Það hef ég aldrei sagt, Sigurjón!

Erhard Jakobsen [1917-202] var mesti refur í dönskum stjórnmálum seinni hluta síðustu aldar - ólíkindatól - og vakti athygli í ungliðahreyfingu sósíaldemókrata, mælskur og metnaðargjarn, og sat á þingi fyrir þann flokk, en stofnaði síðan Centrum Demokraterne 1973 sat á þingi fyrir þá til 1996.

Erhard Jakobsen var svo mælskur að hann vissi ekki alltaf hvað hann hafði sagt og lét hafa ýmislegt eftir sér og skipti oft um skoðun. Eftirfarandi setning var eignað honum: "Det har jeg aldrig sagt - og hvis ikke jeg har sagt det før, er jeg villig til at gentage det ... “

Hegðan Erhards Jakobsens minnir á hegðan stjórnmálamanns sem sagði: “… jafnframt set ég fram þann fyrirvara skýrt í yfirlýsingunni, að þegar óvissunni verður eytt, vonandi fljótlega á næstu misserum, innan örfárra ára, að þá muni þjóðin sýna því skilning, ef ég tel það rétt ... að ég hverfi þá til annarra starfa áður en kjörtímabilinu er lokið, og forsetakosningar fari þá fram fyrr en ella.”

Þegar Sigurjón Egilsson sagði við stjórnmálamanninn í viðtali á Sprengisandi: “Þú sagðir það sjálfur,” svaraði stjórnmálamaðurinn: “Ég hef aldrei sagt það, Sigurjón” – eða með orðum Erhards Jakobsens: “Det har jeg aldrig sagt - og hvis ikke jeg har sagt det før, er jeg villig til at gentage det ... “


Stjórnmálaflokkurinnn ORG

Ólafur Ragnar Grímsson hefur í aðdraganda forsetakosninganna komið fram sem stjórnmálaflokkur eins manns. Í krafti embættis forseta Íslands ætlar hann að leiða villuráfandi sauði fram hjá ógnum sem bíða þjóðarinnar – “tryggja að hlutirnir fari ekki hér úr skorðum”, eins og hann sagði í viðtali við Sigurjón Egilsson á Bylgjunni, þar sem hann talaði um sjálfan sig í fleirtölu eins og einvaldskonungar fyrri tíðar gerðu: “Vi alene vide.”

Forseti Íslands

• er sameiningartákn – ekki stjórnmálaflokkur,

• kemur fram fyrir hönd Íslendinga undir merki menningar og mannúðar,

• er hógvær fulltrúi nýrrar hugsunar og nýrra tíma,

• er hafinn yfir flokkadrætti og væringar án undirmála,

• tengist ekki pólitískum flokkadráttum fyrri tíðar,

• stuðlar að sátt allra af hógværð, vitur og íhugull,

• lítur inn á við, gagnrýninn á sjálfan sig og þjóð sína.


Biskupssetur eða byggðasafn

TILBURKIRKJA I SKALHOLTI

Tollheimtuskáli einveldisins 

Þrír staðir á Íslandi eru helgastir: Þingvöllur, Skálholt og Hólar. Allt í einu er risið í Skálholti tilgátuhúsÞorláksbúð, sem var tollheimtuskáli danska einveldisins þegar svo hart var gengið fram í skattheimtu að Biskupstungur voru nefndar Sultartungur.

Tollheimtuskáli danska einveldisins skyggir á stílhreina kirkju Harðar Bjarnasonar húsameistara sem vígð var 1956 og reist á grunni kirkjunnar „er að réttu kallast andleg móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi,“ eins og segir í Hungurvöku, sögu fyrstu biskupanna í Skálholti. Tollheimtuskálinn fordjarfar ásýnd staðarins og minnir á fátækt og umkomuleysi þjóðarinnar.

Nú vilja aðilar í ferðaþjónustu taka höndum saman um „uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu” í Skálholti með því að endurreisa þar miðaldadómkirkjun og reka sem „sjálfbært menningar- og sýningarhús” og hefur verkefnið verið kynnt kirkjuráði. Af myndinni hér að dæma kemur „miðaldadómkirkjan” til að yfirskyggja staðinn.

Er stefnt að því að gera einn helgasta stað Íslands að byggðasafni?


Einelti drepur

Einelti – hvort sem er í skólum, á vinnustöðum eða annars staðar í þjóðfélaginu veldur ómældum skaða og skilur eftir sig djúp spor – og drepur. Þótt aðkallandi verkefni bíði, bæði á sviði jafnréttis, atvinnumála, efnahagslífs, heilsugæslu og menntunar er þetta verkefni sem þolir enga bið. Auk þess er unnt að ná árangi á skömmum tíma með litlum tilkostnaði.

Fyrst ber að beina athyglinni að einelti í skólum. Það verkefni þolir enga bið. Þegar skólar hefjast í haust ber menntamálaráðuneyti og sveitarfélögum að hafa mótað einfaldar starfsreglur sem öllum skólum ber að fara eftir. Reglurnar eru raunar til og viljinn víðast hvar fyrir hendi – en það þarf að taka höndum saman, sýna viljann í verki. Ekki síst þarf að gera nemendur sjálfa virka í forvarnarstarfinu. Slíkt hefur sýnt sig að bera bestan árangur.

Að loknu næsta skólaári ber skólastjórum að senda menntamálaráðuneytinu örstutta skýrslu þar sem fulltrúar kennara og nemenda eru hafðir með í ráðum og undirrita skýrsluna. Ef einelti hefur ekki verið upprætt á þremur árum í skóla, skal skólastjórinn víkja úr starfi. Þetta umbótastarf þolir enga bið. Fjölmargar rannsóknir liggja fyrir um orsakir eineltis, enda liggja ástæðurnar fyrir.

Meginástæðan er vanlíðan gerandans og vanmáttug heimili. Næst á eftir vanlíðan gerandans er meginástæðan ofbeldi í umhverfi okkar sem kemur fram í styrjaldarrekstri og kúgun auk þess sem ofbeldisleikir og ofbeldismyndir vega þungt. Við það verður erfiðara að ráða. En gerendunum ofbeldis og vanmáttugum heimilum ber að hjálpa og sýna þeim skilning. Burt með einelti í skólum.

MBL 04.05.2012 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband