21.7.2012 | 09:34
Málrækt og fyrsti málfræðingurinn
Málrækt eins og gagnsætt orðið ber með sér felur í sér meðvitaða viðleitni að rækta mál sitt, vanda málfar sitt, tala og rita gott mál mál sem fellur að reglum tungunnar og hefur inntak og merkingu. Skiptar skoðanir eru um gildi málræktar. Sumir skella skollaeyrum við ábendingum okkar íhaldssamra málræktarmanna og kunnur danskur málfræðingur sagði fyrir aldarþriðjungi, að allt mál, sem skildist, væri rétt mál.
Ef til vill er sannleikskorn í þessari fullyrðingu. Hinu verður ekki móti mælt, að málrækt Íslendinga frá upphafi veldur því að íslensk tunga lifði af og að við getum lesið þúsund ára texta: Völuspá, Hávamál, vísur og kvæði Egils og Íslendingasögur, Eglu, Njálu, Hrafnkötlu, Gísla sögu og Laxdælu svo dæmi séu tekin, en af miklu er að taka þegar íslenskar miðaldabókmenntir eru annars vegar, að ekki sé talað um bókmenntir seinni alda: Hallgrím, Jónas, Einar Benediktsson, Þórberg, Halldór Laxnes, Stein og Snorra Hjartarson, en í þessu birtist samhengi íslenskra bókmennta vegna samhengis íslenskrar tungu.
Fyrsta málfræðiritgerðin, sem svo er nefnd, var rituð um miðja 12tu öld. Ritgerðin fjallar um íslenska hljóðfræði, stafsetningu og framburð og vandað málfar og heila hugsun, en í ritgerðinni stendur: Málróf er gefið mörgum en spekin fám, orð sem sannast í stjórnmálaumræðu á Íslandi undanfarin ár. Óþekktur höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar hefur verið lærður á evrópska vísu, kunnað grísku, latínu og hebresku, og þekkt það sem ritað hafði verið á Íslandi og í öðrum löndum fróðleik er þar innan lands hefur gerst eða þann annan er minnisamlegastur þykir, þó að annars staðar hafi heldur gerst eða lög setja menn á bækur hver þjóð á sína tungu, eins og hann segir.
Í lok ritgerðarinnar segir: Nú um þann mann, er rita vill eða nema [það sem] að voru máli [hefur verið] ritið, annað tveggja helgar þýðingar eða lög eður ættvísi eða svo hveregi er maður vill skynsamlega nytsemi á bók nema eður kenna, enda sé hann svo lítillátur í fróðleiksástinni, að hann vilji nema litla skynsemi heldur en öngva, þá er á meðal verður hinnar meiri, þá lesi hann þetta kapítúlum vandlega og bæti, sem í mörgum stöðum mun þurfa, og meti viðleitni mína en várkenni ókænsku, hafi stafróf þetta, er hér er áður ritað, uns hann fær það, er honum líkar betur.
Hugsanlegt er að þú, lesandi góður, skiljir ekki það sem þarna er skrifað við fyrsta lestur. En með orðum sínum er höfundur að hvetja alla til að nota stafsetningu ritgerðarinnar, þá sem á annað borð vilja rita að voru máli, nema eður kenna skynsamlega nytsemi á bók, enda sé hann [sem nema vill eða kenna] svo lítillátur í fróðleiksástinni, að hann vilji nema litla skynsemi heldur en öngva.
Höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar er með öðrum orðum að brýna fyrir fólki málrækt. Hann er því ekki alleinasta fyrsti íslenski málfræðingurinn heldur fyrsti íslenski málræktarmaðurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2012 | 10:31
Notendamiðað heilbrigðiskerfi - aldraðir og sjúkir utangarðs.
Ekki ætti að þurfa að benda á mikilvægi heilbrigðisþjónustu frá vöggu til grafar. Hins vegar hafa yfirvöld Alþingi, ríkisstjórn og yfirstjórn stærstu sjúkrastofnana landsins látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður: breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði og andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur. Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta, breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta.
Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breytta þarfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.
Hollvinasamtök líkardeilda hafa því ákveðið að halda ráðstefnu í Reykjavík í september um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Meginumræðuefni á ráðstefnunni er notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. Með því er átt við kerfi sem mótað er í samráði við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra svo og fulltrúa starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar en ekki eingöngu mótað af forstöðumönnum spítala og starfsfólki Heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins. Gerð er krafa um að Alþingi móti þegar í stað heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar með tilliti til þarfa notenda og á grundvelli samráðs við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra svo og fulltrúa starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar.
Fyrirmynd notendamiðaðrar heilbrigðisþjónustu er áætlun Norðmanna sem nefnd er Samhandlingsreformen og er byggð á lögum Stórþingsins frá því í fyrra. Er áætlunin í samræmi við nýja stefnu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Þessi skipan heilbrigðisþjónustu í Noregi tók gildi í upphafi árs og er ætlað að taka tillit til þarfa sjúklinga á öllum stigum og með aðkomu fulltrúa almennings þar í landi.
Til ráðstefnunnar verður boðið fulltrúum samtaka aðstandenda sjúkra og aldraðra, frjálsum samtökum um almannavarnir og heilbrigðis og velferðarmál, stéttarfélögum lækna og hjúkrunarfólks, fulltrúum sjúkrastofnana, heilsugæslustöðva og sveitarfélaga svo og alþingismönnum og ráðherrum.
Sjá Morgunblaðið 12. júlí 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)