Hengja bakara fyrir smið

Sífellt er verið að hengja bakara fyrir smið til þess að fullnægja réttlæti, friðþægja, breiða yfir misgerðir – og til þess að blekkja. Málshöfðun fyrir Landsdómi yfir Geir H. Haarde er sögð til þess að fullnægja réttlæti. Í reynd er verið að breiða yfir misgerðir og blekkja.

Landsdómur er auk þess tímaskekkja. Það sýna upphafsákvæði laga um Landsdóm þar sem segir: „Landsdómur fer með og dæmir mál þau, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.” Með þessu er Alþingi að setja rétt yfir sjálfu sér auk þess sem Alþingi ber sjálft ábyrgð á ráðherrum.

Lítill meirihluti Alþingis samþykkti að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna hirðuleysis og vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins en felldi hins vegar með litlum atkvæðamun að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Sé Geir H. Haarde sekur eru fleiri sekir.

Í raun er íslenska þjóðin sek. Hrunið varð ekki hið ytra heldur hið innra og aðdragandinn á sér langa sögu og djúpar rætur. Til þess að bæta það sem aflaga hefur farið, þurfum við að horfast í augu við þetta og breyta afstöðu okkar – sjá ekki aðeins flísina í auga bróður okkar heldur bjálkann í okkar eigin auga. Fyrsta skrefið er að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde.

Greinin birtist í MBL 20 12 2011 


AIDS, bókasafn, sími og svahílí

Flest tungumál heimsins – nema íslenska – nota enska skammstöfunarorðið AIDS um alnæmi eða eyðni og grísku orðin autograf um 'eiginhandaráritun', telefon um 'síma' og bibliotek um 'bókasafn', þótt í ensku sé oftast notað latneska orðið library. Nýyrðasmíð Íslendinga hefur líka vakið undrun þeirra sem til þekkja. Fyrir aldarfjórðungi átti ég tal við sænskan málfræðing sem sagði, að meðan Svíar deildu um það, hvort rita ætti AIDS með stórum stöfum eða litlum, væru Íslendingar að velja um átta mismunandi nýyrð um það sem á ensku var kallað Acquired Immune Deficiency Syndrome, sem mætti kalla 'áunnið ónæmi'.

Orðið bókasafn er þýðingarlán, sem svo er kallað, þ.e. þýðing á gríska orðinu bibliotek sem myndað er úr biblos, 'bók', og théke, 'geymsla' eða 'safn'. Til gamans má geta þess, að orðið bókasafn kemur fyrst fyrir í ævisögu Hannesar biskups Finnssonar „upplesin vid Hans Jardarfør ad Skálholti þann 23ia Augúst 1796”, eins og stendur í útgáfunni frá Leirárgörðum 1797. Er hugsanlegt að hinn lærði biskup hafi sjálfur þýtt orðið úr grísku.

Orðið autograf er myndað af grísku orðunum αὐτός, autós, sem merkir 'sjálfur', og γράφ, graf, og skylt grísku sögninni γράφειν, gráphein, 'skrifa'. Þessa orðstofna þekkja lesendur í tökuorðum eins og átómat, 'sjálfsali', eða átómatískur, 'sjálfvirkur', graf, 'línurit', grafík, 'svartlist', og graffittí, 'veggjakrot'.

Orðið sími á sér hins vegar langa sögu. Tæknifyrirbærið vakti undrun þegar Skotanum Alexander Graham Bell tókst að flytja mannsrödd um koparvír um 1870. Þegar framleiðsla tækisins hófst fáum árum síðar, var á ensku farið að nota orðið telephone um þetta tækniundur. Orðið er myndað af grísku orðunum τῆλε, tēle, 'fjarlægur', og φωνή, phōnē, 'rödd' og mætti þýða það sem orðinu firðtal. Eins og lesendur þekkja hefur firðtal breyst í tímans rás. Í stað talþráða hefur orðið til raunverulegt firðtal, þráðlausir snjallsímar, farsímar eða gemsar, en orðið gemsi er hljóðlíkingarorð skammstöfunarinnar GSM, Global System for Mobile Communications.

Í fornu máli íslensku kemur fyrir hvorugkynsorðið síma í merkingunni 'þráður', eða jafnvel 'þráður úr gulli', og karlkynsorðið sími í samsetta orðinu varrsími, sem merkir 'kjölrák' eða 'kjalsog'. Í nýnorsku, sem er sérlega fallegt mál og náskylt íslensku, er til orðið sime, 'reipi' eða 'taug'. Þegar Íslendingum bárust síðan frásagnir um fyrirbærið telefon eða telephone undir lok nítjándu aldar, var fyrst notað orðið telefónn. Síðan komu fram tillögur eins og firðtal (1875), hljómþráður (1877), hljóðberi (1879), hljóðþráður (1888) og talþráður(1891). Í Ný danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili frá árinu 1896 er að finna orðið sími í samsetningunum talsími og ritsími og sögnin að talsíma. Árið eftir kemur orðið sími fyrir í tímaritinu Sunnanfara. Síðan hefur orðið verið nær einrátt í íslensku.

Og þá kemur rúsínan í pysluendanum. Í tungumáli því sem heitir svahílí eða kisvahílí er notað orðið simu um 'telefon'. Svahílí er bantúmál með öllu óskylt íslensku. Svahílí er talað af um 150 milljónum manna í Austur Afríku og er opinbert mál í Tansaníu, Kenía, Úganda, á Kómóróeyjum og í Kongó. En sagt er að orðið simu í svahílí sé komið af persneska orðinu sim, سیم, sem merkir 'þráður', jafnvel 'silfurþráður', og er orðið sim, سیم, notað í persnesku um síma og farsíma. Persneska er indóevrópskt mál – eins og íslenska – og hafa um 110 milljónir manna í Íran, Afganistan, Tatsekistan, Úsbekistan, Tyrklandi, Írak, Katar, Ísrael, Kúveit, Barein og Óman persnesku að móðurmáli. Rótin í íslenska orðinu sími og persneska orðinu sim, سیم, er hin sama, þ.e. *sêi-, og merkir 'binda', sbr. orðið seil, sem merkir 'band', og orðið sili, sem merkir 'lykkja á bandi'.

Á öldunum fyrir Kristsburð var Persía stórveldi, kallað Persaveldi, eins og áhugasamir lesendur þekkja. Persar lögðu undir sig lönd og álfur, m.a. Egyptaland, og bárust áhrif frá þeim víða. Er m.a. talið að persneska hafi haft áhrif á mörg tungumál, m.a. arabísku og önnur semitísk mál. Hugsanlegt er því að persneska orðið sim, سیم, hafi borist í tungumál sunnan Egyptalands, bæði svahílí og kisvahílí, fyrir tvö þúsund árum. Síðan hafa málvísir menn á þessum slóðum notað orðin sim og simu um telefon, enda var sími Bells í upphafi þráður, koparþráður. Hugsunin var hin sama og hjá málvísum Íslendingum í lok 19du aldar þegar þeir tóku upp orðið síma, 'gullþráður', um þetta tækniundur.

Undirritaður hefur ekki þekkingu til að rekja þessa sögu lengra. En ljóst er, að ekki aðeins vegir guðs og ástarinnar eru órannsakanlegir, heldur einnig vegir menningararáhrifa og tungumála heimsins. Til að reka smiðshöggið á furðuverk tungumálanna og undarlegan skyldleika þeirra má geta þessað 'saga Persa' heitir á persnesku IRAN SAGA. Vegir tungumálanna eru því sannarlega furðulegir, þótt e.t.v. séu þeir ekki með öllu órannsakanlegir.


Ljóðið - fullkomnasta form tungumálsins

Tungumálið er félagslegt tjáningartæki. Það felur í sér, að með tungumálinu tjáum við hugsanir okkar, tilfinningar og fyrirætlanir við breytilegar aðstæður, af því að þjóðfélagið breytist og við breytumst – tímarnir breytast og mennirnir með. Tungumálið er því stöðugt að breytast. Af þeim sökum er sagt, að tungumálið sé lifandi, félagslegt tjáningartæki.

Tungumálið á sér einnig mörg form eða málsnið. Eitt fullkomnasta form málsins er ljóðið, enda elsta tjáningarform mannsins og fullkomnast af því að það krefst ögunar í hugsun og máli og með því er unnt að tjá djúpar hugsanir, duldar tilfinningar og sterka upplifun. 

Hæka, haiku, er ævafornt japanskt ljóðform, örfá orð, þrungin tilfinningu. Limran, limerick, er ljóðform kennt við héraðið Limerick á Írlandi, fimm línur með endarími, sem fela í sér fjarstæðukennda gamansemi sem vekur til umhugsunar. Ferskeytlan er ljóðform, sem fylgt hefur Íslendingum frá upphafi. Andrés Björnsson eldri lýsir þessu þannig:

Ferskeytlan er Frónbúans

fyrsta barnaglingur

en verður seinna í höndum hans

hvöss sem byssustingur.

Ferskeytlan – og lausavísur undir öðrum bragarháttum – hafa agað íslenskt mál og hugsun í þúsund ár. Er vafamál að aðrar þjóðir eigi aðra eins auðlegð, annan eins menningararf og lífsspeki og felst í lausavísum og ljóðum Íslendinga. Til þess að aga mál sitt, tala og rita gott mál, er því holt að lesa það sem best hefur verið ort á íslenska tungu.

Íslenskt mál - og skýr hugsun er mikilsverðasta verkefni í skólum landsins. Þarf að brýna fyrir nemendum að lesa það sem best hefur verið skrifað á íslenska tungu. Af nógu er að taka. Hvert mannsbarn getur lesið Hávamál og Völuspá sér að gagni. Íslendingasögur eru óþrjótandi uppspretta svo og Sturlunga að ógleymdum sögum Halldórs Laxness og Jóns Kalmanns Stefánssonar, ljóðum Snorra Hjartarsonar og Gerðar Kristnýjar og annarra fremstu skálda okkar og rithöfunda sem reynir á þanþol hugsunarinnar og veitir þá nautn að reyna að skilja.

Sem dæmi um áhrifamikið ljóð í einfaldleika sínum má nefna ljóð Jóhanns Sigurjónssonar sem hann hefnir Jónas Hallgrímsson:

Dregnar eru litmjúkar  

dauðarósir             

á hrungjörn lauf             

í haustskógi.

Svo voru þínir dagar   

sjúkir en fagrir,                

þú óskabarn    

ógæfunnar.

Í þessu litla ljóði birtast litríkar náttúrumyndir, áhrifamikil persónulýsing, djúp hugsun og sterk tilfinning og ögun í máli, enda hefur verið sagt, að það sem ekki er unnt að tala um verði að segja í ljóði.

 


Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum

Í fyrradag var fullveldisdagur Íslendinga, en eins og lesendur vita, varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku 1. desember 1918. Sumir halda því að vísu fram, að Ísland hafi ekki fengið fullt sjálfstæði fyrr en með stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Hafa þeir e.t.v. eitthvað til síns máls, því að fullveldi felur í sér, að þjóðin – eða kjörnir fulltrúar hennar – fer með æðstu stjórn ríkisins, þ.e.a.s. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á ákveðnu landssvæði sem tengt er ákveðnum hópi fólks, þjóðinni.

Eftir áratuga umræðu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu vita hins vegar fáir, við hvað átt er með sjálfstæði þjóðar. Fyrir hálfri öld sagði Gylfi Þ. Gíslason, að til þess að tryggja fullveldi sitt yrðu Íslendingar að láta af sjálfstæði sínu. Fæstir skyldu þessi orð þá, og fáir gera það enn. En ljóst er, að sumir mætir menn álíta, að til þess að tryggja fjármál og afkomu þjóðarinnar, öryggi hennar og viðskipti í framtíðinni verði Íslendingar að gerast aðilar að Evrópusambandinu og láta af hendi þætti, sem áður töldust til fullveldis, s.s. hluta af löggjafarvaldi, hluta af dómsvaldi og ákveðin yfirráð yfir landi og jafnvel ráðstöfun á auðlindum.

En það var ekki ætlunin í þætti um íslenskt mál á fullveldisdaginn 2011 að tala um sjálfstæði og fullveldi né heldur um aðild að Evrópusambandinu, þótt full ástæða væri til, heldur að svara spurningunni: Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum? Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara – frekar en öðrum spurningum sem skipta máli.  Þjóðerni er háð ýmsu, s.s. uppeldi, stöðu, viðhorfum og fæðingarstað.

En til þess að flækja málið ekki frekar með málalengingum, tel ég einfalda svarið við spurningunni, að það sem gerir okkur að Íslendingum er tungumálið. Í þessu felst ekki þjóðernishroki, þ.e.a.s. lítilsvirðing fyrir öðrum þjóðum eða fólki af öðru bergi brotið – þvert á móti. Aðrar þjóðir eiga sitt tungumál, mikilfenglegt tjáningartæki, sem gerir það fólk að því sem það er. Tungumálið og hugsunin, sem þar býr að baki, er dýrmætasta eign sérhvers einstaklings og sérhverrar þjóðar ásamt landinu og sögu þjóðarinnar, en í sögu þjóðar varðveitist hugsun hennar og minning. Því ber okkur að hafa móðurmál okkar í heiðri, virða landið og sögu þjóðarinnar – ekki aðeins á fullveldisdaginn heldur alla daga. Með því höldum við virðingu okkar sem einstaklingar og þjóð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband