Einsýni, dómgirni og öfgar

Undarlegt var að lesa "skoðun" Óla Kristjáns Ármannssonar í Fréttablaðinu föstudag 25ta júlí. Er erfitt að átta sig á, hvað vakir fyrir mönnum að skrifa slíka grein og hvaða tilgangi slík grein á að þjóna? Hún bætir a.m.k. ekki umræðu um viðkvæmt og flókið deilumál þar sem einsýni, dómgirni og öfgar blasa alls staðar við.

Greinin hefst með gildishlöðnum yfirlýsingum um að “þjóðremba” og “oftrú á ágæti þess sem sprottið er upp í nærumhverfinu” sé með “leiðinlegri kenndum” og slíkur “rembingur” sé oftast talinn birtingarmynd ákveðinnar “minnimáttarkenndar” og skiljanlegt að hann “leggist fremur á smærri þjóðir”.

Síðar er talað um að "í þjóðrembingi sé kominn sá falski tónn” sem höfundur þykist merkja í “háværri baráttu” sem fram fer gegn fjárfestingu Magma Energy í íslenskum orkuiðnaði.

Upphaf greinarinnar lofar því ekki góðu og framhaldið er eftir því. Sagt er að einhverjum kunni að þykja “þægilegra” að “bölsótast” yfir kaupum Magma Energy fremur en horfast í augu við “ónýtan gjaldmiðil” og “viðvarandi gjaldeyrishöft, atvinnuleysi, fjármálafyrirtæki á brauðfótum, óleysta Icesave-deilu”.

Greininni lýkur með langri röð af gildishlöðnum yfirlýsingum og dómgirni þar sem segir að ósvarað sé spurningunni hvernig “hollvinir krónunnar” og “andstæðingar aukins Evrópusamstarfs” ætla að tryggja stöðuleika gjaldmiðils og “byggja upp þann trúverðugleika sem þarf til þess að í landinu verði lífskjör viðunandi. Vera má að það sé hluti einangrunarstefnunnar að berja frá landinu erlenda fjárfestingu. En þá þarf líka að segja það svo fólk átti sig að hverju er stefnt, fremur en að snúa umræðunni upp í einhverja öfugsnúna þjóðernishyggju þegar kemur að fjárfestingum og fyrirtækjarekstri.”

Við hvað ætli Óli Kristján Ármannsson eigi svo með orðunum “þjóðremba”, “þjóðrembingur” og “öfugsnúin þjóðernishyggja”. Er það að vilja koma í veg fyrir samninga sem eru lagalega vafasamir og óhagstæðir frá viðskiptasjónarmiði og geta bundið afnot af mikilverðri auðlind þjóðarinnar og orkunýtingu í 130 ár. Og það sem meira er: Samningurinn færir ekki eina einustu krónu inn í landið heldur er gamla aðferðin notuð að taka fé að láni innanlands með veði í nýtingunni auðlindarinnar. Þetta er bara "2007".


Beint lýðræði - ný stjórnarskrá

Eftir alræði stjórnmálaflokka heila öld tala menn um beint lýðræði þar sem ákveða skuli meginmál með þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt er talað um að fjórflokkurinn sé dauður og flokkakerfið hafi runnið sitt skeið á enda.

Þetta er enn eitt dæmi um öfgar í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Beint lýðræði krefst þess að kjósendur setji sig inn í öll mál, þekki allt, skilji allt og viti allt. Slíkt er óhugsandi af þekkingarfræðilegum ástæðum. Enginn getur þekkt allt heldur verða kjósendur að treysta kjörnum fulltrúum til þess að ráða fram úr málum samfélagsins. Í slíku felst eðlileg verkaskipting í þjóðfélagi sérfræði og sérþekkingar. Auk þess ber enginn ábyrgð í beinu lýðræði, en ábyrgð skiptir máli, ekki síst í stjórnmálum.

Til þess að auka ábyrgð þarf ábyrga stjórnmálaflokka sem ákveða - og bera ábyrgð á frambjóðendum, en skýla sér ekki á bak við prófkjör sem fundin voru upp til þess að láta kjósendur halda að þeir beri ábyrgð á frambjóðendum, prófkjör sem lauk með fjármálaspillingu þar sem hlaupandi strákar úr íþróttafélögum eða öðrum stjórnmálaflokkum réðu framboðslistum.

Stjórnmálaflokkar eiga að kynna stefnu sína og viðhorf á skýran og skiljanlegan hátt og fjölmiðlar eiga að veita flokkum og frambjóðendum aðhald á grundvelli þekkingar á lögmálum samfélagsins.

Hins vegar hefði átt að nota beint lýðræði til þess að setja landinu nýja stjórnarskrá, þar sem kjörið væri til sjálfstæðs stjórnlagaþings með landið allt sem eitt kjördæmi. En það fór sem fór. Alþingismenn treystu almenningi ekki til þess að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, enda er svo komið að almenningur treystir heldur ekki Alþingi og þá er líkt á komið með öllum.

En ný stjórnarskrá á að tryggja réttindi almennings, en ekki vald Alþingis, tryggja órkoraða virðingu fyrir hverjum manni - eða eins og segir í fyrstu grein stjórnarskrár Þýskalands: Die Würde des Menschen ist uantastbar – „virðing mannsins er ósnertanleg”. Það er megurinn málsins.


Stjórmálaógæfu Íslands verður allt að gagni

Enn einu sinni er almenningi sagt ósatt. Enn einu sinni eru íslenskir stjórnmálamenn ósammála um grundvallaratriði. Enn einu sinni geta fjölmiðlar landsins ekki greitt úr vandanum og skilið hismið frá kjarnanum. Enn einu sinni sitjum við eftir með aulasvip, óbragð í munni og sárt enni.

Útlendingar mega ekki samkvæmt lögum eignast auðlindir landsins. Útlendingar eiga heldur ekki að eignast auðlindir landsins eða ráðstöfunarrétt á þeim af því að þær eru lífsbjörg okkar. Þær eru því og eiga að vera í eigu þjóðarinnar. Svo einfalt er það.

Engu að síður lætur ríkisstjórn fólksins viðgangast að erlent fyrirtæki, kanadískt fyrirtæki, sem samkvæmt regluverki Evrópska efnahagssvæðisins má heldur ekki fjárfesta á Íslandi, stofnar skúffufyrirtæki í Svíþjóð til þess að fara á svig við lög landsins og reglur Evrópska efnahagssvæðisins. 

Þorsteinn Pálsson, sem stundum hefur virst hafa tilburði til þess að reyna að segja satt, gengur í lið með blekkingunni. Í Fréttablaðinu 17. þ.m. segir hann að í umræðunni um kaup á Magma á HS orku sé "stöðugt ruglað saman fjárfestingu í orkuframleiðslu og orkulindum". Þessi orð minna á bellibrögð kaþólskra manna á föstunni þegar þeir kölluðu kjöt vatnakarfa og átu af bestu lyst og án nokkurs samviskubits.

Hvað má til varnar verða vorum sóma? Er enginn endir á svikum og blekkingum íslenskra stjórnmálamanna og fjölmiðla? Verður stjórnmálaógæfu Íslands enn allt að gagni? Kunna menn enn ekki að skammast sín eftir öll svikin sem á undan eru gengin?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband