Vin sínum skal maður vinur vera

Prófessor við Háskóla Íslands skrifaði á dögunum á heimasíðu sína:

Margt er þægilegt við ellina. Maður verður svo umburðarlyndur og um leið svo hissa á því sem verið er fárast yfir. Hægt er að komast hjá því að lesa endalausar greinar í dagblöðunum eftir sömu nöldurseggina ár eftir ár. Verðtrygging og vextir hætta að koma manni við og það skiptir engu hvað við borgum í heilbrigðisþjónustuna, maður er hvort eð er löngu dauður áður en biðlistum linnir. Svo hættir maður að hugsa um dauðann og dómsdag, sér aftur hvað Marx sagði margt af viti og hvað kirkjan og ríkisútvarpið eru merkilegar menningarstofnanir. Það skiptir mann engu hvernig íslensk tunga er að breytast og öll málfræði er eins og kúgunartæki. Maður verður svolítið rogginn af því að vera hafinn yfir dægurþrasið, en þar má maður vara sig! Og loks veit maður hvað mestu skiptir í lífinu og hvað manni hefur verið best gefið.

Lesandi gerði athugasemdir við orð prófessorsins, hann hefði góð tök á íslensku en:

Hins vegar kemur orðið maður níu sinnum fyrir í pistli hans. Kennari minn í barnaskóla hamraði á því að notkun orðsins maður væri danska og bæri að varast orðið. Var okkur nemendum hans ráðlagt að nota fremur fyrstupersónufornöfn en óákveðna fornafnið maður og segja annaðhvort ég eða við í frásögn eins og fræasögn prófessorsins. Að sjálfsögðu breytist tungumálið enda er íslenskan lifandi tungumál, en hreintungumenn vilja sem minstar breytingar. 

Lengi héldu hreintungumenn því fram að áhrif frá dönsku fælust í því að nota óákveðna fornafnið maður á þann hátt sem prófessorinn gerir. Til fróðleiks má hins vegar geta þess, að danska fornafnið man er upphaflega sama orðið og norræna orðið maður og í Den Danske Ordbog segir, að orðið man „bruges for at henvise til en ubestemt person som repræsentant for en gruppe eller for folk i almindelighed” ellegar „at ordet bruges for at henvise til den talende selv, ofte for at gøre udsagnet mere generelt eller for at underspille sin egen rolle”. Fornafnið vísar því til persónu sem er fulltrúi ákveðins hóp fólks eða fornafnið vísar til fólks yfirleitt. Ummælin vísa þannig til margra og draga úr mikilvægi þess sem talar - eða skrifar, enda hefðu ummæli prófessorsins haft annan hljóm og aðra skírskotun ef fyrstupersónufornafnið ég/við hefði verið notað. Prófessorinn er á sinn hátt að tala fyrir munn margra.

Þess ber svo að geta, að víða í sjálfum Hávamálum, heilræðakvæði sem ort er fyrir meira en ellefu hundruð árum og hefur aðeins varðveist á íslensku, er víða notað orðið maður sem óákveðið fornafn á sama hátt og í dönsku, sbr. m.a. vísuna:

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyli engi maður

vinar vinur vera.


Sýning nemenda Verslunarskólans á Moulin Rouse

Nemendur Verslunarskóla Íslands sýna nú söngleikinn Moulin Rouge í Austurbæ undir stjórn Bjarkar Jakobsdóttur. Aðstoðarleikstjóri er Birkir Ingimundarson, úr hópi nemenda skólans. Sýningin er í einu orði sagt frábær, raunar vandaðasta sýning framhaldsskólanemenda sem ég hef séð á langri ævi.

Söngleikurinn fjallar um hina einu sönnu ást, blekkingar, svik, peninga og völd. Ungur breskur rithöfundur kemur til Parísar árið 1899 og kemst í kynni við bóhema Montmartre og verður ástfanginn af gleðikonunni Satine, sem er helsta stjarna skemmtistaðarins Moulin Rouge, sem auk þess að vera dýr skemmtistaður er dýrt gleðihús með öllu sem fylgir, ofbeldi og yfirgangi gagnvart konum og keppni um peninga og völd - sem allt er alger andstaða hinnar sönnu ástar og sannrar vináttu. 

Söngleikurinn hefur verið settur á svið víða um heim, auk þess sem gerðar hafa verið kvikmyndir eftir sögunni, nú síðast árið 2001 mynd með Nicole Kidman og Ewan McGregor í aðalhlutverkunum, þótt kvikmyndin frá 1952 undir stjórn John Hustons með Zasa Zasa Gabor og José Ferrer í aðalhlutverkum sé mér minnisstæðari.

Í sýningu Verslunarskólans leika Snædís Arnarsdóttir gleðikonuna og Teitur Gissurarson rithöfundinn. Að auki eru um 30 nemendur í sviðlistahópnum svo og sex manna hljómsveit auk 30 nemenda í undirnefndum sýningarinnar af ýmsu tagi. Leikarar gera hlutverkum sínum frábær skil og sviðslistarhópurinn dansar cancan á við hvaða hóp listamanna sem er og sýnir kunnáttu og fimi í breiki og stökkdansi af mikilli íþrótt. 

Oft er talað um það sem afvega fer í samtíð okkar - og ekki að ástæðulausu. Hins vegar er minna talað um það sem vel er gert. Ungt fólk liggur einnig oft undir ámæli - eins og oft áður, enda trú margra að heimurinn hafi frá sköpun sífellt farið versnandi. Hins vegar er það sannast mála að við Íslendingar höfum aldrei átt betur menntað ungt fólk en nú, fólk sem hefur vilja og kjark til þess að fara aðrar og nýjar leiðir en þær sem gamla kynslóð okkar hefur farið. Sýning Verslunarskóla Íslands á söngleiknum Moulin Rouge er eitt dæmi um menntun, hæfileika og kjark ungs fólks á Íslandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband