23.8.2010 | 12:21
Sviksemi, siðleysi og glæpir
Sviksemi í viðskiptum, óheilindi í stjórnmálum og mannlegum samskiptum, rógur og illt umtal nafnlauss undirmálsfólks í opnum netfjölmiðlum eru sorgleg dæmi um siðleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi.
Þegar biskup íslensku þjóðkirkjunnar er barnaníðingur og ofbeldismaður gegn konum, er hins vegar fokið í flest skjól. Ég stend höggdofa, lamaður og yfirkominn af sorg. Vondir eru samfélagsglæpir viðskiptaþjófa, svikulla stjórnmálamanna og rógbera, en glæpir gegn varnarlausum einstaklingum eru þúsund sinnum verri. Ef núverandi biskup og hollir ráðgjafar hans geta ekki fundið leið út úr þessum skelfingum, er rétt að skilja að ríki og kirkju, leggja þjóðkirkjuna niður.
Næst á eftir fjölskyldunni er skólinn mikilsverðasta stofnun samfélagsins, fremri Alþingi og dómstólum. Kirkjan kæmi svo þarna einhvers staðar á eftir, ef hún væri stofnun sem almenningur treystir. En eftir síðustu atburði treystir almenningur ekki kirkjunni og þjónum hennar.
Til þess að skilja rétt frá röngu og gott frá illu þarf skólinn að styðja við heimilin og kenna okkur að virða mannréttindi: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá bjarga engu. Nýtt Ísland verður ekki til nema skilningur á grundvallaratriðum lýðræðislegrar siðfræði sé fyrir hendi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.8.2010 | 14:38
Hommar, lesbíur - og jafnrétti á öllum sviðum
Hommar og lesbíur á Íslandi telja réttindi sín hafi verið fyrir borð borin. Því er ekki hægt að neita. Hommar og lesbíur á Íslandi segja litið hafi verið niður á samkynhneigt fólk. Því er ekki hægt að neita. Hommar og lesbíur á Íslandi hafa hins vegar heilan áratug farið kröfugöngur til þess að berjast fyrir réttindum sínum, mannréttindum sínum, eins og sagt er, og barátta þeirra hefur borið árangur þótt enn eigi þau langt í land, að eign sögn.
Öllum má ljóst vera að árangur af baráttu homma og lesbía hefur borið ótrúlegan árangur. Ber að óska þeim til hamingju með árangurinn. Sjálfsagt er að krefjast réttar síns, krefjast þess að aðrir sýni okkur virðingu, ekki síst þegar um er að ræða friðsamlega, fallega og litskrúðuga kröfugöngu með dansi og söng, enda margar listakonur og margir listamenn í hópi homma og lesbía.
En það er litið niður á fleira fólk en homma og lesbíur. Það er fleira fólk sem vill tryggja réttindi sín og óskar eftir að því sé sýnd virðing og skilningur. Í þessum hópi er gamalt fólk, fatlað fólk, þroskaheftir og ekki síst fólk með geðrænar truflanir, jafnvel svo miklar ranghugmyndir að það getur naumast sýnt sig út á meðal hinna sem talin eru heilbrigð, en öll erum við að vísu fötluð hvert á okkar hátt.
Er ekki kominn tími til að hæfileikaríkir hommar og lesbíur sameinist okkur hinum öllum sem eru að leita eftir skilningi og jafnrétti á öllum sviðum og alls staðar? Er ekki ástæða til að gleðigangan á næsta ári verði ganga til þess að krefjast jafnréttis og mannréttinda á öllum sviðum og alls staðar? Mannréttindi og jafnrétti á öllum sviðum er krafa samtímans. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, allir eiga að fá á að lifa í samræmi við óskir sínar og þarfir, ef það brýtur ekki gegn frelsi annarra. Þetta er krafa samtímans.
Sennilega er engum betur treystandi en hommum og lesbíum til að berjast fyrir jafnrétti á öllum sviðum og alls staðar. Hommum og lesbíum hefur tekist að komast út úr myrkrinu út í hundrað þúsund liti í fjölbreyttu samfélagi jafningja á öllum sviðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.8.2010 | 13:06
Peningar, kynlíf og íslenskt gamanmál
Þegar allt snýst um peninga og kynlíf, er gaman að einhver skrifar um íslenskt mál, jafnvel þótt skoðanirnar séu skrýtnar. Hins vegar er erfitt fyrir mann eins og mig, sem gerir ekki að gamni sínu nema við einstaka vini, að skiptast á skoðunum við mann sem hefur atvinnu af því að gera að gamni sínu og vera skemmtilegur.
Skrif Davíðs Þórs í Fréttablaðinu um norðlenska flámælið eru skemmtilega skrýtin og ef hann hefur ætlað sér að vera fyndinn, tekst honum það með þessum aulaskap sem einkennir íslenska fyndni, ekki síst sjónvarpsauglýsingar síðustu misseri og barnatíma sjónvarpsins og margt annað barnaefni sem miðar að því að gera börn að skrípum, enda grípa mörg íslensk börn til skrípisláta ef á þau er yrt.
Okkur málverndarmönnum er hins vegar vandi á höndum þegar kemur að því að dæma rétt mál og rangt, gott mál og vont, fallegt mál og ljótt eða hefði ég heldur átt að segja: fagurt mál og ófagurt. Ástæðan er einkum sú að skiptar skoðanir eru um, hvernig staðið skal að málrækt og málvernd. Sumir segja, að allt sé rétt mál sem skilst. Aðrir segja þýðingarlaust að ætla að breyta þróun tungumála. Svo er hópur sem engu vill breyta.
Við hófsamir málræktarmenn miðum við, að orð, beygingar, setningaskipun og framburður sé í samræmi við reglur málsins, málfræðina, og málvenju sem skapast hefur á þeim grunni. Til þess að geta dæmt um þetta verða menn að hafa þekkingu á greinum málfræðinnar, s.s. orðmyndunarfræði, beygingarfræði, setningafræði og hljóðfræði. Einnig skiptir máli að hafa kynnst því sem best hefur verið skrifað á íslensku, t.d. Eddukvæðum, dróttkvæðum, Íslendingasögum, Sturlungu, ljóðum góðskálda og skáldverkum fremstu rithöfunda frá upphafi til okkar daga.
Að mínum dómi hefur málrækt farið aftur undanfarna áratugi. Ástæður eru margar, s.s. hrá erlend máláhrif, þekkingarleysi þeirra sem nota málið í fjölmiðlum - bæði útvarpi, sjónvarpi og blöðum - áhugaleysi margra á því að vanda mál sitt, tískufyrirbæri eins og tafs, endurtekningar og erlendar slettur, minni lestur góðra bóka, ónóg menntun kennara í grunn- og framhaldsskólum og áhugaleysi háskóla á að leggja rækt við íslenska tungu.
Enda þótt ég fullyrði að málrækt hafi farið aftur undanfarna áratugi, hefur aldrei verið skrifað og talað betra mál en síðustu hundrað ár. Þetta kann að þykja mótsögn en svo er ekki. Ástæðan er einfaldlega sú, að nú eru að skapast stéttamállýskur í stað landfræðilegra mállýskna. Í stað norðlensku er að myndast útvarpsmál, unglinga- og barnamál, götumál, mál presta og rithöfunda, mál skemmtikrafta eða með öðrum orðum mál lærða og leik(a)ra.
En svo ég snúi aftur að upphafinu, þá fer Davíð Þór villur vegar í skrifum sínum um norðlenska flámælið. Rekur þar sig hvað á annars horn. Ég nefni þrennt. Í fyrsta lagi er orðið flámæli notað um breytingar á sérhljóðum, ekki samhljóðum, þ.e.a.s. þegar sérhljóð verða opnari eða falla saman. Frændur mínir á Mjóafirði sögðu skEr bæði um mjólkurmatinn skyr og steina og björg - sker - sem stóðu upp úr sjónum og fyrir austan var lengi spElað á spEl, einkum vist og kasína.
Í öðru lagi heitir norðlenska flámælið raddaður harðhljóðsframburður í málfræði. Þessi framburður er upphaflegur í málinu og barst til landsins með máli landsnámsmanna, norskunni, en íslenska er upphaflega mál norskra innflytjenda.
Í þriðja lagi er íslensk stafsetning ekki framburðarstafsetning og hefur aldrei verið. Staða eða réttmæti raddaða harðhljóðsframburðarins á Norðurlandi ræðst því ekki af stafsetningu heldur af því að harðhljóðsframburður er upphaflegri en sunnlenska linmælið.
Fróðlegt verður að sjá til hvaða köpuryrða Davíð Þór grípur næst í gamanmálum sínum um íslenska tungu til þess að ýta við okkur gömlum málverndarmönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)