Traust

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að benda á allt það sem aflaga fer, enda verða margir til þess. Hitt gleymist að benda á það sem er vel gert á þessu „voðalega” landi - Íslandi.

En hvort heldur við klifum á því sem aflaga fer eða reynum að benda á það sem vel er gert, eigum við að reyna að skapa traust: meðal vina, á vinnustað, innan fjölskyldunnar - og í flokknum okkar, hver sem hann annars kann að vera.


Staða íslenskrar tungu

Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Þessi staðhæfing er reist á þeirri staðreynt, að undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður.

Bókmenntir af ýmsu tagi, skáldsagnagerð, ljóðagerð og leikritun, kvikmyndagerð auk marksvíslegra útvarps- og sjónvarpsþátta að ekki sé talað um ritun fræðirita af ýmsu tagi svo og önnur „orðsins list”, hefur aldrei verið öflugri. 

Fleiri njóta nú kennslu í íslensku máli og málnotkun á ýmsum stigum en nokkru sinni áður og nýyrðasmíð er öflug. Auglýsingagerð þar sem orðvísi og nýgervingar hafa auðgað tunguna og síðustu áratugi hefur orðið til ný íslensk fyndni og orðaleikir, sem áður voru óþekktir í málinu. 

Þótt dagblöð - málgögn stjórnmálaflokka - séu færri en áður, eru gefin út vikublöð, tímarit og sérfræðirit af ýmsu tagi - að ekki sé talað um blessað Netið þar sem þúsundir láta skoðanir sínar í ljós, að vísu mjög sundurleitar skoðanir og á misjöfnu máli, en að mestu á íslensku.

Íslensk tunga hefur því verið sveigð að nýjum þáttum í menningu og listum og nýjum viðfangsefnum sem voru óþekkt fyrir einum mannsaldri.

Flest virðist því benda til þess að íslensk tunga, þetta forna beygingarmál, gegni enn hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Fólk upp og ofan hefur verið einhuga um að standa vörð um íslenskt mál og almenningur og stjórnvöld hafa verið samtaka um að efla íslenska tungu sem undirstöðu þjóðlegs sjálfstæðis

En íslensk þjóð og íslensk menning standa á tímamótum. Breyttir þjóðfélagshættir, alþjóðahyggja og nýjar hugmyndir um sjálfstæði, fullveldi og þegnrétt svo og bylting í samskiptatækni hafa skapað nýja heimsmynd þar sem ný tjáningarform og ný tjáningartækni hafa komið fram á sjónarsviðið og hafa áhrif mál og málnotkun, ekki síst fámenn tungumál.

Einhæf áhrif frá engilsaxneskum menningarsvæðum, einkum Bandaríkjunum, hafa auk þess sett mark sitt á lífsviðhorf fólks, hugmyndir og málfar. Þá er komin fram enn eitt nýtt tækniundur sem krefst þess að skipanir séu munnlegar og gæti breytt stöðu íslenskrar tungu.

Þegar fólk vill í framtíðinni kveikja á sjónvarpinu sínu eða setja bílinn sinn í gang ellegar senda smáskilaboð í símanum eða smátölvunni talar það við þessi tæki og tól - og eina málið, sem tækin og tólin skilja, er enska. Málrækt fámennrar tungu á hjara veraldar verður erfiðari og meiri og þá vaknar spurningin: Hver verður staða íslenskrar tungu þegar ný máltækni er orðin alls ráðandi? Vandi er um slíkt að spá - en sennilega verður erfitt að uppfylla fyrstu tvær greinar núgildandi laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls:

  • íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi og sameiginlegt mál landsmanna
  • stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband