Samstaða um nýja stjórnarskrá

Björn Bjarnason ræðir í netpistli í gær um frumvarp stjórnlagaráðs Alþingis til stjórnskipunarlaga og segir, að enn sé ekki „tímabært fyrir aðra en sérstaka áhugamenn um störf stjórnlagaráðs að kynna sér tillögur þess að nýrri stjórnarskrá. Deilur um meðferð tillagnanna hafa verið og verða í sviðsljósinu frekar efni málsins.”

Hvers vegna er ekki tímabært fyrir aðra en sérstaka áhugamenn um störf stjórnlagaráðs að kynna sér tillögur þess að nýrri stjórnarskrá? Frumvarp stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga hlýtur að vekja áhuga allra sem hafa áhuga á þróun lýðræðis eða er Björn Bjarnason að reyna að sundra þjóðinni í þessu mikilsverða máli til að tryggja hagsmuni gamla flokksræðisins? Hvers vegna fullyrðir Björn Bjarnason að deilur um meðferð tillagnanna hafi verið og verði í sviðsljósinu frekar en efni málsins? Þessi fullyrðing er í fyrsta lagi röng eins og þúsundir efnislegra athugasemda við störf stjórnlagaráðs sýna. Í öðru lagi væri sorglegt fyrir lýðræðissinna eins og Björn Bjarnson, að meðferð tillagna að nýrri stjórnarskrá, mikilsverðasta verkefnis íslenskra stjórnmála, verði í sviðsljósinu, ekki efni þess.

Og Björn Bjarnason heldur áfram og segir: „Sumir stjórnlagaráðsliðar láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en tillögur þeirra séu lagðar beint fyrir kjósendur til ákvörðunar. Þeir hafi unnið frábært starf og náð samstöðu um niðurstöðuna og þess vegna eigi allir aðrir að geta sætt sig við hana. Á alþingi eru menn annarrar skoðunar.”

Án efa telja flestir – ef ekki allir fulltrúar í stjórnlagaráði Alþingis, sem Björn Bjarnason kallar stjórnlagaráðsliða, að þeir hafi unnið frábært starf, sem þeir og gerðu að mínum dómi og náðu auk þess samstöðu um erfið ágreiningsmál. Þetta er dæmi um frábært starf, lýðræðisleg vinnubrögð og málefnalega afstöðu, því að allt snýst líf okkar um að ná samstöðu og stjórnmál eru „list hins mögulega”.

Hvers vegna þarf í málefnalegri umræðu, sem ég geri ráð fyrir að Björn Bjarnason sé að reyna að efna til, að draga fram þessa afstöðu örfárra fulltrúa stjórnlagaráðs. Að sjálfsögðu fjallar Alþingi um frumvarp stjórnlagaráðs, hvað sem líður afstöðu einstaka stjórnlagaráðsliða, og vafalaust eru sumir alþingismenn annarrar skoðunar. Það er eðlilegt í lýðræðislandi þar sem ekki er amast við ólíkum skoðunum og ekki krafist pólitísks rétttrúnaðar. Hins vegar benda líkur til að meirihluti á Alþingi sé hlynntur grundvallaratriðum í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Björn Bjarnason klikkir svo út með, að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn en ekki stjórnlagaráð. Eins og sumir aðrir atvinnustjórnmálamenn gleymir Björn Bjarnason því, að löggjafarþing lýðræðisríkja – þar á meðal Alþingi Íslendinga – þiggur vald sitt frá þjóðinni, enda er slíkt tekið fram í stjórnarskrám margra lýðræðisríkja og í frumvarpi stjórnlagaráðs Alþingis segir: Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar. Öll mikilvæg mál á að bera undir þjóðina eins og hið nýja lýðræði gerir ráð fyrir. Það er þetta sem er grundvöllur lýðræðis nýrrar aldar.

Það er þetta sem stefnt er að með nýrri stjórnarskrá: að efla lýðræði í landinu, auka áhrif kjósenda á kostnað atvinnustjórnmálamanna – auðvelda aðkomu almennings að stjórn landsins og koma í veg fyrir óheft flokksræði sem ríkt hefur á Íslandi um áratuga skeið. Þetta er lýðræði – þetta er hið nýja lýðræði.

Að sjálfsögðu fjallar Alþingi um frumvarp stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga. En það er þjóðin sem ræður – og það er þjóðin sem á að ráða. Hið endanlega lýðræðislega vald er hjá henni. Hins vegar þarf víðtæk samstaða að nást um nýja stjórnarskrá – ný grundvallarlög. Að því ber öllum frjálslyndum lýðræðisöflum í landinu að vinna með málefnalegri umræðu.


Íslensk umræðuhefð og nauðganir

Ofbeldi er forkastanlegt. Ofbeldi gegn börnum er ljótast af öllu ljótu. Nauðganir á Íslandi hljóta að vekja siðað fólk til umhugsunar. Hver er rót þessa ofbeldis?

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum bendir á - eftir ógeðslega Þjóðhátíð í Eyjum - að finna þurfi rót nauðgana og vísar til heimila og skóla, mikilverðustu stofnana samfélagsins. Sennilegt er að flestir nauðgarar séu skemmdir, siðblindir og geðfatlaðir. Etv er uppeldi um að kenna - eða öllu heldur: nauðgarar hafa ekki hlotið neitt uppeldi. Nauðgara þarf að senda í betrunarhús - þar sem fagfólk með þekkingu og skilning leiðir nauðgurum  fyrir sjónir villu síns vegar.

Englendingar segja það þurfi heilt þorp að ala fólk upp. Í raun þarf heila þjóð að ala fólk upp. Ljóst er að vestrænar þjóðir geta ekki aukið eyðslu meira en verða að sætta sig við kjör sín - og leita leiða til að bæta úr ofbeldi gagnvart fátæku fólki og sveltandi börnum.

Í stað þess að einblína á aukna neyslu í skjóli skuldasöfnunar - til að auka gróða auðmanna - eigum við að einbeita okkur að því að bæta siðferði, auka siðvit og bæta líðan fólks. Fyrsta skrefið er að auka kennslu í hagnýtri siðfræði í skólum - kennslu í mannasiðum - til þess að vinna bug á öllu ofbeldi, ekki síst ofbeldi gegn konum og börnum.

Nauðganir eru tíðari á Íslandi en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Nauðganir á konum eru hins vegar af sama toga og ofbeldi í íslenskri umræðuhefð. Ofbeldi í orðum verður líka að linna.



Íslensk umræðuhefð

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar eftirtektarverðan pistil í MBL í dag, sem hún nefnir Mannorðsmorð dagsins og fjallar þar um íslenska þjóðfélagsumræðu, sem hún segir ekki líklega til að gleðja þann, sem með henni fylgist, því að alltof margir telji sig hafa leyfi til að segja hvað sem er um andstæðinga sína.

Þessi orð Kolbrúnar eru orð að sönnu. Ef til vill er ein helsta ástæðan fyrir vanda okkar Íslendinga, bæði í stjórnmálum og persónulegu lífi - og viðskiptum, að við getum ekki - kunnum ekki að tala saman eða skiptast á skoðunum án þess að nota tilfinningahlaðin orð og svívirða viðmælandann - andstæðinginn.

 

 


Áhrif bernskunnar á líf okkar

Þessar vikurnar er ég að þýða bók eftir norskan félagsfræðing, dr Kari Killén. Bókin heitir "Barndommen varer i generasjoner" – sem mætti þýða: Áhrif bernskunnar á líf okkar – en bókin fjallar um forvarnir. Kari Killén segir, að náið samstarf við foreldra og börn hafi aukið skilning sinn á mikilsverðasta og mest krefjandi hlutverki í lífinu – foreldrahlutverkinu.

Ástæður þess að Kari Killén helgaði sig forvörnum voru alvarleg geðræn vandamál og sársaukinn, sem hún kynntist í starfi sínu og börn máttu lifa við, og hún segir: „Þessi áhrif urðu sífellt sterkari við margra ára starf, bæði á geðdeildum fyrir fullorðna, þar sem ég kynntist mörgum fullorðnum sjúklingum sem höfðu orðið fyrir sálrænum áföllum sem börn, og á barnageðdeildum þar sem ég komst að raun um að óleyst vandamál foreldranna höfðu flust yfir á börnin.”


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband