Auðvaldsskipulagið er ótækt

Viðskipta- og fjármálakerfi heimsins er ótækt skipulag. Í skjóli pappírspeninga er takmörkuðum auðlindum sóað í stað þess að nýta þær til hagsbóta fyrir alla jarðarbúa. Lögmál markaðarins – sem svo eru kölluð – eru látin ráða í skjóli frjálsrar samkeppni. En lögmál markaðarins er ekkert annað en blind gróðahyggja og frjáls samkeppni ekki til – eða með öðrum orðum: Þetta skipulag er ótækt.

Í stað núverandi skipulags eiga samtök almennings og frjálsra einstaklinga, s.s. samvinnufyrirtæki og almenningshlutafélög, að annast atvinnu- og framleiðslu allra landa með takmörkuðum afskiptum framkvæmdavaldsins í skjóli laga í lýðræðislegu stjórnarfari þar sem raunverulegt vald er höndum í almennings – í beinum kosningum.

Það sem vegur þyngst í fátækt heimsins er krafa hins alþjóðlega auðvalds um arð af fjármagni. Þessum arði er ekki hægt að ná nema með arðráni og kúgun. Til þess að ná þessum arði hefur auðvaldið flutt framleiðslu sína til fátækra landa þar sem enn eru ekki gerðar athugasemdir við vinnuþrælkun og arðrán verkafólks, vegna þess að stjórnvöld í þessum löndum eiga fárra kosta völ og vegna þess að notaðar eru hótanir og mútur til þess að fylgja arðráninu eftir.

Til þess að halda dansi auðvaldsins gangandi er almenningi talin trú um, að hamingjan sé fólgin í því að kaupa – kaupa og eyða, enda eru ríki Vesturlanda orðin botnlaus neyslusamfélög. Enginn virðist geta stöðvað þennan dauðadans – en margir vilja leita leiða en sumir vilja stökkva af vagninum af því að sífellt fleiri átta sig á því að hamingjan eykst ekki með auknum kaupmætti.

Í samræmi við kenningu auðhyggjunnar berjast stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar ríku landanna fyrir auknum kaupmætti meðan fólk í fátækum löndum sveltur, jafnvel í löndum þar sem unnt er að brauðfæða alla, löndum sem búa yfir náttúruauðlindum s.s. ræktunarkostum, vatnsorku, olíu og dýrum málmum.

Brýnt er að koma á jöfnuði meðal einstaklinga og þjóða, breyta eignaskiptingu milli hins alþjóðlega auðvalds og almennings og gera fátækum þjóðum kleift að bjarga sér sjálfar.


Forseti - sameiningartákn eða stjórnmálamaður?

Í nýársræðu tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson að hann ætlaði að láta af starfi forseta Íslands, sagðist eftir að hafa íhugað vandlega ólík sjónarmið varðandi framboðið, að niðurstaðan kynni að hljóma sem þversögn "en er engu að síður sú, að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis, að ég geti fremur orðið að liði, ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum". Síðan segir orðrétt í ræðunni:

"Þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíla ei lengur á mínum herðum fæ ég meira frelsi til að sinna hugsjónum og málefnum, sem hafa lengi verið mér kær, get á annan veg tekið þátt í að efla framfarir og hagsæld, vísindi, rannsóknir og atvinnulíf. Þá munu opnast nýjar leiðir til að styðja baráttuna gegn loftslagsbreytingum og kynningu á hreinni orku, þróa samvinnu á Norðurslóðum og tengsl okkar við forysturíki í öðrum álfum, auka tækifæri unga fólksins og lýðræði í landinu.

Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs. ...

Ég færi ykkur, kæru landsmenn, einlægar þakkir fyrir traustið sem þið hafið lengi sýnt mér, Dorrit og Guðrúnu Katrínu; óska hverjum og einum, ykkur öllum farsældar í framtíðinni."

Ekkert fer hér milli mála. Engu að síður hefur hópur manna skorað á Ólaf Ragnar að sitja enn eitt kjörtímabilið. Fremstur fer Guðni Ágústsson, gamall flokksbróðir, til að tryggja hagsmuni Íslands í umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu auk þess sem hópurinn telur engan núlifandi Íslending geta gegnt embætti forseta Íslands annan en Ólaf Ragnar.

Hlutverk forseta Íslands er ekki að vera leiðtogi einhvers afmarkaðs hóps manna eða samtaka. Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn þjóðarinnar, koma fram fyrir hönd hennar allrar án flokkadrátta. Það gerðu forsetar landsins á undan Ólafi Ragnari. Hlutverk misviturra stjórnmálamanna er að berjast fyrir hagsmunum einstakra hópa og tryggja pólitísk völd.

Forseti Íslands á að vera hafinn yfir pólitíska flokkadrætti, hann á að vera vitur maður og menntaður, víðsýnn og umburðarlyndur – og hann á að leitast við af fremsta megni að vera forseti allra Íslendinga – ekki að stuðla að sundrungu þjóðarinnar. Ef skoðun Guðna Ágústssonar og félaga hans reynist rétt, að einungis einn Íslendingur geti gegnt embætti forseta, er best að ganga aftur Noregskonungi á hönd með Nýja sáttmála - og sjá hvað setur næstu 600 sumur.


J'accuse - ég ákæri

Hlutur gamals fólks í allsnægtarþjóðfélagi eftirhrunsáranna er ógnvekjandi. Það sýndi áhrifamikill þáttur KASTLJÓSS RÚV í kvöld. Gamalt fólk getur ekki skilið stöðu sína og réttindi – hvað að þeim snýr, skilur ekki lífeyrissjóðsgreiðslur eða breytingar á greiðslum tryggingarkerfisins. Næst því að bjarga skuldsettum heimilum ungs fólks er mest aðkallandi að tryggja réttindi gamla fólksins. Til þess þurfum við nýtt afl í stjórnmálum – samfylkingu umbótaafla í anda lýðræðis og jafnréttis.

Bóklestur, málrækt og mállýskur

Mikil áhersla hefur lengi verið lögð á málvöndun og málrækt á Íslandi. Að einhverju leyti má rekja það til Fjölnismanna og þá einkum til Jónasar Hallgrímssonar, en með málvöndun og ljóðum sínum braut hann blað í málvísi og ljóðagerð, enda nefndur fyrsta nútímaskáld Íslendinga.

Málvöndun ásamt hvatningu um lestur góðra bóka hefur borið árangur og er undirstaða að íslenskri málrækt, enda hefur sennilega aldrei verið talað og ritað betra mál af jafn mörgum á Íslandi og nú.

En þótt málvöndun og márækt sé öflug, nær málræktarstarf ekki til allra. Farið er að bera meira á misjöfnu máli fólks eftir menntun, stöðu og stétt. Er sennilegt, að þessi mismunur eigi eftir að vaxa og stéttamállýskur að aukast svo og munur á máli ungs fólks annars vegar og máli fullorðinna hins vegar – en mállýskur eftir landshlutum munu hverfa.

Ungt fólk notar enskar slettur og ensk tökuorð meira en áður. Þetta er ekki óeðlilegt vegna sterkrar stöðu enskrar tungu í heiminum, bæði sem alþjóðamáls – eða réttara sagt sem alþjóðamálið – svo og vegna þess að enska er mál afþreyingariðnaðarins og mál tísku- og sýndarheimsins sem er grundvöllur að lífi, tómstundum og ánægju margs ungs fólks.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband