18.2.2010 | 22:35
Óheilindi utanríkisráðuneytisins
Fréttir af viðræðum fulltrúa utanríkisráðuneytis Össurar Skarphéðinssonar og fulltrúa stjórnar Bandaríkjanna á Íslandi í janúar vekja mér furðu. Undirlægjuháttur og lágkúra virðast hafa einkennt viðræðurnar og tillagan um að Norðmenn taki á sig Icesave-skuldir Landsbankans og semji síðan við Íslendinga um endurgreiðslu - eru eins og óvitar séu á ferð.
Ef ummæli íslenska sendiherrans um forseta Íslands eru rétt eftir höfð, ber að víkja sendiherranum tafarlaust úr starfi. Þegar ofan á bætist að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, hin sterki maður ríkisstjórnarinnar, hefur ekkert um þetta vitað, ber slíkt vitni um óheilindi af hálfu utanríkisráðherra.
Bloggar | Breytt 19.2.2010 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2010 | 10:55
Við eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna
Morgunblaðið birtir í dag grein eftir franskan hagfræðing og fyrrverandi þingmann á Evrópuþinginu, Alain Lipietz. Allir sem áhuga hafa á þjóðmálum ættu að lesa þessa grein gaumgæfilega.
Í greininni tekur Lipietz í raun undir orð Stefáns Más Stefánssonar prófessors, Lárusar Blöndals hæstaréttarlögmanns, Sigurðar Líndals prófessors, Ragnars Hall hæstaréttarlögmanns og fleiri góðra manna, að Íslendingar eigi ekki að borga skuldir óreiðumanna, svo notuð séu ummæli Davíðs Oddssonar, sem þá eins og oft endranær hitti naglann á höfuðið.
Lipietz telur að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi komið af stað höggbylgju í fjármálaheimi Evrópu þegar hann vísaði Icesave-lögunum í þjóðaratkvæði. Í fyrsta skipti í þessari fjármálakreppu heimsins væri verið að hafna því að almenningur tæki á sínar herðar skuldir einkafyrirtækis.
Í greininni rekur Lipietz á skýran og auðskiljanlegan hátt stöðu málsins og bendir á - eins og Eva Joly hefur einnig gert - að reglur Evrópusambandsins um fjármál og fjármálaviðskipti séu gallaðar, enda er ein ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar ganga svo hart fram gegn Íslendingum í þessu máli tilraun til að breiða yfir þessa galla og kenna öðrum um.
Lesið grein Lipietz.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)