25.3.2012 | 15:09
Þóru Arnórsdóttur fyrir forseta
Flestir eru sammála um að meginhlutverk forseta Íslands sé koma fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar án undirmála og flokkadrátta og að vera sameiningartákn. Hlutverk forseta Íslands er ekki að vera leiðtogi afmarkaðs hóps eða sérstakra samtaka eða viðhorfa. Slíkt er hlutskipti stjórnmálamanna að takast á um hagsmuni og völd í samfélaginu.
Forseti Íslands á að vera hafinn yfir pólitíska flokkadrætti, hann á að leitast við af fremsta megni að vera forseti allra Íslendinga vinna að samhug fólks og samheldni og berjast gegn sundrungu, fjölmenntaður, vitur og hógvær, víðsýnn og umburðarlyndur.
Þóra Arnórsdóttir hefur allt til brunns að bera til þess að gegna starfi forseta: hún er vel menntuð, vel máli farin, laus við pólitíska flokkadrætti, hún er ung og ekki síst er hún móðir.
Konur hafa ávallt gegnt mikilsverðu hlutverki í íslensku þjóðfélagi, þær hafa um aldir annast uppeldi, uppfræðslu og menntun á heimilunum, þær sáu um velferð hjúa sinna og þær réðu öllu innan stokks, eins og sagt var um mikilhæfar konur á fyrri tíð. Nú hafa konur haslað sér völl utan heimilis í samræmi við aukna menntun sína og nýjan tíðaranda, en þær gegna áfram hinu mikilsverða hlutverki móður og húsfreyju.
Það boðar nýja tíma að fá á Bessastaði konu sem er ung móðir, víðsýn og vel menntuð. Með því yrðu ný gildi ráðandi, mjúk gildi: mannúð, umburðarlyndi, tillitsemi, sátt og eindrægni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.3.2012 | 21:52
Skítlegt eðli og æðruleysisbænin
Gamall bekkjarbróðir lenti í slysi fyrir nokkrum árum raunar eins og íslenska þjóðin. Hann lamaðist fyrir neðan háls og er bundinn hjólastól. Það sem bjargaði honum við þetta áfall að eigin sögn, var æðruleysibænin: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.
Stundum finnst mér eins og eina hjálp okkar í þessu kalda landi sé æðruleysisbæn. Íslenskir stjórnmálamenn eru lamaðir fyrir ofan háls og geta því ekki hugsað heila hugsun og lamaðir fyrir neðan háls og geta því ekki farið um landið og áttað sig á aðstæðum og litið á samfélagið sem eina heild.
Sagt er að mannskepnan sjái það sem hún vill sjá, heyri það sem hún vill heyra og skilji það sem hún vill skilja. Þetta er endurómur af orðum mannsins frá Nasaret þegar lærisveinar hans spurðu, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum og hann sagði: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Sumir sjá svo aðeins hið skítlega í eðli.
En sem betur fer sjá ýmsir hið góða, og þótt alþingismenn séu margir ekki þingtækir og flestir stjórnmálamenn duglausir, er margt gott að gerast í þessu fámenna þjóðfélagi á hjara veraldar. Gott starf er unnið í skólum landsins, allt frá leikskólum til háskóla og listamenn sýna hæfileika á fjölmörgum sviðum: leikarar, dansarar, söngvarar, hljómlistarmenn, málarar, myndlistamenn, rithöfundar, skáld - og hönnuðir.
Ef til vill væri hins vegar rétt að auka við æðruleysisbænina og hafa hana þannig: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli og sýn að koma auga á það sem gott er gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2012 | 00:14
Nýr forseti nýs Íslands
Fólk veltir fyrir sér öðrum og betri valkosti á Bessastaði eins og eðlilegt er. Að mínum dómi á forseti Íslands fyrst og síðast að vera sameiningartákn þjóðarinnar og koma fram fyrir hönd hennar allrar án undirmála, hafinn yfir flokkadrætti og væringar.


Forseti Íslands á að stuðla að sátt og samlyndi meðal allra Íslendinga af hreinskilni og hógværð, vitur maður og íhugull og sannmenntaður. Nýr forseti Íslands á að búa yfir þekkingu á sögu og menningu Íslendinga og annarra þjóða, víðsýnn og umburðarlyndur.


Nýr forseti nýs Íslands má ekki að tengjast pólitískum flokkadráttum fyrri tíðar og svikum og ránum fjárglæframanna. Hann á að líta inn á við en ekki að telja þjóðinni trú um að upphefð hennar komi að utan né heldur að hún geti frelsað heiminn undir leiðsögn hans. 


Þennan nýja forseta nýrrar hugsunar nýs Íslands karl eða konu skulum við finna í sameiningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)