23.6.2015 | 13:29
"Fjölgun aldraðra áhyggjuefni"
Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn á forsíðu sem hljóðar þannig í drottins nafni: Fjölgun aldraðra áhyggjuefni. Í fréttinni er að vísu talað um að fjölgun aldraðra í Garðabæ sé áhyggjuefni, en þessi orð vöktu einkennilegar kenndir hjá mér, öldruðum manninum.
Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri á Selfossi, sagði lengi að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sextug. Svo varð hann sextugur sjálfur hinn 7. janúar 1957 og hélt hann upp á það með glæsibrag, eins og hans var von og vísa. Daginn eftir sagði hann við flokksbróður sinn og vin að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sjötug. Egill Thorarensen lifði það ekki að verða sjötugur en dó í janúar 1961, aðeins sextíu og fjögurra ára gamall. Annars hefði hann sagt sjötugur: Það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem verða sjötug.
Hins vegar sagði Oscar Wilde á sínum tíma: Nú á dögum getur maður lifað allt af nema dauðann. Þannig er það enn og dauðinn er í raun hluti af lífinu og ef við viljum ekki drepa alla kalla og kellingar - eða láta gamalt fólk ganga fyrir ætternisstapa, eins og gert var í miðölum, verðum við að búa sæmilega að öldruðu fólki sem skilað hefur löngu dagsverki og gert Íslands að því góða landi sem það er - burtséð frá Alþingi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.6.2015 | 09:17
Svartur og ljótur og líkur föður sínum
Hálft fjórða ár hef ég skrifað þætti um íslenskt mál, málfræði, málsögu, mannanöfn, örnefni - og menningarsögu í blað okkar Akureyringa, Vikudag. Til gamans birti ég hér 182. þátt á þessum drottins degi 11. júní 2015 - en þversumman af 182 er 11.
Í upphafi Egils sögu segir frá því, að Salbjörg Káradóttir frá bænum Berðlu á eynni Bremanger, miðja vegu milli Björgvinjar og Álasunds, og Úlfur, sonur Bjálfa og Hallberu, systur Hallbjarnar hálftrölls, ættaður norðan af Hálogalandi, hafi átt tvo syni. Hét hinn eldri Þórólfur en hinn yngri Grímur. En er þeir uxu upp voru þeir báðir miklir menn og sterkir, svo sem faðir þeirra. Þórólfur var manna vænstur og gjörvilegastur og líkur móðurfrændum sínum og vinsæll af öllum mönnum. Grímur var svartur maður og ljótur, líkur föður sínum, bæði yfirlits og að skaplyndi, eins og segir í sögunnu.
Nafngiftir voru á þessum tíma með öðrum hætti en nú, enda aðstæður og viðhorf ólík. Sum nöfn frá landnámsöld hafa hins vegar haldist alla tíð. Mannsnafnið Úlfur er eitt af mörgum dýranöfnum sem mönnum voru gefin, ef til vill til þess að þeir öðluðust styrk úlfsins. Nafnið hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, þótt lengi væri það sjaldgæft. Árið 1910 hétu aðeins tveir þessu nafni. Nú bera 149 karlmenn nafnið sem fyrsta eiginnafn.
Nafnið Bjálfi hefur alla tíð verið sjaldgæft. Eru raunar engin dæmi um það á Íslandi. Orðið bjálfi merkir skinnfeldur eins og orðið héðinn, sem þekkt er sem mannsnafn Íslandi allar götur. Sennilegt er að bæði nöfnin hafi upphaflega verið notuð um þá sem gengu í skinnfeldum - væntanlega bjarnarfeldum.
Kvenmannsnafnið Hallbera merkir steinbirna - hugsanlega birna sem býr undir steini. Nafnið kemur fyrir í Landnámu og Sturlungu og hefur tíðkast á Íslandi alla tíð. Í manntalinu 1702 báru 132 konur þetta nafn. Nú bera aðeins 16 konur nafnið sem fyrsta eiginnafn. Hallbjörn er af sama toga og kvenmannsnafnið Hallbera og hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, sjaldgæft í fyrstu, en nú bera 25 nafnið sem fyrsta eiginnafn.
Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, bar viðurnefnið hálftröll. Orðið tröll gat á þessum tíma merkt Finni eða Sami, þ.e.a.s. maður af samísku bergi brotinn. Orðið hálftröll merkir því hálfur af kyni Sama eða Finna. Samar, sem á þessum tíma voru nefndir Finnar í norrænum ritum, töluðu - og tala samísku, úralskt mál sem á rætur að rekja til Úralfjalla eða jafnvel enn legra að. Samar voru taldir göldróttir og sagðir búa yfir töfrum, sbr. íslenska orðið trölldómur og norska orðið trolldom sem merkja galdrar. Auk þess klæddust Samar bjarnarfeldum, sem vopn bitu ekki á, og var það talið yfirnáttúrulegt. Samar voru síðar nefndir lappar, en norska orðið lapp merkir m.a. skinndrusla og notað um þá sem klæddir voru í leppa úr skinni, sbr. leppalúði. Orðið lappi er raunar af sama toga og orðið skrælingi, sem leitt er af orðinu skrá skinn, notað um þann sem klæddur er skinnklæðum.
En mannsnafnið Grímur merkir dökkur eða svartur. Grímur hefur því borið nafn með réttu: svartur maður og ljótur, líkur föður sínum. Í Landnámu er getið tvíburnanna Geirmundar og Hámundar, sona Hjörs konungs Hálfssonar, sem báru viðurnefnið heljarskinn. Bendir viðurnefnið til þess að þeir hafi verið dökkir - borið hörundslit Heljar, en móðir þeirra bræðra hét Ljúfvina, dóttir Bjarmakonungs, og var því af samísku bergi brotin. Bræðurnir Geirmundur og Hámundur voru því hálfir af kyni Sama - hálftröll, eins og Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, og nóg um það að sinni.