18.4.2016 | 10:27
Kennsla í lýðræðislegri hugsun
Hlutverk grunnskóla
Samkvæmt lögum er hlutverk grunnskóla - í samvinnu við heimilin - að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi og haga störfum sínum í samræmi við þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Þá skal grunnskólinn stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning á íslensku samfélagi, sögu og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra, eins og segir í gildandi lögum um grunnskóla.
Hlutverk framhaldsskóla
Hlutverk framhaldsskóla er lögum samkvæmt að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi, bjóða nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til þekkingarleitar. Markið er því sett hátt í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.
Framkvæmd laganna ábótavant
Lítið er hins vegar gert í grunnskólum og framhaldsskólum landsins til þess að sinna þessum lagalegu skyldum og Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekkert gert til þess að stuðla að þessu mikilsverða hlutverki skólanna. Kennarar fá enga menntun eða þjálfun í því að stuðla að þátttöku nemenda í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun og hvorki er þessi lagaskylda skipulega fléttuð inn í nám nemenda í hinum ýmsu greinum né heldur er fyrir hendi kennaranám eða kennsla í lýðræðislegri hugsun og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi í stöðugri þróun.
Námsskrá í lýðræði
Brýna nauðsyn ber til að Mennta- og menningarmálaráðuneytið láti þegar í stað semja námsskrá í lýðræði og lýðræðislegri hugsun og sinni þannig ótvíræðri lagaskyldu sinni og skólanna. Til þess að gera kennurum kleift kenna lýðræðislega hugsun og lýðræðisleg viðhorf í skólum og gera nemendum fært að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun, þarf að gefa kennurum kost á að mennta sig sérstaklega á þessu sviði. Vel menntað fólk í háskólum landsins er fullfært um að taka að sér þessa kennslu fyrir kennara þar sem rakin væri rakin saga, inntak og markmið lýðræðis á Vesturlöndum og bent á réttindi - og skyldur almennings og stjórnvalda í lýðræðisríki. Í kennslunni mætti m.a. hafa til hliðsjónar niðurstöður Þjófundarins 2009 og rannsóknarskýrslu Alþingis í níu bindum sem skilað var 2010 auk þess sem mikið hefur verið um lýðræði skrifað undanfarna áratugi hér á landi og erlendis. Málið þolir enga bið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2016 | 21:34
Námsskrá í lýðræði - og íslensk umræðuhefð
Margir telja hluta vandans sem við Íslendingar eigum við að stríða, megi rekja til umræðuhefðar sem þróast hefur á Íslandi, umræðuhefð sem einkennist af kappræðu í stað samræðu. Í þessari umræðuhefð er lögð áhersla á að sanna að viðmælandinn - «andstæðingurinn» hafi rangt fyrir sér og algengt að gera lítið úr honum, gera honum upp skoðanir og nota háð, útúrsnúninga og sleggjudóma.
Fréttaskýringar
Einstaka fréttamenn og þáttastjórnendur í útvarpi og sjónvarpi nota svipaðar aðferðir, sýna takmarkaða tillitssemi en vilja láta ljós sitt skína, grípa fram í fyrir viðmælendum og reyna sauma að þeim í stað þess gefa þeim kost á að skýra mál sitt í friði, eins og gert er í umræðuþáttum í sjónvarpi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sumir þessara fréttamanna leitast við að fá viðmælandann til þess að viðurkenna að hann hafi rangt fyrir sér - sé sekur. Stundum eru þessar viðræður fremur áróður en upplýsingaöflun eða fréttaskýring og gjarna nefnd aukaatriði málsins en aðalatriðum gleymt. Oft er sama fólkið fengið að segja álit, þótt þá sé hugsanlega vegna mannfæðar sem gerir okkur Íslendingum erfitt að vera alvöru þjóð - þjóð sem getur staðið undir sjálfstæðu þjóðríki.
Námsskrá í lýðræði
Það eru gömul sannindi - og ný, að við sjáum aðeins það sem við viljum sjá, og skiljum aðeins það sem við viljum skilja - eða eins og sagt var fyrir tvö þúsund árum: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.
Hlutverk skólanna - allt frá leikskólum til háskóla - er að auka þekkingu, skilning, viðsýni og umburðarlyndi og búa nemendur undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi - því að það er lýðræði sem við stefnum sem felur í sér jafnræði á öllum sviðum og meðal allra. Skólarnir hafa reynt þetta, en betur má ef duga skal. Næst á eftir því að gera ungu fólki kleift að eignast íbúð með eðlilegum kjörum, reisa nýjan landspítala strax og koma heilsugæslu á landinu í sæmilegt horf, þarf þegar í stað að semja námsskrá fyrir grunnskóla og framhaldsskóla í lýðræði og málefnalegri umræðu, m.a. á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis og niðurstöðu Þjófundarins 2009. Einkunnarorð námsskrárinnar ættu að vera latnesku orðin Audiatur et altera pars: Hlustaðu einnig á aðra.
Menntun og skóli | Breytt 9.4.2016 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)