Verður heimurinn samur og áður

Heimur okkar lifir nú fordæmalausa tíma, að því sagt er. Vafalaust er það rétt, að við sem byggjum þessa jörð, eigum eftir að búa við COVID veiruna og afleiðingar hennar um ókomin ár. En plágan er hin eina sem náð hefur til heimsins alls. Plágur af ýmsu tagi eru hins vegar þekktar frá örófi alda. Er 251 plága skráð í heimsfaraldursbók Wikipedia. Tvær miklar plágur hafa geisað á Íslandi – og víða annars staðar: Svarti dauði og Stóra bóla.

Svarti dauði

Svarti dauði var skæð farsótt er barst til Íslands 1402.  Hálfri öld fyrr, á árunum 1348 til 1350, hafði pestin gengið um alla Evrópu, en barst ekki til Íslands fyrr vegna þess að engin skip komu til landsins þau tvö ár sem hún geisaði á Norðurlöndum og á Englandi. Ekki er vitað hversu margir dóu í Svarta dauða á Íslandi, en flestir telja allt að tveir þriðju allra landsmanna hafi fallið í valinn. Heilar ættir dóu út og mikil tilfærsla varð á eignum. Sumir erfðu stóreignir eftir fjarskylda ættingja og stundum gat verið erfitt að finna réttu erfingjana. Kirkjan eignaðist einnig fjölda jarða því að fólk hét á kirkjur og dýrlinga og gaf stórfé sér til sáluhjálpar.

Pestin er talin upprunnin í Mið Asíu og barst þaðan með kaupmönnum vestur á bóginn. Giskað hefur verið á að íbúar Evrópu hafi fyrir plágu verið um 80 milljónir og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast á 300 árum. Sé sú tilgáta rétt að þriðjungur þeirra hafi látist í plágunni er heildarfjöldi látinna 27 milljónir. Þetta voru því fordæmalausir tímar.

Stóra bóla

Stóra bóla var mannskæð bólusótt er gekk um Ísland á árunum 1707 til 1709. Samkvæmt manntalinu 1703 voru Íslendingar 50.358. Talið er um 18 þúsund manns hafi látist úr bólunni - eða nær þriðjungur landsmanna. Hafi mannfjöldi við lok Stóru bólu árið 1709 verið um 34 þúsund. Þessi manndauði hafði mikil áhrif á efnahag og afkomu þjóðarinnar sem aldrei hefur orðið fámennari frá landnámsöld. Náði fólksfjöldi ekki 50 þúsundum aftur fyrr en um 1830. Jarðir lögðust í eyði og hvorki var unnt að stunda útgerð né búskap eins og áður því að mikill skortur var á vinnufólki. Eignatilfærsla var víða mikil og má líkja áhrifum Stóru bólu við afleiðingar Svarta dauða árið 1402, sem eru mannskæðustu sóttir sem gengið hafa á landinu.

Stórabóla hafði mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag. Mannfallið varð einna mest meðal ungs fólks.  Varð því skortur á vinnuafli auk þess sem fólki á barnseignaraldri fækkaði mikið og mannfjölgun því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust í eyði og skortur var á vinnufólki. Á árunum fyrir bóluna höfðu sprottið upp þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína á sjósókn, en mikill afturkippur varð við bóluna. Margt breyttist því á þessum fordæmalausu tímum.

Aðrar skelfingar

Í umræðunni um COVID-19 nú hafa aðrar hörmungar, sem lengi hafa fylgt mannkyni, fallið í skuggann eða jafnvel gleymst: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan. Vonandi tekst okkur að takast á við veiruna skelfilegu. Til þess verðum við breyta hegðan okkar. Að auki verðum við að gefa meiri gaum hörmungum sem fallið í skuggann eða jafnvel gleymst: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan. Þetta er verkefnið sem við blasir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband