6.11.2014 | 12:01
Piparsveinn
Elstu heimildir um orðið piparsveinn eru úr skjölum frá árinu 1542. Á svipuðum tíma koma fyrir í nágrannamálum okkar orðin pebersvend í dönsku, peppersvenn í norsku og í sænsku orðin pepparsven, pepparkadett og pepparsäck. Öll eru orðin þýðingarlán þýska orðsins Pfeffersack, gamanyrði sem upphaflega var notað um ókvænta verslunarþjóna Hansaverslana í Þýskalandi. Í verslunum Hansakaupmanna í Evrópu var seldur ýmiss konar smávarningur og kryddvörur, þar á meðal pipar. Af verslunarþjónunum var því sérstök lykt - af kryddvöru og pipar. Var því farið að kalla þá piparsveina. Framan af gerðu Hansaverslanirnar kröfu um að verslunarþjónar þeirra væru ókvæntir. Af þeim sökum tengdist orðið piparsveinn snemma ókvæntum karlmönnum.
Danska ævintýraskáldið Hans Christian Andersen, sem sjálfur var piparsveinn, skrifaði árið 1858 áhrifamikið og sorglegt ævintýri sem hann nefndi Pebersvendens nathue þar sem hann skýrir uppruna orðsins á þennan hátt:
De rige Kjøbmænd i Bremen og Lübeck dreve Handelen i Kjøbenhavn; selv kom de ikke herop, de sendte deres Svende, og de boede i Træboderne i "Smaahusenes Gade" og holdt Udsalget af Øl og Kryderi. Det var nu saa deiligt det tydske Øl, og der var saa mange Slags, Bremer-, Prysing-, Emser-Øl - ja Braunschweiger-Mumme, og saa alle de Kryderier, saadanne som Safran, Anis, Ingefær og især Peber; ja det var nu det Betydeligste her og derfor fik de tydske Svende i Danmark Navnet: Pebersvende, og det var en Forpligtelse de maatte indgaae hjemme, at de her oppe ikke turde gifte sig; mange af dem bleve saa gamle; selv maatte de sørge for sig, pusle om sig, selv slukke deres Ild, om de havde nogen; nogle bleve saadanne eenlige, gamle Karle, med egne Tanker og egne Vaner; efter dem kalder man nu hver ugift Mandsperson, der er kommet i nogenlunde sat Alder, en "Pebersvend"; alt det maa man vide for at forstaae Historien.
Geta góðfúsir lesendur spreytt sig á því að lesa þennan texta ævintýraskáldsins á því góða máli dönsku.
Á Íslandi var orðið piparsveinn fyrst notað um ókvænta karlmenn sem voru í lausamennsku, sem kallað var, andstætt þeim sem voru í húsmennsku, heimilsfastir á bæ og höfðu fasta búsetu. Ekkert neikvætt eða niðrandi fólst upphaflega í orðinu piparsveinn og enn hefur orðið jákvæða merkingu og er notað um ungan, eftirsóttan - og ókvæntan karlmann, þótt orðið sé einnig á stundum notað um eldri menn.
Orðið piparmey, sem fengið er að láni úr dönsku, pebermø, er miklu yngra í málinu, sennilega frá síðara hluta 19du aldar. Orðið hefur verið notað í niðrandi merkingu um eldri, ógifta konu. Sama er að segja um piparjómfrú sem er álíka gamalt og einnig komið úr dönsku, peberjomfru. Orðin piparkerling og piparkarl koma svo fyrir í íslensku í byrjun 20ustu aldar, bæði notuð í niðrandi merkingu. Það er því ekkert að því að vera piparsveinn, verra að vera piparmey - að ekki sé talað um piparkerling. Má minnast þess sem sagt var um gleðimann og gleðikonu í síðasta þætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)