29.4.2010 | 16:51
Lýðræði er hugsun
Þegar talað er um nýtt Ísland og nýtt lýðveldi á Íslandi er verið að óska eftir réttlátara þjóðfélagi þar sem heiðarleiki kemur í stað spillingar og lýðræði í stað flokksræðis. Með lýðræði er átt við lögbundinn rétt hvers einstaklings til þess að hafa áhrif á stjórn landsins og að allir séu jafnir fyrir lögunum.
Lög lands eiga að tryggja lýðræði á grundvelli þriggja meginstoða siðaðs samfélags: frelsis, jafnréttis og bræðralags, en með bræðralagi er átt við virðingu fyrir öllum einstaklingum, mannvirðingu án tillits til landamæra, litarháttar, skoðana eða trúarbragða.
Form lýðræðis er mikilsvert. Skilningur á lýðræði er ekki síður mikilsverður. Atkvæðagreiðsla á fjögurra ára fresti tryggir ekki lýðræði. Það gerir aðeins skilningur á lýðræði og lýðræðisleg hugsun.Til þess að treysta lýðræði þarf að taka upp kennslu í lýðræðislegri hugsun og lýðræðislegum starfsháttum í skólum landsins. Vísir að slíkri kennslu er þegar í sumum leikskólum og grunnskólum og nokkrum framhaldsskólum. En betur má ef duga skal. Ein helsta von til þess að endurreisa traust og virðingu í samfélaginu og tryggja framtíð þjóðarinnar er góð menntun góðir skólar.
Þjóðin þarf á að halda traustum stjórnmálaflokkum - stjórnmálamönnum sem unnt er að treysta. Til þess að þjóðin geti borið traust til stjórnmálamanna, stjórnmálaflokka og fulltrúa á Alþingi þurfa stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar og alþingismenn, karlar og konur, að vera sér þess meðvituð, að Alþingi þiggur vald frá þjóðinni: að uppruni valdsins er hjá þjóðinni.
Til þess að tryggja lýðræði á Íslandi eftir áföll síðustu missera þarf að halda sérstakt stjórnlagaþing sem kjörið er persónukjöri með landið allt sem eitt kjördæmi. Stjórnlagaþingið semur frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem hæfi kröfum tímans og tryggi frelsi allra, jafnrétti á öllum sviðum og skýlausa þrískiptingu valds. Frumvarp stjórnlagaþingsins að nýrri stjórnarskrá nýjum grundvallarlögum yrði síðan lögð fyrir í þjóðaratkvæði.
Fyrsta grein í stjórnarskrá nýs lýðveldis á að fjalla um mannvirðingu og mannréttindi og önnur greinin um að endanlegt vald sé hjá þjóðinni. Síðan komi þau atriði er varða form lýðræðis í nýju lýðveldi á Íslandi.
Bloggar | Breytt 3.6.2010 kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2010 | 11:14
Endurreisn Íslands
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er góð. Umræður á Alþingi lofa ekki góðu. Sumir þingmenn hafa lítið að segja, benda hver á annan, kenna öðrum um, ræða ávirðingar annarra, drepa málinu á dreif - og virðast lítið hafa lært.
Fyrir Alþingi liggja 600 - sex hundruð - mál sem seint verða afgreidd. Meðal þessara mála er frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Kjósa átti til þingsins í vor samhliða kosningum til sveitarstjórna. Það verður ekki.
Stjórnlagaþingið átti að fjalla um undirstöður stjórnskipunar og hugtök og valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hlutverk forseta, sjálfstæði dómstóla, kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræðislegri stjórn landsins.
Í ljósi þess sem gerst hefur og í ljósi sundurlyndis alþingismanna og getuleysis er rétt að kjósa stjórnlagaþing óháð Alþingi og kjósa fulltrúa persónulegri kosningu með landið sem eitt kjördæmi. Slíkt stjórnlagaþing almennings er fyrsta skrefið í endurreisn Íslands og lýðræðislegu skipulagi.
Bloggar | Breytt 16.4.2010 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.4.2010 | 22:07
Dugleysi íslenskra fjölmiðla
Enn einu sinni verðum við vitni að dugleysi íslenskra fjölmiðla. Í morgun lagði rannsóknarnefnd Alþingis fram skýrslu sína um bankahrunið 2008. Á hlutlægan hátt er þar gerð ýtarleg grein fyrir aðdraganda og orsökum.
Á blaðamannafundi í Iðnó gerðu fulltrúar í nefndinni grein fyrir meginþáttum skýrslunnar á skýran og skilmerkilegan hátt. Blaðamenn báru fram spurningar, nokkrir til þess að gera starf nefndarinnar tortryggilegt, drepa málinu á dreif og fela sekt velunnara sinna, aðrir spurðu út í loftið og nokkrir til þess að reyna að sakfella menn. Fremst í flokki fór Agnes Bragadóttir. Málefnalegar spurningar komu frá ýmsum, s.s. Þórdísi Arnljótsdóttur og Jóhönnu Hjaltadóttur, en RÚV hefur nú sem áður staðið sig best íslenskra fjölmiðla í fréttamiðlun og fréttaskýringu.
Hins vegar hefur "gömlu gufunni" - að ég tali ekki um "gulu pressunni", "hagsmunablöðum íhaldsins" og "áróðursfréttamiðum sýndarmennskunnar" gleymst, að glæpurinn, sem framinn var, gerðist í nýju bankakerfi á Íslandi eftir einkavæðingu Davíðs og Halldórs. Í bankakerfinu er að leita hinna seku.
Sé morð framið í Bankastræti og lögreglan er við Laugaveg 78, er morðið ekki sök lögreglunni. Hins vegar þarf að rannsaka morðið, finna hinn seka og draga fyrir dóm.
Að sjálfsögðu má ýmislegt betur fara í löggjöf og stjórnsýslu þessa kalda lands og það vantar nýja stjórnarskrá sem alþýða landsins setur til þess að vekja gömul gildi: heiðarleika og sannsögli og tryggja mannréttindi.
Bloggar | Breytt 13.4.2010 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 11:59
Íslensk umræðuhefð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.4.2010 | 15:00
Íslensk menning - og "fjármálasnilld"
Styrmir Gunnarsson skrifaði um helgina grein í Sunnudags Moggann og fjallar um íslenska menningu og fjármál á Íslandi. Niðurstaða hans er sú, að þótt fjármálasnillin hafi reynst byggð á sandi, sé menningin byggð á traustri þúsund ára arfleifð.
Menningarlíf þjóðarinnar sé frjótt og menningarleg staða sterk. Fjölmennur hópur frábærra tónlistarmanna hafi sprottið upp úr starfi erlendra tónlistarmanna og sú kynslóð leikara, sem nú standi á sviði, hafi fengið afburða menntun. Ef til vill sé gróskan þó mest í myndlist, og þótt við höfum ekki eignast nýtt Nóbelskáld, eigum við fjölmennan hóp rithöfunda sem náð hafi til lesenda í öðrum löndum og fræðimenn okkar standi engum að baki í rannsóknum á sögu og menningu þjóða í heimshluta okkar. Síðan segir Styrmir:
"Nú eigum við að nýta menninguna til að endureisa sjálfstraust okkar, byggja sjálfsmynd okkar upp á nýtt og endurheimta virðingu annarra þjóða. Við eigum að hefja markvissan og skipulegan útflutning á menningu okkar með ýmsum hætti og í ýmsum myndum. Það kostar einhverja peninga og þótt við höfum ekki ráð á miklu höfum við ráð á einhverju. Og þeir eiga að koma úr almannasjóðum."
Gamli ritstjóri Morgunblaðsins skrifar orðið eins og gamall skólameistari að norðan, sbr. grein mína hér að neðan frá 28. f.m., þar sem lögð er áhersla á menningu þjóðar sem sameningartákn, en menning byggist á landi, tungu og sögu þjóðar - en hluti af sögu þjóðar er menning hennar.
Það eina sem ég vil gera athugasemd við í skrifum hins merka ritstjóra Morgunblaðsins - meðan Morgunblaðið var og hét - er hugmyndin um skipulegan útflutning menningarinnar. Hugmyndin ber keim af fjármálasnilli útrásarvíkinga, en sú "snilli" var heimska, græðgi og þekkingarleysi í þessari röð.
Aftur á móti er sjálfsagt að stuðla að kynningu íslenskrar menningar erlendis á markvissan og skipulegan hátt og leggja til fé úr sameiginlegum sjóðum, eins og við sósíalistar höfum lengi viljað.
En svo þurfum við að berjast fyrir því að efla frelsi, jafnrétti og bræðralag - og ekki síst endurreisa virðingu stjórnmálamanna, sem eru allt að því eins nauðsynlegir einni þjóð og listamenn. Við getum endurreist virðingu ágætra stjórnmálamanna með því að efna til stjórnlagaþings, sem þjóðin kýs í almennum, persónubundnum kosningum með landið allt sem eitt kjördæmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)