29.5.2010 | 00:33
Skopleikur íslenskra stjórnmála og H. C. Andersen
SORGLEGT er að tveir stjórnmálamenn, sem hafa sýnt sig að vera einir fárra alvöru stjórnmálamanna síðustu missera, Dagur B og Hanna Birna, skuli þurfa að taka þátt í stjórnmálarevíu sem Jón gNARR hefur sett á svið og RÚV sýnir.
Þegar ég horfði á fátæklegan umræðuþátt RÚV í kvöld, kom mér í hug sígilt ævintýri H. C. Andersens um nýju fötin keisarans. Jón gNARR er annar svikaranna í ævintýrinu sem enginn virðist geta flett ofan af. Heimskan og bullið í honum náði hæstum hæðum í kvöld, þegar hann gat engu svarað, skildi fátt og vissi ekkert - en barnið í ævintýrinu, sem benti á að keisarinn væri ekki í neinum fötum, var þarna ekki.
Hvers vegna geta traustar sjónvarpskonur eins og Jóhanna Hjaltadóttir og Þóra Arnórsdóttir, sem ég hef iðulega bundið vonir við, ekki flett ofan af svikunum? Hvar er barnið í þeim? Hvað þarf til "at sætte NARRen paa plads", svo notað sé móðurmál H. C. Andersens.
Engum vafa er undirorpið, að ofstopi og heimska íslenskra stjórnmála undanfarna tvo áratugi, sem Davíð Oddsson lagði grunninn að og Jón Baldvin og Halldór Ásgrímsson tóku þátt í og Styrmir Gunnarsson hefur viðurkennt á prenti, er meginástæða fyrir skopleik þeim í stjórnmálum sem leikinn er á Íslandi. Vonbrigði kjósenda eru botnlaus og áhyggjur almennings endalausar. Skrípisframboð NARRa leysa engan vanda. En hvað skal til varnar verða vorum sóma þegar pressan, rödd og samviska þjóðar bregst og er jafn blind og getulaus og getulausir stjórnmálamenn?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2010 | 22:30
Stjórnmálarevía á Íslandi?
Undanfarna daga höfum við Gréta enn einu sinni verið á ferðalagi um "det dejlige Danmark" sem var heimili okkar mörg ár og er eitt ólíkasta land Íslandi á norðurhveli jarðar, blítt, grænt og flatt. Lengst af vorum við hjá frændum og vinum á Jótlandi, þangað sem ætlunin var að flytja þessa "voðalegu" þjóð eftir Móðuharðindin 1783.
Hefði hugmynd "danskra Íslendinga" gengið eftir, þyrfti þessi "voðalega" þjóð ekki að horfast í augu við spitsbúba og galgenfugla á borð við Jón Gnarr, sem orðinn er meiri örlagavaldur en ísbjörninn og sorglegra fyrirbæri en Gvendur dúllari. Vafalaust eiga atvinnustjórnmálamenn og furðuflokkar þeirra sök á þessari revíu sem jafnvel gengur fram af galgenvogel eins og Hallgrími Helgasyni sem þó hefur haft gaman af ýmsum furðufyrirbærum. Ísland verður land stjórnmálarevíu fram yfir sveitarstjórnakosningar - hvað sem þá tekur við.
Bloggar | Breytt 23.5.2010 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2010 | 00:26
Alþingi Íslendinga
Í gærmorgun, 10da maí 2010, horfði ég á beina útsendingu frá viðskiptanefnd Alþingis. Formaður nefndarinnar, Lilja Mósesdóttir, einn af fáum "alvöru" fulltrúum á Alþingi, stjórnaði fundi af hógværð, þekkingu og kurteisi. Af þessu fékk ég dulítið aðra mynd af störfum Alþingis, enda þótt ég - sem barnakennari hálfa öld - telji enn að störfum á Alþingi þurfi að gerbreyta - bylta við eins og ýmsu í þessu stirðnaða samfélagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2010 | 02:08
Nauðsyn á nýjum umræðumiðli
Þegar lífið var einfalt og BONUS og Kaupþing ekki komin til sögu, var unnt að fylgjast með þjóðmálum og stjórnmálum með því að lesa litla Alþýðublaðið, Dag á Akureyri, "blað allra landsmanna" Morgunblaðið, Tímann, blað framsóknar- og samvinnumanna, og Þjóðviljann, sem flutti ögrandi skoðanir utan úr heimi. Ef auk þess var hlustað á fréttir og fréttaauka FRÉTTASTOFU RÍKISÚTVARPSINS undir frábærri stjórn Jóns Magnússonar og Margrétar Indriðadóttur, vissu menn viti sínu.
Nú, þegar við höfum fengið að kynnast svikum heimskra óknyttastráka í viðskiptalífinu, Alþýðublaðið, Dagur, Tíminn og Þjóðviljinn eru fyrir bí og Morgunblaðið er eins og afturganga frá liðinni öld spillingar innvígðra, innmúraðra flokksbræðra foringjans og upp risinn óskapnaður hagsmunaaðila í viðskiptum, sem heitir Fréttablaðið, og óþverrablaðið DV er enn á sömu skítaskónum og fyrr, þótt settur hafi verið upp leðurhattur Crocodile Harry, hvar er upplýsinga að leita, hvar fáum við hlutlægar fréttir af því sem máli skiptir og hvernig getum við fylgst með umræðunni á þessum örlagatímum?
Ekki er að unnt treysta súrum og hlutdrægum áróðursmeisturum gamla tímans eins og Birni Bjarnasyni og Jónasi Kristjánssyni, því síður hlutdrægum fjölmiðlagosum eins og Agli Helgasyni og Hallgrími Thorsteinssyni, að ekki sé talað um Eyjuna og Þjóðviljann, þótt ólíku sé saman að jafna, svo ég nefni ekki óþverra fasbækur og blogg skillítilla manna, karla og kvenna, sem ekki láta nafn síns getið en ausa úr skálum vanmetakenndar sinnar.
Til þess að treysta umræðuna þarf að stofna nýjan netmiðil, umræðuvettvang fyrir fólk sem vill taka þátt í heiðarlegri umræðu um þjóðmál og stjórnmál undir fullu nafni. Þá þarf ekki að leita um allt netið, heldur vitum við hvar unnt er að ganga að skoðanaskiptum hreinskiptins fólks - og auglýsingar úr öllum áttum borga brúsann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2010 | 22:03
Hvað er unnt að borga dauðlegum manni í vinnulaun?
Vorið 1993 setti Pehr Gyllenhammar VOLVO verksmiðjurnar á hausinn. Menn ráku upp stór augu. Pehr Gyllenhammar var talinn óskeikull sem stjórnarformaður í tryggingarfélögum s.s. Skandia og lyfjafyrirtækjum s.s. Pharmacia og í VOLVO, stærsta og virtasta fyrirtæki Svíþjóðar. Um tíma var talið að hann yrði áreynslulaust forsætisráðherra Svíþjóðar og um árabil var engum þeim ráðum ráðið á Norðurlöndum að Pehr Gyllenhammar kæmi þar ekki að.
Þegar VOLVO fór á hausinn undir stjórnarformennsku, spurðu menn, hvernig gat þetta gerst. Maður sem átti allt, vissi allt og skildi allt færi svona að ráði sínu. Opinbera skýringin var sú, að hann hefði ekki skilið fjölbreytileika fyrirtækisins og honum hefði mistekist að kaupa frönsku bílasmiðjurnar Renault, sem átti að ráða úrslitum.
Sænsk blöð höfðu aðrar skýringar. Í fyrsta lagi hefði Pehr Gyllenhammar ginið yfir of miklu. Í öðru lagi var hann mannlegur og það væri mannlegt að skjátlast, þótt hann hefði verið talinn ganga næst guði almáttugum. Í þriðja lagi var sagt, að trúnaðarbrestur hefði orðið milli hans og sjö forstjóra VOLVO, sem störfuðu undir stjórn hans, enda hefði hann haft tíföld laun á við hvern þessara sjö sem unnu verkin sem vinna þurfti og vissu hvað var að gerast. Þeir hefðu því af öfund og gremju leynt hann upplýsingum og með því komið honum og fyrirtækinu á kné.
Samstaða og trúaður er mikilsverður, bæði innan fyrirtækis og ekki síður innan samfélaga. "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist," sagði frelsarinn við faríseanna sem sökuðu hann um að lækna með fulltingi djöfulsins.
Það sem nú veldur tortryggni og sundurlyndi víða um lönd, er launamismunur. Hvers vegna skyldi seðlabankastjóri hafa tíföld laun á við kennara. Seðlabankastjórinn fæst við dauða hluti en kennarinn fæst við lifandi börn. Ætlum við aldrei að skilja þetta, jafnvel ekki eftir glæpi glæframanna sem taldir voru óskeikulir.
Bloggar | Breytt 7.5.2010 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2010 | 01:16
Skötulykt af seðlabankastjóra
Í kvöld suðum við afganginn af skötunni frá í fyrra. Lyktin var sterk og bragðið eftir því, lykt eins og á að vera af kæstri skötu, naumast húsum hæf, enda lokuðum við hurðum og gluggum til þess að gott gott sambýlisfólk fyndi ekki skötulyktina. Gréta fékk sér rauðvínsglas, ég fékk mér kaldan Álaborgarsnaps og danskt öl eins og gömlum danófíl sæmir.
Meðan við gæddum okkur á skötunni frá því í fyrra, horfðum við á viðtal við nýja bankastjóra Seðlabankans. Af viðtalinu var ekki góð lykt og hún yfirgnæfði skötulyktina. Mörgum þótti vond lykt af gamla seðlabankastjóranum. Lyktin af nýja seðlabankastjóranum var ekki betri.
Engan þarf að undra þótt vond lykt sé af gömlum stjórnmálamönnunum. Gamlir stjórnmálamenn héldu sig vita allt, töldu sér allt heimilt í skjóli stjórnmálahefðar - stjórnmálaíhalds, hvort sem þeir hétu Davíð, Gunnar, Halldór eða Jón.
Þegar nýr seðlabankastjóri, sem átti að reisa við Ísland í umboði hugmynda um réttlæti, jafnrétti og bræðralag og í umboði VG og Samfylkingar, gerir kröfu um tíföld laun barnakennara er ekki góð lykt af.
Nýr seðlabankastjóri verður að átta sig á því - eins og stjórnmálamenn sem vilja lifa af - að runninn er upp ný öld. Skítalykt af ofurgreiðslum til töframanna bankakerfis er fyrir bí enda engir töframenn viðskiptalífsins til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)