Something is rotten in the state of Iceland

Hvers vegna í ósköpunum - svo ég sem gamall sjómaður að austan segi ekki: hvers vegna í andskotanum þarf að vera þessi vafi um heiðarleika íslenskra útgerðarmanna? Sem sonur útgerðarmanns fyrir austan segi ég: Hvers vegna í andskotanum hefur skammaryrðið sægreifi leyst orðið útgerðarmaður af hólmi?

Íslendingar hafa ekki efni á óheiðarlegum útgerðarmönnum - óheiðarlegum sægreifum - sem taldir eru „ganga ekki glæpaveg en götuna meðfram honum“. „For den sags skyld“ höfum við heldur ekki efni á óheiðarlegum kaupmönnum, óheiðarlegum verktökum, óheiðarlegum dómurum - að ég sem gamall fréttamaður undir stjórn hins heiðarlega Jóns Magnússonar fréttastjóra Fréttastofu Ríkisútvarpsins tali nú ekki um óheiðarlega fréttamenn.

Íslendingar - þessi voðalega þjóð - er aðeins til vegna þess, að í þúsund ár hefur þjóðin búið við fengsælustu fiskimið á Atlantshafi.  Ísland er raunar eins konar skuttogari á miðjum fiskimiðum á mörkum Atlantshafs og Norður Íshafs.

Sem málfræðingur leyfi ég mér að nefna, að Íslendingar eiga elsta tungumál í Evrópu og geta af þeim sökum lesið þúsund ára gamlar bókmenntir, sem engir önnur þjóð í Evrópu getur.  Þessi ummæli mín eru í augum sumra vafalaust talin þjóðernishroki eða þjóðernisstefna - nationalismus a la Hitler - þótt skoðun okkar sé sú, að allar þjóðir - jafnvel fólks sem játar múslímstrú eða telur sig með öllu trúlaust - eigi rétt á að hrósa sér af menningu og viðhorfum sínum, meðan það gætir þess að virða mannréttindi og jafnrétti allra á öllum sviðum - og ekki að fremja morð. Móses gamli sagði fyrir fimm þúsund árum: „Þú skalt ekki morð fremja.“ Það er í raun boðorð númmer eitt.

Shakespeare, sem að vísu var ekki eins gamall og Móses, lætur Marcellus segja við Hamlet í leikritinu Hamlet Prince of Denmark: „Something is rotten in the state of Denmark.” Höfundur þessara orða, þ.e.a.s ég - ef mig skyldi kalla - segi við Sigmund Davíð, Ólaf Ragnar og aðra svo kallaða áhrifamenn: „Something is rotten in the state of Iceland.”

 

 

 


Þúsund ár á einni öld

Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga, þessarar dvergþjóðar á mörkum hins byggilega heims, þjóðar sem fjölgaði ekkert í 900 ár meðan fólksfjöldi nágrannalandanna þrefaldaðist.  Fyrir rúmri öld var Ísland amt í Danmörku.  Fátækt var svo mikil að sjómenn frá Noregi, sem hingað komu til fiskveiða um aldamótin 1900, sögðu heimkomnir að fátækt á vesturströnd Noregs væri auðlegð í samanburði við kjör þurrabúðarmanna á Íslandi.

Menntunarstig

Fyrir 100 árum voru skólar fáir og fábreyttir.  Nú er menntunarstig Íslendinga svipað og í öðrum löndum álfunnar.  Í upphafi 20ustu aldar höfðu innan við þrjátíu Íslendingar lokið doktorsprófi.  Síðan 1950 hafa á fjórða þúsund Íslendingar lokið doktorsprófi og nú ljúka um eitt hundrað Íslendingar doktorsprófi víðs vegar um lönd - og eru konur þar í meirihluta. 

Efnahagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri.  Verkmenning er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum.  Talandi tákn um framfarirnar er barnadauði, sem 1875 var hæstur hér á landi af öllum löndum Evrópu, en er nú lægstur í öllum heiminum.

Íslensk tunga

Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Í upphafi 19du aldar var Reykjavík danskur bær þar sem töluð var danska á bæjarstjórnarfundum.  Undanfarna hálfa öld hefur verið ritað á íslensku um flest þekkingarsvið nútímasamfélags. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og kvikmyndagerð stendur með blóma. Myndlist og tónlist þola samanburð við flest lönd Evrópu og til er orðin áður óþekkt íslensk fyndni, gamansögur og hnyttnir orðaleikir, ekki síst meðal ungs fólks, í stað skítabrandara, sjóðbúðatals og sagna af skrýtnu fólki. Atvinnulíf er fjölbreytt og fyrirtæki, stór og smá, sækja á ný mið og renna stoðum undir aukna velsæld og bætta afkomu. Þúsundir karla, kvenna og barna af erlendu bergi brotið hafa flust til Ísland til þess að setjast hér að og verða íslenskir ríkisborgarar og auðgað menningarlíf á Íslandi.

Hrapallegt ástand í stjórnmálum

En þótt Ísland hafi „ferðast“ þúsund ár á einni öld og listir, menntun og atvinnulíf standi með blóma er enn margt ógert - og ýmsu er ábóta vant. Hrapallegast er ástandið í stjórnmálum þar sem borist er á banaspjót, innan flokka og utan, og Alþingi er skopmynd af löggjafarsamkomu. Stendur þessi ómenning mörgu fyrir þrifum. 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða, viðhorf og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega umræðu og frjálsa skoðanamyndun – og farsælt stjórnarfar.

Vanmáttugir stjórnmálamenn

Samanburðarrannsóknir í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar hafa leitt í ljós gríðarlegan mun á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð. Brigsl og stóryrði, sem margir íslenskir stjórnmálamenn temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi, enda grafa þarlendir stjórnmálamenn sér gröf með slíku tali. Hér á landi telja margir stóryrði og brigsl tákn um djörfung og festu.

Þessi frumstæða umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu og eykur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og hindrar eðlilegt samstarf enda ber almenningur ekki virðingu fyrir Alþingi eða íslenskum stjórnmálamönnum. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum við lausn aðkallandi vandamála á rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og frumstæðs stjórnmálasiðferðis og umræðuhefðar.

Hlutur fjölmiðla

Umfjöllun um ágreiningsmál í fjölmiðlum á Íslandi einkennist oft af „yfirheyrsluaðferðinni“ þar sem spyrjandi reynir að gera viðmælanda sinn tortryggilegan - og fella yfir honum dóm. Við hlið dómstóls götunnar og skvaldursins í netheimum, hefur verið settur dómstóll íslenskra fjölmiðla. Í sjónvarpi í Danmörku og Noregi býr spyrjandi sig vel undir og leitar svara á hlutlægan hátt með yfirveguðum spurningum til þess að reyna að skýra málin - og fellir ekki persónulega dóma og tekur því síður sjálfur þátt í umræðunni. Vegna yfirheyrsluaðferðarinnar fást iðulega ekki svör við brennandi spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum.

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar á Íslandi eru vafalaust margar. Rótgróin borgmenning hefur enn ekki fest rætur á Íslandi með tillitssemi, yfirvegun og persónulegri fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámenni hefur valdið því að allir þykjast þekkja alla og persónulegt návígi nálgast iðulega ofsóknir. Stéttskipting með sínum harða aga hefur verið með öðrum hætti en úti í hinum stóra heimi - með kostum sínum og göllum, og agaleysi Íslendinga er áberandi á flestum sviðum.

Eitt af því sem mjög er aðkallandi í þjóðfélaginu, er að bæta umræðumenningu, auka virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum annarra - samfara því að koma á jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.

 

 


Gamanleikari og stjórnmálamaður

Þegar gamanleikarinn Jón Gnarr bauð sig fram til borgarstjórnar og varð borgarstjóri Reykjavíkur fyrir fjórum árum, undraðist ég uppátækið og hneykslaðist yfir framferðinu og taldi að nú væru endalokin framundan.

Síðan hef ég orðið að endurskoða álit mitt, orð mín og ummæli. Með góðum samstarfsmönnum hefur hann unnið ágætt starf í höfuðborg allra landsmanna, friður hefur ríkt auk þess sem umræðan í borgarstjórn skemmtilegri en löngum og glaðværð ríkt.

En hvað veldur því að gamanleikarinn Jón Gnarr hefur staðið sig með svo miklum ágætum og öðlast virðingu og traust flestra? Það sem mestu veldur er einlægni hans og heiðarleiki og fágæt gamansemi sem hann beitir á sjálfan sig en ekki gegn öðrum. Eftir þessu hefur þjóðin beðið lengi og Þjóðfundurinn 2009 setti heiðaleika efst á óskalistann

Heiðarleiki og einlægni Jóns Gnarr kemur nú síðast fram í færslu hans á bloggsíðu sinni í dag þar sem hann segir:

„Nú langar mig til að mennta mig meira. Mig langar til að læra taugalíffræði, heimspeki og mannfræði til að geta skilið mannfólkið betur. Mig langar til að læra um loftslagsbreytingar svo við getum gert eitthvað í því. Hvernig get ég lagt mitt að mörkum? Ég vil læra um mannréttindi svo ég geti varið þau. Ég vil læra betri ensku svo ég geti talað þannig að fólk heyri til mín.“

Stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ættu að læra af gamanleikaranum sem tók hlutverk sitt sem stjórnmálamaður alvarlega.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband