28.8.2012 | 15:34
Málið sem talað er á Akureyri
Akureyri hin fagra er 150 ára um þessar mundir. Til er sögn um að Akureyringar hafi áður og fyrrum talað dönsku á sunnudögum. Fyrir mörgum árum setti ég fram þá tilgátu, að ástæðan að baki sögninni væri sú, að dönsku kaupmennirnir á Akureyri héldu guðsþjónustur á heimilum sínum áður en kirkjan í Fjörunni var vígð 1863. Við þessar guðsþjónustur er vitað að lesið var úr dönsku biblíunni og sungnir danskir sálmar. Aðkomumenn, sem á hlýddu, hafi síðan sagt frá því, að Akureyringar töluðu dönsku á sunnudögum.
Akureyringar tala ekki lengur dönsku á sunnudögum né heldur aðra daga. En hvaða mál tala þeir á 150 ára afmæli kaupstaðarins? Þegar undarlega er spurt, verður erfitt um svör. Auðvitað tala flestir Akureyringar íslensku bæði á sunnudögum og aðra daga. Hins vegar er fólk frá 60 þjóðlöndum búsett á Akureyri, flestir frá Póllandi. Á Akureyri eru því töluð um 60 tungumál alla daga ársins.
Margir Akureyringar tala hins vegar norðlensku, sem svo er kölluð, þ.e.a.s. bera fram harðhljóðin /p, t, k/ í orðum eins og api, gata, taka, þegar í sunnlensku eru borin fram linhljóðin /b, d, g/ /abi/, /gada/ og /taga/. Auk þess nota sumir Akureyringar raddaðan framburð á undan þessum þremur harðhljóðum og segja /haMpa/ hampa, /meNNtun/ menntun og /eiNkunn/ einkunn. Þessi tvö framburðareinkenni eru talin lýsa helstu einkennum norðlensku, þótt tína mætti fleiri til.
Á árunum 1941 til 1943, kannaði dr. Björn Guðfinnsson prófessor, einn fremsti málfræðingur Íslendinga, framburð skólabarna víðs vegar um land, m.a. framburð 175 skólabarna á Akureyri. Aðeins 42 börn eða 24% höfðu raddaðan harðhljóðsframburð; 35 börn eða 20% höfðu óraddaðan framburð á undan /p, t, k/ og 98 eða 56% höfðu blandaðan framburð, þ.e. báru stundum fram raddað hljóð á undan harðhljóði og stundum ekki.
Björn Guðfinnsson kannaði einnig framburð 305 skólabarna í Eyjafjarðarsýslu með tilliti til þessa raddaða harðhljóðsframburðar. Af þeim höfðu 255 skólabörn eða tæp 74% raddaðan framburð, aðeins 8 eða 2.6% óraddaðan framburð og 72 börn eða 23.6% höfðu bandaðan framburð. Af 11 skólabörnum í Skriðuhreppi höfðu öll raddaðan framburð og af 37 börnum í Ólafsfirði höfðu 35 raddaðan framburð. Til fróðleiks má geta þess að á sama tíma höfðu einungis fjögur börn af 2200 í Reykjavík raddaðan harðhljóðsframburð eða 0.2%.
Framburður hefur breyst mikið á þessum 70 árum. Norðlenskan er á hröðu undanhaldi, eins og önnur málýskueinkenni, og óraddaður eða blandaður framburður er að vera einráður á Akureyri, eins og annars staðar á landinu. En Akureyringar tala enn íslensku og ekki dönsku ekki einu sinni á sunnudögum.
22.8.2012 | 13:03
Með lögum skal land byggja
Undarlegt var að heyra Pétur Blöndal, fulltrúa á löggjafarþingi landsins, halda því fram í gær, að lög kæmu ekki í veg fyrir okulánastarfsemi í landinu, heldur ætti að kenna fólki fjármálalæsi til þess að geta forðast svikalán smálánastofnana. Ekki sagði alþingismaðurinn hver ætti að kenna fjármálalæsi og því síður hvað fælist í orðinu.
Með því að leyfa sér að draga ályktanir af þessari undarlegu skoðun alþingismannsins - sem auðvitað ætti ekki að gera - þyrfti ekki að setja nein lög í landinu, heldur aðeins að kenna fólki guðsótta og góða siði, sem að sjálfsögðu er rétt að gera: fyrst á heimilunum og í fjölskyldunni, síðan á leikskólum og í grunnskólum og áfram í framhaldsskólum, eins og raunar gert er og gert hefur verið lengi og verður gert áfram, en hefur ekki dugað til.
En frjálshyggja Péturs Blöndals og annarra hans nóta hefur löngu riðið sér að fullu. Flestir hafa gert sér það ljóst, en meðan enn eru menn sem halda, að markaðurinn geti bjargað öllu að ekki sé talað um "frjálsa samkeppni" - sem í raun er ekki til - verður að setja lög, enda er það upphaf þinghalds og þjóðarsáttar í landinu að með lögum skal land byggja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2012 | 12:53
Með lögum skal land byggja
Undarlegt var að heyra Pétur Blöndal, fulltrúa á löggjafarþingi landsins, halda því fram í gær, að lög kæmu ekki í veg fyrir okulánastarfsemi í landinu, heldur ætti að kenna fólki fjármálalæsi til þess að geta forðast svikalán smálánastofnana. Ekki sagði alþingismaðurinn hver ætti að kenna fjármálalæsi og því síður hvað fælist í orðinu.
Með því að leyfa sér að draga ályktanir af þessari undarlegu skoðun alþingismannsins - sem auðvitað ætti ekki að gera - þyrfti ekki að setja nein lög í landinu, heldur aðeins að kenna fólki guðsótta og góða siði, sem að sjálfsögðu er rétt að gera: fyrst á heimilunum og í fjölskyldunni, síðan á leikskólum og í grunnskólum og áfram í framhaldsskólum, eins og raunar gert er og gert hefur verið lengi og verður gert áfram, en hefur ekki dugað til.
En frjálshyggja Péturs Blöndals og annarra hans nóta hefur löngu riðið sér að fullu. Flestir hafa gert sér það ljóst, en meðan enn eru menn sem halda, að markaðurinn geti bjargað öllu að ekki sé talað um "frjálsa samkeppni" - sem í raun er ekki til - verður að setja lög, enda er það upphaf þinghalds og þjóðarsáttar í landinu að með lögum skal land byggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2012 | 10:07
Ekki er öll vitleysan eins

Seðlabankastjóri sagði frá því á ársfundi Seðlabankans í mars, að bankinn undirbyggi útgáfu nýs peningaseðils. Ákvæðisverð seðilsins yrði tíu þúsund krónur. Mun þá átt við verðgildi hans. Ástæðan er verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð eða með öðrum orðum veðbólga og sukk samfélagsins. Útlit seðilsins verður svipað og fyrri seðla, en myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Skartar seðillinn einnig lóunni, að því er seðlabankastjóri sagði.
Fróðlegt væri að vita hver fengið hefur þessa furðulegu hugmynd að skreyta seðilinn myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Hvers á Jónas Hallgrímsson að gjalda? Hann var einn fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og fyrsta íslenska nútímaskáld þjóðarinnar, listaskáldið góða og ástmögur þjóðarinnar? Líf hans og starf tengdist ekki peningum heldur öðrum verðmætum, eins og þeir vita sem eitthvað vita um Jónas.
Hvernig heilvita mönnum kemur til hugar að tengja myndefni á stærsta peningaseðli lýðveldisins Jónasi Hallgrímssyni og lóunni, er óskiljanlegt. Jónas Hallgrímsson var fátækur vísindamaður og skáld og hafi ef einhver fugl verið fuglinn hans var það þrösturinn: Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Fyrir hönd Jónasar Hallgrímssonar er hér með krafist lögbanns á útgáfu tíu þúsund króna peningaseðils Seðlabankans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)