29.7.2009 | 12:58
Pólitík - um hvað snúast stjórnmál?
Mikið er talað um pólitík. Sagt er að eitt og annað sé pólitískt - ákvörðun eða afstaða fólks sé pólitísk.
Eins og menn þekkja, er íslenska orðið stjórnmál notað um það sem á flestum öðrum tungumálum er kallað pólitík, e politics, d politik.
Ekki ætla ég að rekja upprunalega merkingu orðsins pólitík. Orðið er dregið af gríska orðinu polis, sem merkir borgríki. Kemur sú merking í raun lítið við merkingu orðsins stjórnmál eða pólitík í daglegu tali og pólitískum átökum samtímans.
Til þess að gera langa sögu stutta snýst pólitík fyrst og síðast um hagsmuni. Pólitísk barátta er hagsmunabarátta og þegar talað er um að eitthvað sé pólitískt, er um það að ræða, að ólíkir hagsmunir rekist á.
Mikilsvert er því að stjórnmálamenn, pólitíkusar, taki tillit til hagsmuna sem flestra, þegar þeir taka afstöðu. Stjórnmálamenn - svo sem alþingismenn - eiga því ekki aðeins að fara eftir samvisku sinni, þótt hún kunni að vera góð, heldur einkum eftir dómgreind sinni og þá eiga þeir hinir sömu stjórnmálamenn, alþingismenn og ráðherrar, að líta á hagsmuni sem flestra.
Í því að taka tillit til hagsmuna sem flestra, felst réttlæti, sem er meginþáttur lýðræðis, sem er annað stórt orð og mikið (mis)notað.
Bloggar | Breytt 17.8.2009 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2009 | 12:22
Icesafe - samningur til bjargar Íslandi
Því er haldið fram að enginn samningur verði erfiðari Íslendingum en Icesafe samningurinn síðan Gamli sáttmáli var gerður 1262. Gamli sáttmáli er án efa örlagaríkasti samningur í þúsund ára sögu þjóðarinnar. Með honum glötuðu Íslendingar sjálfstæði sínu og urðu skattland erlendra ríkja hálfa sjöundu öld.
Með Icesafe samningnum er hins vegar verið að leita leiða til að endurreisa virðingu og efnahag íslensku þjóðarinnar og tryggja framtíð Íslendinga í samfélagi þjóðanna.
Það er því út í hött að bera saman þessa samninga og ber annaðhvort vitni um þekkingarleysi eða lýðskrum nema hvort tveggja sé.
Rætur Gamli sáttmála
Orsakir þess að Gamli sáttmáli var gerður og þjóðveldið leið undir lok voru margar og flóknar. Meginorsökin var þó sú að skipulag þjóðveldisins var orðið úrelt og átti sér enga hliðstæðu í Evrópu og hafði raunar veri gallað frá upphafi. Ekkert sameiginlegt framkvæmdavald var fyrir hendi og þegar komið var fram á 13du öld logaði landið í illdeilum og skipaferðir til útlanda voru í hættu vegna þess að Íslendingar áttu sjálfir engin skip lengur.
Orsakir hruns íslensku bakanna sem leiddu til erfiðleika í íslensku atvinnulífi eru einnig margar og flóknar og naumast á færi nokkurs manns að greina þær enn. Meginástæður voru hins vegar þrjár: ágirnd, hroki og mannfyrirlitning en þetta þrennt var fyrrum talið til dauðasyndanna sjö. Íslendingar stóðu í október einangraðir og öllu trausti rúnir og lánalínur til útlanda voru lokaðar.
Tilgangur Icesafe samningsins
Icesafe samningurinn er gerður til þess að leysa þennan vanda og hann er gerður að bestu manna yfirsýn. Formaður íslensku samninganefndarinnar var Svavar Gestsson sendiherra, margreyndur stjórnmálamaður sem hafði með sér trausta ráðgjafa, starfsfólk Seðlabanka og þriggja ráðuneyta auk íslenskra hagfræðinga og lögfræðinga með sérþekkingu og mikla yfirsýn.
Þegar stjórnmálamenn og fréttaskýrendur saka slíkt fólk um vanþekkingu og óheilindi, gera þeir hinir sömu lítið úr sjálfum sér og menntun þjóðarinnar og hitta sjálfa sig fyrir. Ef besta fólk þjóðarinnar er vankunnandi og því er ekki treystandi, hvernig er þá um hina verstu sem hafa hvorki reynslu né þekkingu. Slíkur málflutningur ber vitni um tortryggni eða vænisýki og vometakennd og leiðir þjóðina í ógöngur.
Málflutningurinn felur einnig í sér þá trú að Íslendingar geti ekki ráðið fram úr vandanum sjálfir heldur verði að leita til útlendinga með alla hluti, enda hefur sá málflutningur einnig heyrst af hálfu stjórnmálamanna og fréttaskýrenda.
Ábyrgð
Icesafe samningurinn er gerður á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hefur sér til fulltingis Indriða H. Þorlákssonar hagfræðing, fyrrverandi ríkisskattstjóra, margreyndan og traustan embættismann. Hvorugur þeirra átti nokkra aðild að svikum þeim sem liggja að baki hruninu, en hreinsa nú upp eftir óreiðumenn.
Engum vafa er undirorpið að báðir eru vanda sínum vaxnir. Steingrímur J. Sigfússon er einn reyndasti stjórnmálamaður landsins og hefur auk þess lagt pólitíska framtíð sína að veði til þess að vinna þetta endurreisnarstarf. Er honum betur treystandi en öðrum íslenskum stjórnmálamönnum til þess að leysa úr þessum vanda þjóðarinnar.
Tilgangur Icesafe
Megintilgangur Icesafe samningsins er að láta Íslendinga axla siðferðilega ábyrgð sem þeir bera sem þjóð, án þess almenningur hver og einn einstaklingur eigi hlut að máli og enga sök á hruninu. Icesafe samningurinn á einnig að rétta hlut útlendinga sem trúðu á fagurgala nýríkra auðmanna. Síðast en ekki síst er samningnum ætlað að endurvekja traust annarra þjóða á Íslandi og Íslendingum. Það er megurinn málsins.
Allar líkur benda til þess, að eftir sjö ár þegar afborganir hefjast vegna samningsins hvíli á ríkissjóði skuld sem nemur um 20% landsframleiðslu. Þessa skuld skal greiða á átta árum. Afborganir nema því tveimur til þremur prósentum af landsframleiðslu Íslendinga á ári að meðtöldum vöxtum. Undir þessu getur þjóðin risið - og undir þessu verður þjóðin að rísa, bæði til þess að sýna hvers hún er megnug og til þess að sýna hvað hún vill: góð samskipti við aðrar þjóðir.
Möguleikar Íslendinga í framtíðinni eru fjölmargir og afkoma þjóðarinnar trygg ef auðlindir og mannauður eru rétt nýtt og lýðskrum og rangar upplýsingar villa mönnum ekki sýn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2009 | 18:37
Skuldir óreiðumanna
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri iðnaðarins, skrifar í dag grein í Morgunblaðið, sem er skýr, skorinorð og vel skrifuð.
Erfitt er hins vegar fyrir óbreytta alþýðumenn eins og mig að átta mig á hinum æðri fjármálavísindum. Hins vegar skil ég vel orð Jóns Steindórs þegar hann segir að mikilvægasta verkefni Íslendinga sé að efla og treysta atvinnulífið hratt og örugglega svo það geti aflað þjóðarbúinu tekna til þess að standa undir skuldbindingum þjóðarinnar.
Jón Steindór bendir á að endurreisa verði traust alþjóðasamfélagsins á íslensku atvinnulífi. Slíkt sé forsenda þess, að íslensk fyrirtæki geti átt eðlileg viðskipti við umheiminn. Þess vegna eigi Alþingi ekki annan kost en samþykkja frumvarpið um Icesafe til þess að deilur við nágrannaríki dragist ekki á langinn. Íslenskt atvinnulíf geti ekki búið við óvissu og einangrun.
Þetta kann allt að vera satt og rétt. Hins vegar er ekki ljóst hverjar raunverulegar skuldbindingar Íslendinga eru, þ.e.a.s. ríkissjóðs eða almennings. Skuldbindingar Landsbankans vegna Icesafe eru ekki skuldbindingar ríkissjóðs eða almennings.
Það er síðan hlutverk sjálfstæðra atvinnufyrirtækja á Íslandi og samtaka þeirra, Samtaka atvinnulífsins, að endurreisa traust alþjóðasamfélagsins á atvinnulífi á Íslandi. Traust alþjóðasamfélagsins á öðrum þáttum íslensks samfélags hefur ekki beðið tjón, s.s. traust á háskóla- og rannsóknarsamfélaginu, listum og menningu lands og þjóðar, og enn eigum við marga vini í útlöndum.
Vilji erlend fyrirtæki sækja íslensk fyrirtæki til saka vegna skulda eða vanefnda, verður að láta reyna á það fyrir dómi. Varnarþing íslenskra fyrirtækja er á Íslandi, eins og gamall nemandi minn, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, hefur bent á og Davíð Oddsson og fleiri hafa tekið upp eftir honum. Svo einfalt er það.
Samþykki Alþingi núverandi Icesafe samning, er lagður skuldaklafi á almenning í landinu um ófyrirsjáanlega framtíð. Þá er verið að hengja bakara fyrir smið og íslenskir launþegar og látnir greiða "skuldir óreiðumanna". Það er ekki réttlæti heldur fullkomið ranglæti.
Samtök atvinnulífsins undir styrkri stjórn Jóns Steinars Valdimarssonar, gamals nemanda míns, verða að finna leið til þess að endurreisa íslenskt atvinnulíf og traust alþjóðasamfélagsins á því. Það erhlutverk þeirra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2009 | 21:00
Orðvísi Davíðs
Eins og oft áður ratast Davíð Oddsyni satt orð á munn og hann kemur betur orðum að skoðunum sínum en flestir aðrir, þótt stundum sér kjaftur á keilunni þegar hún gapir.
Viðtal hans í MBL á morgun, sunnudag, á vonandi eftir að hrista upp í mönnum, ekki síst alþingismönnum. Í ljósi upplýsinga þeirra, sem koma fram koma í viðtalinu, verða íslenskt stjórnvöld, Alþingi og rikisstjórn, að endurskoða afstöðu sína frá grunni.
Tvennt í viðtalinu er merkilegast að mínum dómi. Í fyrsta lagi niðurstöður skýrslu nefndar OECD sem fjallaði um evrópsk tryggingamál og innstæðutryggingar og unnin var undir stjórn núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet. Í skýrslunni segir að innstæðutrygginakerfið gildi ekki ef um algert bankahrun sé að ræða í viðkomandi landi.
Hitt atriðið, sem Davíð Oddsson bendir á af glöggskyggni sinni, er að varnarþing mála, sem tengjast Icesafe, er á Íslandi. Vilji einhver sækja mál á hendur Landsbankanum eða íslenska ríkinu skal málið rekið fyrir íslenskum dómstólum. Þarf frekar vitnanna við.
Bloggar | Breytt 5.7.2009 kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2009 | 17:59
Réttur Íslendinga, svar til Sighvats Björgvinssonar
Kynlegt var að lesa grein Sighvats Björgvinssonar, gamals alþingismanns og ráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Greinina nefnir hann Ábyrgð Íslendinga. Engan gæti grunað af orðfæri greinarinnar og röksemdafærslu höfundar, að þar færi gamall jafnaðarmaður, ráðherra gamla Alþýðuflokksins, flokks jafnaðarmanna. Í greininni segir:
Þetta er ekki spurning um auðmagn, vonda kapítalista. ... Þetta er spurning um hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína annars vegar á Íslandi og hins vegar í öðrum löndum. Hvernig ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú ætlar að koma fram viðósköp venjulegt fólks eins og þig og mig.
Þetta er vond latína úr munni gamals jafnaðarmanns fyrir utan rökleysurnar. Auðvitað er hrunið spurning um vonda kapítalista - ekki spurning um ábyrgð Íslendinga, allra síst venjulegs fólks. Auk þess var það ekki almenningur, alþýðan, sem lagði inn á reikninga íslenskra banka í útlöndum. Það voru smáborgarar sem ætluðu sér að verða auðugir. Fégræðgin, sem er upphaf alls ills, blindaði þá.
Þegar gamli ráðherrann spyr hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína á Íslandi, felst í því augljós rökleysa, eins og víðar í greininni. Þá getur gamall alþingismaður og ráðherra ekki talið sig í hópi venjulegs fólks, þótt hann gjarna vildi. Hann er í hópi blindra - svo ég segi ekki spilltra stjórnmálamanna, sem heyra fortíðinni til, en reyna enn að láta á sér bera og kenna öðrum um og gangast helst ekki við eigin ábyrgð.
Sannarlega þurfum við Íslendingar að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, eins og við höfum reynt. Hins vegar hafa afvegaleiddir jafnaðarmenn í Bretlandi, flokksbræður gamla ráðherrans, sett Íslendinga á bekk með hryðjuverkamönnum - og á þann vönd kyssi ég ekki, þótt gamli ráðherrann geri það.
Íslendingar eiga margra kosta völ og geta selt dýrmætar vörur sínar til annarra en ójafnaðarmannanna í Evrópusambandinu og byggt upp traust lýðræðisþjóðfélag jafnaðarmanna og jafnréttis á öllum sviðum á grunni sögu okkar og menningar, mannauðs og náttúruauðlinda sem seint þrýtur. Þá getur gamli ráðherrann áfram keypt föt frá útlöndum.
Og að lokum þetta: Íslenska þjóðin hefur ekki glatað trausti nágranna sinna á Norðulöndum, eins og gamli ráðherrann segir. Þar eigum við enn vini og þá vináttu skulum við rækja, eins og gamall samstarfsráðherra Norðurlanda hlýtur að skilja.
Bloggar | Breytt 6.7.2009 kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)