Jónas Hallgrímsson

Mörgum er það ráðgáta að einstaka menn, karlar eða konur, geta orðað hugsanir, tilfinningar og lífsreynslu sína betur en aðrir og geta í máli brugðið upp sterkum myndum af mannlífi, náttúru, hugsunum og tilfinningum. Vafalaust veldur margt þessum hæfileikum: næm tilfinning, innsæi, lífsreynsla, íhygli og gagnrýnin hugsun.

Í dag er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, eins og Grímur Thomsen nefndi hann í ljóði sem birtist í Nýjum félagsritum 1846, árið eftir að Jónas dó. Þessu litla ljóði lýkur þannig:

 

Náttúrunnar numdir mál,

numdir tungur fjalla,

svo að gastu stein og stál

í stuðla látið falla.

 

Íslands varstu óskabarn,

úr þess faðmi tekinn,

og út á lífsins eyðihjarn

örlagasvipum rekinn.

 

Langt frá þinni feðra fold,

fóstru þinna ljóða,

ertu nú lagður lágt í mold,

listaskáldið góða.

 

Þessi ummæli hlaut Jónas Hallgrímsson nýlátinn, 37 ára að aldri. Ekkert annað ljóðskáld hefur hlotið sömu hylli, enda þótt Íslendingar hafi síðan eignast mörg afburða ljóðskáld, enda tókst honum í fáum ljóðum að bregða upp sterkum og lýsandi myndum af mannlífi, náttúru, hugsunum og tilfinningum. Jónas Hallgrímsson er fyrsta nútímaskáld Íslendinga af þeim sökum að enn lesum við ljóð hans eins og samtímaskáldskap sem ekki er um önnur samtímaskáld hans. Þá ber það vitni um virðingu og hylli sem hann nýtur, að fæðingardagur hans var gerður að sérstökum málræktardegi Íslendinga, Degi íslenskrar tungu, þótt allir dagar á Íslandi eigi að vera málræktardagar.

En hvað gerði Jónas Hallgrímssonar að því skáldi sem hann er? Grímur Thomsen svarar þessu að nokkru í ljóðinu Jónas Hallgrímsson: hann nam mál náttúrunnar og mýkt ljóða hans var einstök; hann varð fyrir sorg og hvarf burtu af Íslandi og örlögin ráku hann út á eyðihjarn lífsins með svipum þungra örlaga.

Það sem gerði Jónas Hallgrímsson að því skáldi sem hann er, var skilningur hans og tilfinning fyrir íslenskri náttúru og kveðskaparhefð sem hann ólst upp við heima og í Bessastaðaskóla, söknuðurinn við föðurmissi og annarra ástvina, heimþrá, tilfinninganæmi, ástarsorg og þunglyndi - bringsmalaskottan, sem hann fann snemma fyrir - og að auki næmleiki hans sem víða má sjá dæmi um í ljóðum hans. 

Síðasta árið sem Jónas Hallgrímsson lifði, orti hann smáljóð, sonnettu, sem lýsir hug hans og tilfinningum:

Svo rís um aldir árið hvurt um sig,

eilífðar lítið blóm í skini hreinu.

Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,

því tíminn vill ei tengja sig við mig.

 

Eitt á eg samt, og annast vil eg þig,

hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu,

er himin sér, og unir lágri jörðu,

og þykir ekki þokan voðalig.

 

Ég man þeir segja: hart á móti hörðu,

en heldur vil eg kenna til og lifa,

og þótt að nokkurt andstreymi ég bíði,

 

en liggja eins og leggur upp í vörðu,

sem lestastrákar taka þar og skrifa

og fylla, svo hann finnur ei – af níði.

 

Orðin: heldur vil eg kenna til og lifa - eiga sér fáar hliðstæður í bókmenntum Íslendinga, látlaus en áhrifamikil. Til hamingju með daginn.


Yfirveguð stjórnmálaumræða

Yfirveguð umræða um stjórnmál - og önnur álitamál er fágæt á Íslandi.  Sumir skýra frumstæða og öfgakennda umræðu með víkingseðli Íslendinga, á sama hátt og forseti Íslands skýrði útrásina forðum daga. Aðrir skýra íslenska umræðuhefð með einangrun landsins, menntunarleysi landsmanna og fámenni þjóðarinnar.  Enn aðrir kenna því um, að lítil áhersla sé lögð á umræður og málefnaleg skoðanaskipti í skólum.

Vonir

Margir bundu vonir við, að þegar Þorsteinn Pálsson tók að skrifa fasta þætti um þjóðmál og stjórnmál í Fréttablaðið, yrðu skrif hans fræðandi og málefnaleg, bæði vegna menntunar hans og reynslu.  Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur að mennt, varð ritstjóri Vísis 1975, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1979, formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991, sat á Alþingi 16 ár, var forsætisráðherra 1987-1988, sat sem ráðherra í tveimur ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar - „einkum til að tryggja sátt og einingu meðal flokksmanna“, eins og skrifað stendur, og er „sá maður sem lengst hefur farið með sjávarútvegsmál á Íslandi“.  Að lokum var Þorsteinn Pálsson sendiherra í Lundúnum og Kaupmannahöfn 1999-2005 og ritstjóri Fréttablaðsins 2006-2009.

Vonbrigði

Skrif þessa reynslumikla manns hafa hins vegar valdið vonbrigðum - og undrun.  Þau eru óskipuleg og orðalag böngulegt. En ekki síst hefur það valdið undrun - og vonbrigðum, að hann hefur enn ekki getað hafið sig yfir dægurþras og átakastjórnmál, heldur skipar hann sér í flokk og dæmir andstæðinga sína óvægilega.

Þetta á við um pistil hans í Fréttablaðinu 2. nóvember s.l. sem fjallar um „þjóðernispópúlisma í Evrópu“.  Pistillinn virðist skrifaður til þess að sverta andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu og eru okkur valin uppnefni til þess að gera afstöðu okkur tortryggilega. Hann talar um þjóðernislegar tilfinningar og pópúlisma og segir, að sumir þessir flokkar hafi jafnvel á sér yfirbragð fasisma.  Þrennt einkenni þá flokka sem andvígir eru Evrópusambandinu: þjóðernishyggja og andstaða við Evrópusamvinnu, neikvæð afstaða til innflytjenda og „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“.

Ekki liggur í augum uppi, við hvað Þorsteinn Pálsson á með því, að flokkarnir hafi á sér „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“.  Sennilegt er, að hann eigi við, að þessir flokkar þykist berjast fyrir umbótum í velferðar- og félagsmálum.  Slík barátta ætti þó ekki að vekja undrun og tortryggni árið 2013, því að flestir stjórnmálaflokkar í norðanverðri Evrópu - að ekki sé talað um á Norðurlöndum - hafa barist fyrir jafnrétti á sviði velferðar- og félagssmála áratugum saman, m.a. Hægri flokkurinn í Noregi (Høyre partiet), Hægri flokkurinn í Svíþjóð (Moderata samlingspartiet) og Hægri flokkurinn í Danmörku (Det Konservative Folkeparti), sem eru systurflokkar Sjálfstæðisflokksins, flokks Þorsteins Pálssonar.

Undrun

Þá vekur það undrun okkar gamalla framsóknarmanna, að Þorsteinn Pálsson skuli kalla Fremskridspartiet, sem Glistrup stofnaði í TIVOLI 14. júní 1972, Framsóknarflokkinn í Danmörku - ekki Framfaraflokkurinn í Danmörku, eins og þeir gera sem gæta vilja hlutlægni og vilja láta taka sig alvarlega.  Sama gildir um Fremskrittspartiet í Noregi, sem Carl. I. Hagen stjórnaði í aldarfjórðung og flestir er kalla Framfaraflokkinn í Noregi til þess að jafna honum ekki við Framsóknarflokkinn á Íslandi sem hefur ávallt verið og er hógvær miðflokkur, eins og Senterpartiet í Noregi sem þrívegis hefur átt forsætisráðherra.  Fremskridspartiet í Danmörku og Fremskrittspartiet í Noregi voru hins vegar lengi hægri öfgaflokkar þar sem ríkti þjóðernisstefna, neikvæð afstaða til innflytjenda og andstaða við umbætur í velferðarmálum, þótt það hafi breyst.  En tilgangur Þorsteins Pálssonar er hins vegar ekki að „hafa það sem sannara reynist", heldur að kasta rýrð á skoðanir sem andstæðinga sinna.

Óboðleg skrif um álitamál

Þegar Þorsteinn Pálsson hefur undirbúið jarðveginn í þessum pistli sínum og líkt Framsóknarflokknum við hægri öfgaflokka, skrifar hann „að ekki hafi bólað að nokkru marki á pólitískri þróun af þessum toga hér á landi fyrr en ný forysta  tók við í Framsóknarflokknum fyrir rúmum fjórum árum.  ... Framsókn er fyrsti og eini flokkur sinnar tegundar á evrópska efanhagssvæðinu til að veita ríkisstjórn og landi forystu“.

Og Þorsteinn Pálsson, ritstjóri, ráðherra, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og sendiherra, klikkir út með því að segja: „Þó að þessi pólitík hafi verið lengi á leiðinni til Íslands hefur hún náð hærra flugi hér en annars staðar.“ Með öðrum orðum: Hægri öfgaflokkurinn - Framsóknarflokkurinn - hefur gengið lengra en slíkir öfgaflokkar annars staðar sem einkennast af þjóðernishyggja og andstöðu við Evrópusamvinnu, neikvæðri afstöðu til innflytjenda og hafa á sér „yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála“ og sumir jafnvel á sér yfirbragð fasisma.  Hvaða tilgangi þjóna skrif af þessu tagi og eru þau boðleg almenningi og sæmandi Þorsteini Pálssyni?

 


Nýr Landspítali STRAX

Fyrir liggur forhönnun að nýjum og glæsilegum Landspítala, háskólasjúkrahúsi, sjá: http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/.  Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið rísi í áföngum og leysi af hólmi stóran hluta starfsemi núverandi Landspítala sem á 17 stöðum í 100 byggingum á höfuðborgarsvæðinu.  Ekki þarf því að bíða - forhönnun fyrsta áfanga er lokið og unnt að hefjast handa strax og Alþingi hefur tekið um það ákvörðun.

Í kjölfar hrunsins 2008 var horfið frá smíði nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut.  Verkefninu var síðan hleypt af stokkunum á nýjan leik í nóvember 2009 með viljayfirlýsingu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra og lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins.

Árið 2010 voru samþykkt lög nr. 64/2010 um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.  Opinbert hlutafélag, Nýr Landspítali ohf  - NLSH, tók til starfa í samræmi við viljayfirlýsinguna og nefnd lög í júlí sama ár.  Félagið hefur að markmiði að bjóða út byggingu nýs Landspítala og er heimilt að gera samninga til að ná markmiðum sínum á sem hagkvæmastan hátt.  Þó er ekki heimilt að hefja framkvæmdir að loknu útboði fyrr en Alþingi hefur heimilað þær með lögum. Í vor ákvað Alþingi að falla frá ofangreindri leiguleið.  Var lögum frá 2010 því breytt þannig að verkefnið er nú hefðbundin ríkisframkvæmd.  Forgangsröðun Alþingis, er varðar fjárheimildir í fjárlögum, ræður því framkvæmdahraða og er því óvíst hvenær unnt er að hefjast handa.

 

Hagkvæm framkvæmd

Í grein sem Alma D. Möller, yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, skrifaði í sumar, segir að í skýrslu norsks ráðgjafafyrirtækis sé áætlað, að rekstrarlegur ávinningur verði um 2,6 milljarðar á ári.  Hagræðing til ársins 2050 sé að nettónúvirði 2,3 milljarðar sem þýðir að hagræðing af byggingunni gerir betur en að greiða upp byggingarkostnað.  Væri ekkert byggt, er niðurstaða samsvarandi núvirðisreiknings neikvæð um 25.3 milljarða.  Það er því mun hagstæðara að byggja nýtt en að hafast ekki að og er þá hagur sjúklinganna og starfsmanna ekki reiknaður til fjár.  Samkvæmt nýrri áætlun er kostnaður við byggingu fyrsta áfanga 48 milljarðar og kostnaður vegna tækjakaupa, endurnýjunar eldra húsnæðis og fjármögnunar um 36 milljarðar.  Gert er ráð fyrir að byggingartími fyrsta áfanga sé 5 ár.  Nettónúvirði reksturs Landspítala án nýbyggingar er hinsvegar verulega neikvætt.

Í greininni bendir Alma D. Möller á færa leið til að fjármagna byggingu nýs Landspítala: að íslenskir lífeyrissjóðir láni fé til framkvæmdanna.  Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna sé áætluð um 150 milljarðar á ári og fjárfestingatækifæri séu fábreytt.  Sjóðina skorti heimild til að fjárfesta í erlendum eignum og tryggir fjárfestingakostir séu fáir innanlands.  „Líklegt er að þátttaka í fjármögnun slíkrar framkvæmdar myndi tryggja ávöxtun sem væri í takt við þá áhættu sem þessari fjárfestingu er samfara.  Þar að auki er þetta samfélagsleg fjárfesting og til hagsbóta fyrir umbjóðendur þeirra, lífeyrisþega,“ segir í greini Ölmu D. Möller.  Og hún heldur  áfram:

„Fyrir liggur endurskoðun fjárreiðulaga.  Er rætt um að þeim verði breytt þannig að ríkisstofnanir í A-hluta færi fullt rekstrar- og eignabókhald.  Ef fasteignir LSH yrðu settar í sérstakt fasteignafélag, t.d. NLSH ohf., þá gæti Landspítalinn fengið bygginguna til afnota gegn leigugjaldi en byggingin yrði færð til eignar hjá fasteignafélaginu. Þá gæti t.d. NLSH ohf. tekjufært leigu frá Landspítalanum sem dygði til að greiða niður fjármagnskostnaðinn á skilgreindum notkunartíma eignanna.  Slíkar lagabreytingar myndu gera leiguleiðina mögulega.“

 

Nýr Landspítali STRAX 

Undir þessi orð má taka.  Nú hafa tíu þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu um byggingu nýs Landspítala þar sem segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu.  Nýr Landspítali ohf eða ríkissjóður fái heimild til að taka lán fyrir byggingarkostnaði, hvort heldur er beint hjá traustum lánveitendum eða óbeint með milligöngu ríkisins. 

Heilsugæsla frá vöggu til grafar er einn af hornsteinum samfélagsins.  Traustur Landspítali sem miðstöð lækninga og rannsókna er undirstaða heilsugæslu í landinu.  Alþingi þarf nú að sameinast um smíði nýs spítala og gera lífeyrissjóðum kleift að lána til framkvæmdanna.  Leiðin er greið og bygging nýs Landspítala við Hringbraut þolir enga bið.

 



Endurtekningar og ofnotkun

Endurtekningar eru algengar í ræðu og riti og eru þær gamalt stílbragð í ræðuflutningi á svipaðan hátt og þagnir, sem skipta afar miklu.  Endurtekningar og þagnir eru í samræmi við forna mælskufræði, retórík, þar sem markmiðið er að sannfæra áheyrendur.  Í mælskufræði gilda fimm grundvallaratrið.  Í fyrsta lagi þarf að gera sér grein fyrir um hvað ætlunin er að tala.  Í öðru lagi skipa efninu niður.  Í þriðja lagi færa efnið í búning, þ.e.a.s. velja rétt orð orð.  Í fjórða lagi var í hinni gömlu mælskufræði ætlast til þess að ræðan væri lögð á minnið, því að áhrifameira væri að geta horft í augu áheyrenda en stauta sig fram úr handritinu. Í fimmta lagi þarf að ákveða hvernig flytja á ræðuna, hvort tala á hægt eða hratt, virðulega eða spjalla með alþýðlegum hætti - svo og hvað öðrum brögðum á að beita, s.s. endurtekningum og þögnum.  Endurtekningar geta hins vegar orðið það sem kallað er klifun: þegar stagast er á orði og orðasamböndum.

Fyrir fjórum áratugum skaut upp orðinu purkunarlaust sem notað var í tíma og ótíma.  Elsta dæmi orðsins virðist vera frá árinu 1936 í grein í tímaritinu Blöndu sem Sögufélagið gaf út.  Greinarhöfundur er Guðbrandur Jónsson prófessor sem skrifar um morðið á Appoloniu Schwartzkopf, konu Fuhrmanns amtmanns á Bessastöðum.  Í greininni segir: „Hér er auðvitað ekki átt við það, að það geti nokkurn tíma verið skynsamlegt eða rétt að fremja slíkt fólskuverk, heldur hitt, hvort svo mikið væri í aðra hönd, að runnið gæti tvær grímur á purkunarlaust fólk.“  Orðið purkunarlaus merkir „samviskulaus“ eða „blygðunarlaus“.  Síðasta dæmi um notkun orðsins á prenti er í uppvaxtarsögu Sigurðar A. Magnússonar Möskvar morgundagsins, sem út kom 1981. Þar stendur:  „Kófdrukkið par lá útá miðju túni og athafnaði sig purkunarlaust.“

Orðið pólitískur er notað í ýmsum orðasamböndum s.s. „pólitískt hæli“, þ.e. skjól sem veitt er fólki sem orðið hefur að flýja ofsóknir í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana.  Þá bera margir sér í munn orðasambandið „pólitískt ákvörðunaratriði“.  Virðist þá átt við að ákvörðunin sé í höndum ráðandi stjórnmálaaflaafla eða stjórnmálamanna - pólitíkusa.

Orðið mannréttindi er einnig eitt af þessum orðum sem mikið er notað í þjóðmálaumræðu - klifað er á - og allt virðist orðin mannréttindi.  Það eru mannréttindi að eignast barn, hvernig sem allt er í pottinn búið, jafnvel að eignast barn einn og óstuddur, eða fara ferða sinna, hvernig sem komið er fyrir fólki.  Með orðinu mannréttindi hefur hins vegar verið átt við grundvallaratriði sem sérhver einstaklingur á að njóta óháð þjóðerni, kynþætti, kyni, trú og skoðunum, en þó einkum réttur til þess að njóta frelsi, öryggi og jafnræði.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa tamið sér að nota orðasambandið „til þess að því sé haldið til haga“.  Ekkert er athugavert við orðasambandið, en það telst klifun - ofnotkun - að nota orðasambandið í tíma og ótíma.  Þá byrja margir stjórnmálamenn ræðu sína á orðunum: „Það er alveg ljóst“, enda þótt málið sé bæði flókið, umdeild og óljóst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband