lagi hafa miklir hæfileikamenn lengst af veitt flokknum forystu. Má nefna Jón Þorláksson, Ólaf Thors og Davíð Oddsson – allir svipmiklir foringjar, orðvísir ræðumenn sem kunnu að tala til fólksins, fá fólk á sitt band og móta skýra stefnu með einföldum slagorðum.

Í fjórða lagi hefur vagga flokksins, höfuðstöðvar og meginfylgi verið í Reykjavík, höfuðborg lýðveldisins, þar sem völd og auður hafa grafið um sig alla tíð, lengst af í höndum nokkurra ríkra og voldugra ætta embættis- og athafnamanna. Hefur margur ungur maðurinn, karl og kona, séð sér hag í að ganga til fylgis við flokkinn til þess að hefjast til frægðar og frama í embættis- og dómskerfi landsins svo og í viðskiptalífinu – og verkin sýna merkin.

Í fimmta lagi hefur flokkurinn breyst í takt við tímann – þróast – frá því að vera íhaldssamur flokkur embættismanna, heildsala og stórbænda til þess að sinna félagslegum kröfum um jafnrétti. Hefur flokkurinn færst inn á miðjuna og öðrum þræði orðið sósíaldemókratískur flokkur. En flokkurinn hefur hins vegar aldrei gleymt því „að gæði landsins væru til afnota fyrir landsmenn eina” og „vinna að þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum”, eins og segir í stefnuskrá flokksins, „flokks allra stétta”, sem er eitt snjallasta slagorð flokksins í átta áratuga sögu hans.

Framtíðin

Úrslit síðustu alþingiskosninganna kunna að boða breytta tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn, voldugasta stjórnmálaflokks á Vesturlöndum í 70 ár. Til þess benda atkvæðatölur 2009, en auk þess kann fleira að koma til. Ungt fólk víða um lönd hefur mótmælt misskiptingu auðs og valda lýst andúð á völdum auðvaldsins og víðtækum áhrifum peningamanna og krefst jafnréttis, tryggrar atvinnu og félagslegs öryggis. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessara mála ræður því miklu um áhrif og völd flokksins í framtíðinni.

Þá fer umræða um þjóðmál og stjórnmál fram á ólíkan hátt en áður og á öðrum vettvangi. Bæði þau dagblöð, sem nú koma út á Íslandi – Morgunblaðið og Fréttablaðið – eru í höndum aðila sem, styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins, þótt nokkuð beri á milli og tónninn sé ólíkur. Ungt fólk les nú síður prentmiðla og heldur netmiðla af ýmsu tagi upplýsingar berast fólki á Netinu, óháð prentuðum flokksfjölmiðlum, enda er Netið orðið stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims – stærsti skóli í heimi. Stjórnmálaumræða framtíðarinnar mun því fara fram þar – ekki innan um minningargreinar Morgunblaðsins. 


Myndin af Jónasi

JH koparstunga 1883

Í dag er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar, fyrsta nútímaskálds Íslendinga, skáldsins sem fann fegurð íslenskrar náttúru. Talið hefur verið, að engin mynd hefði verið gerð af honum í lifanda lífi. Mynd, sem oftast er notuð, er koparstunga sem birtist með Ljóðmælum hans sem út komu í Kaupmannahöfn 1883. Koparstunga þessi er gerð eftir teikningu Sigurðar málara frá 1860, en Sigurður málari gerði teikningu sína eftir vangamynd sem Helgi Sigurðsson, þá læknastúdent í Kaupmannahöfn, síðar prestur á Melum í Melasveit, dró upp af Jónasi á líkbörunum á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn í maí 1845. Leiðin frá vangamynd Helga frá árinu 1845 til teikningar Sigurðar málara frá árinu 1860 og koparstungunnar 1883 er því löng og þess naumast að vænta, að koparstungan líkist Jónasi, enda sögðu frændur hans í Eyjafirði koparstunguna lítið minna á Jónas og „voru þeir á móti myndinni”.

 

Í Listasafni Íslands eru varðveittar þrjár aðrar teikningar eftir séra Helga af Jónasi. Hefur verið talið að myndirnar hafi hann allar gert af Jónasi látnum. Ein myndanna sker sig mjög úr: hálfvangamynd af mjúkhærðum manni, lítt skeggjuðum, dökkbrýndum, ennið allmikið, réttnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar, stóreygður og móeygður, svo notuð séu orð Konráðs Gíslasonar úr lýsingu hans í minningargrein um Jónas í Fjölni 1847.

li_00152

Líkur benda til að þessi mynd, hálfvangamyndin, sé gerð af Jónasi í lifanda lífi og hafi Helgi Sigurðsson notað teiknivél sem nefnd er camera lucida og er eins konar myndvarpi og minnir á myndvarpa sem notaðir voru í skólum á árum áður. Myndin er ólík hinum þremur teikningum Helga á allan hátt:hlutföll eðlileg og persónueinkenni skýr. Eins og áður er að vikið, kom Helgi Sigurðsson á Friðriksspítala við Breiðgötu í Kaupmannahöfn þessa vordaga 1845, þegar Jónas lá fyrir dauðanum, en Helgi var þá við læknanám og hafði áður numið teikningu í Listaskólanum, Det kongelige kunstakademi. Niðurstaðan er því sú, að til er mynd af listaskáldinu góða gerð af honum í lifanda lífi.

 

Af þeim sökum á að nota þessa mynd sem myndina af Jónasi, en ekki flata koparstungu frá 1883 sem er ber engin persónueinkenni han. Hálfvangamyndin er eins konar ljósmynd af Jónasi - hún er myndin af Jónasi. 


"Stíga til hliðar" - málfátækt og klisjur

Lengi hafa tískuorð og orðasambönd skotið upp kollinum og sett svip á daglega umræðu. Dæmi um tískuorðasamband, sem nú er klifað á, er orðtakið að stíga til hliðar sem komið er úr ensku - to step aside. Enginn heyrist lengur tala um að draga sig í hlé, segja af sér, láta af störfum, hætta störfum – eða einfaldlega hætta. Nei, biskup á að stíga til hliðar, formaður Sjálfstæðisflokksins á að stíga til hliðar og Levi Strauss varð að stíga til hliðar.

Fyrir fjórum áratugum skaut upp tískuorðinu purkunarlaust sem blaðamenn, gagnrýnendur og stjórnmálamenn notuðu purkunarlaust. Elsta dæmi orðsins er frá árinu 1918. Síðan kemur það ekki fyrir í rituðu máli fyrr en um 1980. Þá mátti lesa setningar eins og: „Sesselja er purkunarlaust ódáðakvendi” og „kaupandi hagnýtir sér purkunarlaust fákænsku seljenda” eða „kófdrukkið par lá úti á miðju túni og athafnaði sig purkunarlaust”, „purkunarlaus bandarískur áróður hefur fyllt sálir manna níði”.

Vegna ofnotkunar vissi að lokum enginn hvað orðið purkunarlaust merkti, það varð af þeim sökum ónothæft eins og annað sem er ofnotað. Mikilsvert er fyrir þá sem vilja tala – eða skrifa gott mál að nota fjölbreytt orðaval.

Einhæft orðalag bendir til þess sem kallað er málfátækt en málfátækt getur stafað af ýmsu. Eðlilegt er að börn og ungt fólk búi við málfátækt, einnig þeir sem lesa lítið – svo og nýbúar. Er sjálfsagt taka tillit til slíkra aðstæðna. Hins vegar er illt – að ekki sé sagt óhæfilegt að blaðamenn og fréttamenn og aðrir, sem hafa atvinnu af því að nota íslenskt mál, búi við slíka málfátækt að geta aðeins gripið til orðasambandsins að stíga til hliðar þegar unnt er að nota mörg önnur um sama efni.

Framburður setur einnig mark sitt á mál fólks. Nú breiðist út fyrirbæri sem nefnt er brottfall úr áherslulausu atkvæði. Gamalt dæmi um brottfall úr áherslulausu atkvæði er þegar Davíð Oddsson talaði um fosstráðherra og um fossda Íslands og átti við fjandvin sinn Ólaf Ragnar. Enn eldra dæmi um brottfall úr áherslulausu atkvæði eru orð Bjarna Felixsonar íþróttafréttamanns: „Aknesingar og Kebblíngar keppa á laurdag.” Nýtt dæmi er framburðurinn tuttu – í stað tuttugu, eins og heyra má úr munni margra ágætra fréttamanna RÚV.


Danshneykslið "Dans, dans, dans"

Ótrúlegt var að verða vitni að úrslitum í danskeppni Ríkissjónvarpsins í kvöld. Stúlkan, sem bar af öðrum og dansaði klassískan ballett eins og engill, komst ekki áfram, en óagaður samkvæmisdans og morgunleikfimi fjögurra mæðra komst áfram. Hér er einhver maðkur í mysunni, s.s. skipulögð símakosning vina og vandamanna. Hugmyndin með dagskrá RÚV var góð - en framkvæmdin er algert hneyksli.

Auðvald og almenningur

Permit me to issue and control the money of a nation,

and I care not who makes its laws.

Mayer Amschel Rothschild [1744-1812] 

Ummælin að ofan eru höfð eftir Mayer Amschel Rothschild, stofnanda bankaveldis Rothschild ættarinnar. Í Forbes Magazine 2005 er hann talinn einn af 20 áhrifamestu mönnum í viðskiptalífi heimsins frá upphafi og kallaður „founding father of international finance". Afkomendur hans mynda nú auðugustu ætt heimsins. M. A. Rothschild vissi því hvað hann var að segja, þegar hann óskaði eftir því að fá að stjórna fjármálum þjóðar, þá væri honum nokk sama hver setti lögin. Vert er líka að hafa í huga – áður lengra er haldið lestrinum, að nú - árið 2011 - eiga 10% fullorðinna 85% auðsins í heiminum. Þessi hópur er kallaður er auðvald, þótt fleiri smástirni snúist í því myrka sólkerfi. 

Stóra blekkingin 

Löggjafarþing og þjóðarleiðtogar vinna að því þessa dagana að bjarga viðskiptabönkum og fyrirtækum í löndum sínum og rétta af ríkissjóði til að forðast fjárhagshrun. Eina leiðin, sem talin er fær, er að prenta peninga og veita þeim, sem skulda mest, ný lán. Þetta er hins vegar blekkingin, þetta er stóra blekkingin. Gjaldmiðill, sem ekki er ávísun á önnur verðmæti en sjálfan sig, er ekki annað en verðlausir pappírspeningar sem kynda verðbólgueld, rýra eignir almennings og gera ekkert annað en auka vandann. 

Austurríski hagfræðiskólinn

Austurríski hagfræðiskólinn, sem svo er nefndur, hefur um árabil varað við óhóflegri seðlaprentun sem í raun sé orsök efnahagsvandans – ekki lausn hans. Í skjóli pappírspeninga er takmörkuðum auðlindum heims – vinnu, hráefni og orku, sóað í stað þess að nýta auðlindir til arðbærra verkefna. Vegna seðlaprentunarinnar hafa efnahagsbólur orðið til, eins og heimurinn hefur horft upp á. Síðan springa bólurnar og í kjölfarið fylgir verðhrun, gjaldþrot og atvinnuleysi – afleiðingar af fölskum hagvexti. Samkvæmt austurríska hagfræðiskólanum er önnur ástæðan sú, að seðlaprentun og lánum er miðstýrt í stað þess að láta lögmál markaðarins ráða.

Kunnasti fulltrúi Austurríska hagfræðiskólans er Ludwig von Mises. Hann aðhylltist klassíska frjálshyggju sem vill takmarka ríkisvald, treysta grundvallarlög hvers ríkis og láta lögmál markaðarins ráða innan laga réttarríkisins. Einn kunnasti núlifandi fylgismaður Austurríska hagfræðiskólans er hins vegar bandaríski hagfræðingurinn Peter Schiff sem um árabil hefur bent á ógnina af óheftri seðlaprentun. Hann sagði fyrir um hrun „dot.com bólunnar” og hrun fjármálamarkaða 2008. Fáir tóku mark á spádómum hans og reyndu að gera hann bæði tortryggilegan og hlægilegan. Peter Schiff spáir enn nýrri fjármálakreppu. Bjargráð hans eru einföld. Í fyrsta lagi verða einstaklingar og þjóðir að spara meira og eyða minna. Og í öðru lagi verður að hefta takamarkalausa seðlaprentun, því að gjaldmiðill verður að vera ávísun á raunveruleg verðmæti.

Peter Schiff hefur gengið gegn kenningum hagfræðinga sem prédika miðstýringu í fjármálum til að leysa efnahagsvanda, hagfræðinga eins og Alans Greenspan, Bens Beranke og Pauls Krugman, sem er einn upphafsmanna „the new trade theory", og ekki síst hefur Peter Schiff gengið gegn kenningum Johns Maynard Keynes en hugmynd hans er að beita miðstýrðum aðgerðum í peningamálum og ríkisfjármálum til að vinna gegn neikvæðum áhrifum efnahagssamdráttar og kreppu og auka hagvöxt. Hafa kenningar Keynes haft feikileg áhrif og eru grundvöllur þess sem nefnt er Keynesísk hagfræði.

Hið alþjóðlega auðvald

Krafa hins alþjóðlega auðvalds um 10 til 25% arð af fjármagni vegur þó þyngst í endalausri fjárhagskreppu heimsins. Til þess að mæta þessum kröfum hins er framleiðsla flutt til fátækra landa þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við arðrán og vinnuþrælkun, bæði vegna þess að stjórnvöld í þessum löndum eiga fárra kosta völ og vegna þess að notaðar eru hótanir og mútur til þess að fylgja arðráninu eftir. Til þess að halda hringekju auðvaldsins gangandi er almenningi talin trú um að hamingjan sé fólgin í því að kaupa – og eyða, enda samfélög Vesturlanda löngu orðin botnlaus neyslusamfélög. En með aukinni neyslu er auðvaldið að auka hagnað sinn og vald og með frekari seðlaprentun í skjóli kenninga um tæknilegar fjármálaaðgerðir í anda Keynes snýst hringekjan sífellt hraðar og hraðar. Enginn virðist geta stöðvað hana – en margir vilja stökkva af vegna þess að sífellt fleiri Vesturlandabúar átta sig á því að hamingjan eykst ekki með auknum kaupmætti.

Mótmæli í þúsund borgum

Gleggst merki um að almenningur er farinn að sjá gegnum blekkingarvef auðvaldsins eru mótmæli víðs vegar um heim. Búsáhaldabyltingin á Íslandi er angi af þessu og mótmælin á Wall Street og í þúsund öðrum borgum undanfarið beinast gegn auðvaldinu, gegn misskiptingu auðsins og blekkingunni um hagvöxt og vístölur. Jafnvel uppreistir í Egyptalandi, Túnis og annars staðar í Afríku eru af sama toga. Ein kveikjan að þessum mótmælum eru upplýsingar sem berast á Netinu, óháð fjölmiðlum auðvaldsins, en Netið er orðin stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims – stærsti skóli í heimi.

Annars konar misrétti er fólgið í því, að á meðan stjórnmálamenn – og verkalýðsleiðtogar í ríku löndunum berjast fyrir auknum kaupmætti, sveltur fólk í fátæku löndunum, jafnvel í löndum þar sem auðvelt væri að brauðfæða alla, löndum sem búa yfir náttúruauðlindum s.s. vatnsorku, olíu, gulli og dýrum málmum. Eitt brýnasta verkefni samtímans er að koma á jöfnuði meðal einstaklinga og þjóða, breyta eignaskiptingu milli hins alþjóðlega auðvalds og almennings og gera fátækum þjóðum kleift að bjarga sér sjálfar.

Vald spillir

Alkunna er að allt vald spillir og algert vald spillir algerlega. Í skjóli auðvalds þrífst spilling og glæpir, eins og við höfum orðið vitni að hér á landi. Versta birtingarmynd spillingarinnar eru styrjaldarátök en að baki þeim býr ógnarvald vopnaframleiðenda, sem eru hluti af hinu alþjóðlega auðvaldi. Þetta ógnarvald skirrist einskis í purkunarlausri baráttu fyrir auknum arði af fjármagni og beitir mútum, áróðri og lygum til þess að ná fram ætlunarverki sínu að auka arð af fjármagni sínu. Annað brýnt verkefni samtímans er því að koma á friði í heiminum – en grundvöllur friðar er jöfn skipting milli einstaklinga og þjóða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband