Sá sem hugsar skýrt, talar skýrt

Viðtal FRÉTTATÍMANS í dag við Þráin Bertelsson, alþingismann og rithöfund, ættu allir að lesa, a.m.k þeir sem hugsa um og hafa áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum. Þráinn Bertelsson er hnyttnari í tilsvörum og samlíkingum en flestir aðrir, og svo segir hann það sem hann meinar og meinar það sem hann segir. Það er mikill kostur.

Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein segir á einum stað, að þeir sem hugsi skýrt, tali skýrt. Þetta gerir Þráinn Bertelsson í viðtalinu í dag. Mættu fleiri, bæði alþingismenn, bloggarar og aðrir góðir menn, karlar og konur, taka upp: reyna að hugsa skýrt og tala skýrt. Þá liði bullöld Íslendinga undir lok og við tæki ný gullöld Íslendinga.


Íslands ógæfu verður allt að vopni

Frá Hvíta-Rússlandi berast ógnvekjandi fréttir. Í evrópsku "lýðræðislandi" með þúsund ára menningu og "lýðræðislega" kjörna stjórn er saklausu fólki misþyrmt. Í löndum lengra burtu leika stjórnvöld gamlan stríðsleik og skirrast ekki við að drepa fólk, varnarlausar konur, börn og gamalmenni.

Frá Danmörku berast fréttir um, að einn af fremstu stjórnmálamönnum Norðurlanda, Bertil Haarder, sem ég kynntist fyrir aldarfjórðungi sem gáfuðum heiðursmanni, hafi misst stjórn á sér í viðtali við fréttamenn í viðræðum um þjóðfélagslegt misrétti.

Þetta ástand vekur mér umhugsun og veldur mér áhyggjum. Þó hef ég meiri áhyggjur af því sem er mér nær - og ég þekki betur - ástandinu á Íslandi. Hér ríkir velsæld, þótt misrétti sé áberandi og sumir hafi jafnvel ekki í sig og á. En ofbeldi og yfirgangur varðar hér við lög og brotamenn eru leiddir fyrir dóm. 

Fyrir 100 árum sagði orðhvatur stjórnmálamaður, að Íslands ógæfu yrði allt að vopni. Þessi orð neyðist ég til að endurtaka: Íslands ógæfu verður allt að vopni. Eftir hrun og glæpi fjárglæframanna, sem bíða dóms, er hver höndin uppi á móti annarri. Jafnvel innan stjórnarflokkananna er barist á banaspjótum með stóryrðum og brigslmælgi og stjórnarandstaðan leggur lítið gott til.

Þjóðin lifir svo áfram í vellystingum og hlustar ekki á ráðleggingar um hófsemi og aðhald, enda allir löngu hættir að trúa stjórnmálamönnum. Seðlabankinn er ríki í ríkinu með hrokafulla afstöðu sína og að baki þrumir svartagallsraus og dómsdagsspá afdankaðra stjórnmálamanna.

Hvað getur orðið til bjargar yngstu þjóð Evrópu með elsta mál heimsins?


Íslensk umræðuhefð

Halldór Laxness segir, að því hafi verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og enn síður fyrir rökum trúar, en leysi vanda sinn með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.

Þessi orð voru skrifuð fyrir 30 árum, en eiga ekki síður við nú, því að umræðuhefð Íslendinga hefur lítið breyst. Því má ef til vill halda fram, að ýmiss vandi í íslenskum stjórnmálum, þjóðmálum, almennum samskiptum, fræðslu og upplýsingum eigi rætur að rekja til umræðuhefðar okkar Íslendinga.

Samræður í fjölmiðlum minna meira á kappræður en umræður. Hver talar upp í annan, gripið er fram í fyrir ræðumanni og er stjórnandi oft verstur allra. Áhersla er lögð á að gera lítið úr viðmælanda og litið á hann sem hættulegan andstæðing.

Yfirheyrslur íslenskra fréttamanna skjóta skökku við orðræður fréttamanna á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar sýna spyrlar viðmælendum virðingu, eru vel undir búnir og ná fram upplýsingum án persónulegra árása. Margir íslenskir fréttamenn virðast hins vegar hafa að markmiði að sanna að viðmælandinn hafi rangt fyrir sér, dragi eitthvað undan eða hafi brotið stórlega af sér.

Þetta kalla sumir forstöðumenn fjölmiðla að "sýna harðfylgni", "sauma að mönnum" og "veita viðmælanda hressilega viðtökur". Í föstum umræðuþáttum er sífellt sama fólkið kallað til. Konur eru í miklum minnihluta og fólk utan af landi sést aldrei í slíkum þáttum.

Það er því mikið verk að vinna fyrir skóla og samtök launþega og atvinnurekenda og ef til vill ætti Endurmenntum Háskóla Íslands að bjóða upp á kennslu í rökræðum, ræðumennsku og hlutlægum málflutningi.


Nöldur og þref Helga Seljans

Enn sinu sinni verð ég vitni að því að Helgi Selja fréttamaður RÚV er ófær um að rökræða við gesti sína. Í kvöld ræddi hann við Lilju Mósesdóttur í Kastljósi með geðillskulegum frammítökum, fór með staðlausa stafi, sneri út úr og gerði viðmælanda upp skoðanir.

Með þessu bregst RÚV skyldu sinni að veita víðtæka, áreiðanlega og hlutlæga fréttaþjónustu, vera vettvangur mismunandi skoðana á málum og gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn og túlkun, eins og segir í lögum um Ríkisútvarpið.

 


Vellíðan og lífsgæði

Margt gott er gert í þessu fámenna þjóðfélagi hér á hjara veraldar. Því miður er hins vegar margt sem betur má fara, þótt það séu smámunir hjá öllum skelfingunum úti í hinum stóra heimi. 

Meginverkefni næstu ára er að auka jafnrétti hér á landi - og annars staðar - m.a. að jafna lífskjör fólks og bæta á þann hátt lífsgæði allra, því það er illt að búa í samfélagi þar sem mikill munur er á lífskjörum og mörgum líður ekki vel fyrr öllum líður vel en engum illa.

Matargjafir til þeirra, sem ekki hafa í sig og á, er óþolandi í velsældarsamféagi. Þetta er ölmusa og það er illt að vera ölmusumaður. Bætt kjör þeirra sem minnst mega sín er brýnasta verkefni okkar og stjórnvalda að leysa. Burt með fátækt og ölmusur.

 


Mikilsvert stjórnlagaþing

Komið er í ljós, hverjir sitja stjórnlagaþing 2011. Að mínum dómi hefur valið tekist mjög vel. Óska ég þingfulltrúum og þjóðinni allri til hamingju með þetta val.

Þótt búast hefði mátt við betri kjörsókn, er meira um vert, að 83.500 kjósendur nýttu sér atkvæðisrétt sinn í þessum mikilsverðu kosningum. Betra er, að hinn skapandi minnihluti velur 25 fulltrúa á stjórnlagaþing en sundurleitt Alþingi hefði kosið 12 vildarvini sína til þess að fjalla um drög að nýjum grundvallarlögum fyrir lýðveldið Ísland.

Fulltrúarnir 25 búa yfir mikilli þekkingu og mikilli reynslu, þeir hafa brennandi áhuga á þessu mikilsverða máli, hafa fjölbreytileg tengsl út í samfélagið og eru ekki fulltrúar stjórnmálaflokka. Þetta er mikils virði og mun gagnast vel.

Þjóðin mun fylgjast með störfum stjórnlagaþings og meðferð Alþingis á tillögum þingsins. Umræðan, sem staðið hefur undanfarin ár um lýðræði og jafnrétti, mun halda áfram og lýðræðis- og réttlætisvitund þjóðarinnar á eftir að eflast af þeim sökum.

Mikilsvert er að skólar landsins taki fræðslu um lýðræði, jafnrétti - og mannvirðingu skipulega í námsskrár sínar, því að lýðræði er hugsun.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband