Virðing Alþingis - framtíð þjóðarinnar

Eldhúsdagsumræður í kvöld juku lítið virðingu Alþingis. Formaður Sjálfstæðisflokksins gerði virðingu Alþingis að meginumræðuefni sínu, en flutti gamalþekkt nudd og ássakanir í garð annarra. Verst var tal hans um stjórnlagaþing þjóðarinnar. Það væri Alþingi sem ætti að setja þjóðinni stjórnarskrá. Vi alene vide, sagði einn síðasti einvaldskonungur Evrópu. Formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að vita að tími einvaldskonunga er liðinn. 

Formaður Framsóknarflokksins kom enn einu sinni fram fyrir þjóðina með neikvæða afstöðu og skipulagslaust nudd og ásakanir í garð annarra. Hjá formanni Framsóknarflokksins örlaði hvergi á bjartsýni eða jákvæðri framtíðarsýn. Framsókn flokksins er að engu orðin!

Eins og oft áður talaði formaður VG af mestu viti. Sem fjármálaráðherra og hinn sterki maður ríkisstjórnarinnar tók hann við spillingarhruni sem heimskir gróðapungar áttu sök á. Formaðurinn hefur sem fjármálaráðherra axlað þunga byrði sviksemi og þjófnaðar frjálshyggju, en í umræðunni í kvöld og reyndi hann einn fárra að telja kjark í fólk og bregða upp jákvæðri framtíðarsýn.

Nei, virðing Alþingis jókst ekki í kvöld. Hvað má þá til varnar verða vorum sóma?

 


Samræðutækni RÚV

Enn einu sinni þurfa sjónvarpsáhorfendur að horfa upp á yfirgang Sigmars Guðmundssonar í ríkissjónvarpinu þegar hann valtaði yfir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra með frekju og yfirgangi í Kastljósi í gærkvöldi.

Þessa hegðan telur útvarpsstjóri til fyrirmyndar og "mætti nota frammistöðu Sigmars til kennslu í því hvernig ganga eigi að stjórnmálamönnum í sjónvarpsviðtölum - af kurteisi og harðfylgni," eins hann segir í tölvubréfi til mín.

Að mínum dómi hefur ókurteisi og yfirgangur Sigmars Guðmundssonar iðulega komið í veg fyrir að nauðsynlegar upplýsingar fengjust í viðtölum. Auk þess gerir hann sér mannamun því að hann á það til að vera mjúkmáll og blíður og liggja hundflatur fyrir viðmælendum sínum eins og í drottningarviðtalinu við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í nóvember 2008. Hins vegar eiga allir að vera jafnir fyrir Ríkisútvarpinu.

Sigmar Guðmundsson og útvarpsstjóri eiga enn margt ólært og ættu að horfa á sjónvarpsviðtöl í ríkissjónvarpi Dana, Norðmanna eða Svía, BBC eða Channel 4. Þar er fólk sem kann til verka.


Beint lýðræði og ný stjórnarskrá

Skammt er öfganna í milli. Nú talar Styrmir Gunnarsson um beint lýðræði þar sem ákveða skal öll meginmál með þjóðaratkvæðagreiðslu. Öðruvísi mér áður brá.

Kenningin um beint lýðræði tekur út yfir allan þjófabálk og spádómar hans og annarra um að flokkakerfið á Íslandi hafi runnið sitt skeið á enda, er enn eitt dæmið um öfgar í íslenskri stjórnmálaumræðu þar sem heimurinn er annaðhvort svartur eða hvítur og pendúlinn sveiflast frá því lengst til hægri til lengst til vinstri.

Beint lýðræði, þar sem allir eiga að setja sig inn í öll mál, þekkja allt, skila allt og vita allt, er óhugsandi af þekkingarfræðilegum ástæðum, af því að enginn getur þekkt allt, skilið allt og vitað allt, heldur verðum við að treysta kjörnum fulltrúum til þess að ráða fram úr málunum. Þetta er eðlileg verkaskipting í þjóðfélagi sérfræðinnar, þjóðfélagi þekkingarinnar. Auk þess er beint lýðræði þunglamalegt og kostnaðarsamt. Í þriðja lagi – og það sem ekki skiptir minnstu máli: í beinu lýðræði ber enginn ábyrgð, en ábyrgð er það sem skiptir máli.

Því skiptir öllu máli, að fólk - ungt fólk, gamalt fólk, konur og karlar, beri ábyrgð á gerðum sínum og sé gert kleift og krafið um að bera ábyrgð á sér sjálft: í skólum, á heimilum og vinnustöðum, í umferðinni, í samskiptum sínum við annað fólk - og í stjórnmálum.

Til þess þurfum við m.a. ábyrga stjórnmálaflokka og virkt fulltrúalýðræði, opna umræðu og algera upplýsingaskyldu.Stjórnmálaflokkar eiga sjálfir að ráða, hverja þeir bjóða fram og ekki notast við prófkjör sem er blekking, upphaflega fundin upp til þess að slá ryki í augun á fólki og láta það halda að það réði einhverju sjálft, en endaði með því að hlaupandi strákar úr íþróttafélögum eða öðrum stjórnmálaflokkum réð framboðslistum.

Stjórnmálaflokkar eiga að kynna stefnumál sín og viðhorf með einföldum og skiljanlegum hætti og fjölmiðlar - ekki síst Ríkisútvarpið, eiga að veita flokkum og frambjóðendum aðhald á grundvelli þekkingar á lögmálum samfélagsins – það þarf sem sagt menntaða blaðamenn.

Hins vegar á að nota beint lýðræði við að setja landinu grundvallarlög – stjórnarskrá, þar sem kjörið er til stjórnlagaþings beinni persónukosningu með landið allt sem eitt kjördæmi.  Styrmir Gunnarsson, Björn Bjarnason, Bjarni Benediktsson og Jóhanna mega hins vegar ekki heyra minnst á "stjórnlagaþing þjóðarinnar" um leið og talað er um beint lýðræði, jafnrétti og bræðralag. Hér er eitthvað sem ekki passar.


Nýju fötin keisarans

Allir þekkja ævintýrið um nýju fötin keisarans eftir H. C. Andersen, ævintýrið um keisarann sem var svo hrifinn af fínum fötum að hann eyddi öllu fé sínu í föt. Dag einn komu til keisarans tveir svikahrappar sem sögðust geta ofið fegursta klæði sem hugsast gæti en hefði þann eiginleika að hver sá sem væri heimskur og dómgreindarlítill gæti ekki séð það.

Keisaranum fannst þetta freistandi tilboð. Með því að eignast slíkt klæði gæti hann greint í sundur þá sem væru heimskir og dómgreindarlitlir og hina sem væru skynsamir og gætu gegnt embættum í ríki hans. Hann fékk svikahröppunum því fé, herbergi til þess að vefa í, silki, pell og purpura ásamt gullþræði sem þeir stungu í skjóður sínar.

Sagan um klæðið sem heimskir menn gætu ekki séð spurðist út og þegar keisarinn sendi gamla ráðgjafann sinn að líta eftir því hvernig vefurunum gengi, brá honum í brún, því að hann sá ekkert klæði heldur svikarana tvo sem sátu við tóman vefinn og þóttust vefa. „Guð hjálpi mér,” sagði gamli ráðgjafinn. „Ég sé engan vef og ekkert klæði.” En hann sagði ekkert en lést sjá klæðið fína.

Góðfús lesandi þekkir framhaldið. Þegar keisarinn gekk út á götu í nýju fötunum hrópaði lýðurinn: „En hvað nýju fötin keisarans eru glæsileg, sitja vel og hvað slóðinn er stórkostlegur.” En lítið barn hrópaði upp yfir sig undrandi: „En keisarinn er allsber.” Þá opnuðust augu hinna.

Atburðir síðustu vikna og úrslit kosninganna í Reykjavík minntu mig á ævintýrið um nýju fötin keisarans. En það var ekkert barn sem hrópaði: „En keisarinn er allsber.”


Stríðsleikur yfir Íslandi

Í sólskininu í morgun heyrði ég urrið í þýsku stríðsþotunum sem geysast yfir höfuðborgina. Enn einu sinni vaknaði sú spurning hvers vegna þessar stríðsþotur eru hér.

Við gamlir friðarsinnar fyrirlítum þennan stríðsleik sem gerir góða drengi - og jafnvel góðar stúlkur að hrottafengnum skepnum.  Þýsku þoturnar eru hér ekki til að verja okkur. Heimskir ofbeldismenn eru of langt í burtu til þess. 

Til þess að verjast ofbeldismönnum heimsins á aðeins að vera einn her undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.  Alla aðra heri á að leggja niður og nota milljarðana, sem við það sparast, til þess að bæta heilsu og afkomu þeirra sem minna mega sín.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband