30.11.2012 | 11:23
Íslenskir stjórnmálamenn alltaf að rífast
Fróðlegt var að hlusta á Göran Persson, fyrrum, forsætisráðherra Svía, ræða íslensk stjórnmál á dögunum. Það sem hann lagði mesta áherslu á til þess að komast út úr fjárhags- og hugmyndakreppu íslenskrar örþjóðar, var að íslenskir stjórnmálamenn sýndu samstöðu og ynnu saman þar til varanlegur árangur næðist. Síðan gætu þeir farið að takast á rífast.
Það eru gömul sannindi að sameinaðir sigrum vér, sundraðir föllum vér eða eins og rómverski sagnaritarinn Sallustius orðaði það fyrir 2000 árum: Concordia parvae res, discordia maximae dilabuntur. Samstaða virðist hins vegar ekki vera ein af gáfum þessarar undarlegu þjóðar. Sumir þingmenn eru heldur ekki þingtækir eru ekki færir um að talast við á mannamótum, heldur nota þeir sjóðabúðatal og vinnukonukjaft, sem hugsanlega getur verið gott og gilt norður í Ólafsfirði eða austur í Flóa en ekki á Alþingi.
Eftirtektarvert er einnig að sumir fréttamenn veita þessum strigakjöftum meira rúm í umfjöllun sinni en þeim fjölmörgu alþingisþingmönnum sem reyna að leggja gott til málanna. Það þykir sennilega ekki kúl í fréttum þar sem alltaf er verið að leita að fréttinni um manninn sem beit hundinn. Þá er það einnig umhugsunarvert að formenn stjórnmálaflokkanna láta sitt ekki eftir liggja í svigurmælum, hvort heldur um er að ræða Bjarna Benediktsson, Steingrím Jóhann eða Sigmund Davíð það er helst Jóhanna Sigurðardóttir sem talar af setningi, en Össur Skarphéðinsson bætir það þá upp.
Einnig er eftirtektarvert að gamlir stjórnmálamenn, sem ættu að geta litið af yfirvegun um farinn veg og gefið góð ráð, þenja sig með stóryrðum. Fer ritstjóri Morgunblaðsins þar fremstur í flokki, enda orðvís maður, en sama er að segja um Halldór Blöndal og Þorstein Pálsson, sem þó ættu að geta miðlað af þekkingu sinni. Ég tala ekki um Sighvat Björgvinsson sem enn verður sér til skammar í stjórnmálaumræðu eins og hann byrjaði með ungur á Alþingi 1976 þegar hann sakaði Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra um að hefta rannsókn í morðmáli.
Þess hefur verið getið til, að við Íslendingar værum svona orðhvatir vegna þess að við erum komnir af Agli Skallagrímssyni og öðrum ribböldum sem flýðu nýtt þjóðfélagsskipulag og reglu sem Haraldur hárfagri Hálfdanarson svarta vildi koma á í Noregi. Einnig benda fróðir menn á að yfirgangur hafi fylgt okkur frá því Sturlungaöld þegar bræður bárust á banaspjót.
Ekkert af þessu er ekki næg skýring, þótt vera kunni hluti af skýringunni. Miklu fremur mætti segja að við gerum okkur ekki grein fyrir, hvað hæfir í samskiptum siðmenntaðs fólks, enda hafa útlendingar, sem hingað koma, undrast framkomu okkar. Hér er helst um að kenna þekkingarleysi á góðum siðum, fávísi og menntunarleysi.
Því bind ég vonir við að nýtt fólk og betur menntað og betur siðað sem er að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi, taki upp aðra siði og sameinist um að sýna samstöðu en ali ekki á sundrungu. Þar bind ég vonir við stjórnmálaleiðtoga eins og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún flutti með sér nýtt viðhorf í borgarstjórn og gerir það án efa í landsstjórninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2012 | 17:44
Ný hugsun - Nýtt Ísland
Margt bendir til þess að ný kynslóð sé að kveðja sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, bæði í gamla fjórflokkunum og nýjum flokkum eða framboðum, sem hafa hætt sér út á vígvöllinn, þar sem flestir verða sárir, allir ákaflega móðir og margur góður maður, karl eða kona, fer þaðan kalinn á hjarta, eins og Grímur Thomsen segir í kvæði sínu Á Glæsivöllum þar sem hann lýsir stjórnmálalífi á 19du öld. Kvæðið kallar hann Á Glæsivöllum. Þar er ekki allt sem sýnist, þrátt fyrir glæsileikann:
Hjá Goðmundi á Glæsivöllum gleði er í höll,
glymja hlátrasköll,
og trúðar og leikarar leika þar um völl,
en lítt er af setningi slegið.
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt,
en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
Náköld er Hemra,
því Niflheimi frá
nöpur sprettur á.
En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,
kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
Lýsing Gríms, bónda á Bessastöðum, getur vel átt við stjórnmálalíf á Íslandi undanfarna áratugi, eins og skrif Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar, Styrmis Gunnarssonar, Svavars Gestsonar - að ekki sé talað reiðilestra Sighvats Björgvinssonari - bera með sér. Allir virðast þeir að vísu hafa sloppið lifandi úr þessu ríki handan Hemru, fljótinu sem skilur á milli ríkis hinna lifandi og hinna dauðu, Niflheimi, en allir koma þeir aftur til mannheima með kalið hjarta.
Vonandi er að unga fólkið, sem nú kveður sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, getið sloppið við hjartakuldann. Mikilsverðast í því sambandi er að nýir stjórnmálamenn geti talað saman, bróðernið verði ekki flátt og gamanið ekki grátt, heldur tali fólk saman, hlusti á andstæðinginn eins og segir í Hávamálum: tala þarft eða þegja, eða eins og Rómverjar hinir fornu höfðu að orði á blómaskeiði sínu: Audiatur et altera pars - hlustið einnig á hinn aðilann. Ef stjórnmálamenn á Íslandi hlusta á hinn aðilann og reyna að læra hver af öðrum- er von til þess að hilli undir nýtt Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2012 | 23:40
Sjálfhverfur er Sighvatur
Eins og áður er kynlegt að lesa skrif Sighvats Björgvinssonar. Í grein í Fréttablaðinu daginn fyrir friðardaginn ræðst hann með skömmum að fólki á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára og kallar það sjálfhverfustu kynslóð á Íslandi, sem tali ekki um annað en sjálft sig og sagðist fyrir hrunið bera lagt af jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum, taldi sig geta kennt öðrum þjóðum og ól af sér útrásarvíkingana, keypti þekktustu vörumerki Norður Evrópu og vínræktarhéruð í Suður Evrópu, turna í Macao og notaði gullduft sem útálát á steikurnar í Róm enda komið á vanskilaskrá fyrir hrun af því að lifa um langt efni fram, tók lán í öðrum gjaldmiðlum en hún hafði tekjur í og segir fall íslensku krónunnar forsendubrest. Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.
Ekki veit ég hvað fyrir fyrrum formanni jafnaðarmannaflokks Íslands, gömlum alþingismanni og ráðherra gengur til að hella úr skálum reiði sinnar yfir fólk á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára, uppnefna það, alhæfa og fella sleggjudóma. Gamli jafnaðarmaðurinn kórónar síðan skömm sína með grein í Fréttablaðinu í dag, 13da nóvember árið 2012, og dregur þá ályktun, að af því til eru fleiri ofstækismenn en hann jafnvel sex þúsund hafi hann sagt satt og stefið í drápu hans er: Ekki lýg ég.
En nú er komið í ljós að Sighvatur sagði ekki satt hann laug, ef til vill ekki vísvitandi heldur af þekkingarleysi og ofstæki sem hæfir ekki manni á áttræðisaldri. Í nýjustu neyslu- og lífsstílskönnun Capacent kemur nefnilega fram að hópurinn 35-45 ára er ekki sjálfhverfasti hópurinn, eins og hann heldur fram. Fyrirtækið Auglýsingamiðlun hefur unnið úr könnun Capasent þar sem kemur í ljós að hópurinn 18-29 er mun sjálfhverfari, þ.e.a.s. eyðir meiru. Í könnuninni kemur einnig í ljós að sjálfhverfa en hér er átt eyðslusemi fer almennt minnkandi eftir því sem fólk eldist, þótt undantekningar séu á og til séu gamlir menn sem gleyma engu og læri ekkert, eins og sagt er um heimska fíla. Og þá er að ráðast á hópinn 18-29 ára - það er sjálfshverfa kynslóðin.
Hins vegar vil ég sem gamall barnakennari að norðan benda á, að orðið sjálfhverfur er nýyrði sem Sigurður Guðmundsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, bjó til um það sem á dönsku er nefnt egocentrisk og á ensku egocentric og merkir sjálfselskur, eigingjarn en einnig maður sem beinir athyglinni um of að eigin tilfinningum eða gerir sig að mælikvarða allra hluta. (Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi 1999:311)
Bloggar | Breytt 14.11.2012 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)