30.9.2011 | 09:10
Stjórnmál og listir
Stundum hefur mér orðið það á að bera saman stjórnmál og listir, einkum stjórnmál og tónlist. Það er unun að horfa á agaða hljóðfæraleikara sem hvergi slá feilnótu undir voldugri stjórn hljómsveitarstjóra. Að baki býr verk tónskálds, agaðs snillings, þótt hljómar geti stundum orðið stríðir, en við hrífumst af og dáumst að.
Þessu er ólíkt farið um stjórnmál, list hins mögulega. Flestir leika falskt og fáir kunna á hljóðfærið. Margir góðir menn, karlar og konur, forðast stjórnmál og fyrirlíta. En stjórnmál eru nauðsynleg ekki síður en tónlist. Stjórnmál snúast ekki um aga en hagsmunabaráttu og baráttu fyrir því að tryggja jöfnuð og réttlæti fyrir alla. Hið síðara gleymist hins vegar æði oft.
Sven Auken, fyrrum formaður danskra sósíalista, sagði eitt sinn, að jafnaðarmanni liði ekki vel fyrr en öllum liði vel. Þetta er kristilegt viðhorf sem fleiri ættu að tileinka sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 10:42
Hrun íslenskra stjórnmála
Meirihluti þjóðarinnar telur traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð skipta mestu í mannlegu samfélagi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum falls bankanna segir hins vegar, að tortryggni og samstarfs- erfiðleikar hafi sett mark á samskipti stjórnmálamanna árin fyrir fallið og fólk með vafasama fjármálafortíð hafi haft sterka hvata til að komast yfir bankastofnanir og nýta sér þær í eigin þágu, eins og segir í skýrslunni.
Þrjú ár eru liðin frá hruni bankanna. Íslenskt stjórnmálakerfi hrundi um leið og bankarnir eða var það ef til vill þá þegar hrunið? Það varð því ekki aðeins kreppa í fjármálum þjóðarinnar heldur einnig kreppa í stjórnmálum Íslendinga. Það væri nú sök sér, en ofan á þetta bætist að ekkert hefur breyst. Tortryggni og samstarfserfiðleikar setja enn mark sitt á samskipti stjórnmálamanna og fólk með vafasama fjármálafortíð er enn að reyna að komast yfir fjármálastofnanir til þess að nýta sér þær í eigin þágu.
Ýmsir hafa trúað á visku mannanna. Það gerði Steinar bóndi undan Steinahlíðum í Paradísarheimt. Runólfur prestur svaraði bónda hins vegar, að ekki miklaðist honum, hve langt viska manna hefði náð að leiða þá - enda væri hún ekki stór. Að hinu dáist ég, hve lángt fáviska þeirra og jafnvel sérdeilis heimska þeirra, að ég nú segi ekki fullkomin blinda þeirra hefur náð að lyfta þeim. Ber ég mig að fylgja fávisku manna að öðru jöfnu, því hún hefur leitt þá leingra en viskan.
Við gamlir bændur og barnakennarar að austan höldum hins vegar áfram að trúa á visku manna og trúum því að þannig hafi átt að skilja háð Halldórs Laxness. Ástæða bankahrunsins var hvorki viska né heimska heldur siðleysi, ósvífni og græðgi. Til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og til þess að bæta ástand íslenskra stjórnmála og þjóðmála þarf að auka kennslu í siðfræði og heimspeki efla siðvit þjóðarinnar.
Þar verða tvær mikilsverðustu stofnanir samfélagsins að koma til: heimilin og skólinn. Til þess að auka traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð þurfa feður og mæður, kennarar, skólastjórar og aðrir uppalendur að leggjast á eitt sýna vilja sinn í verki eins og Alma Jenný Guðmundsdóttir móðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2011 | 22:56
Leiðinlegar veðurfréttir
Veðurfréttir hafa lengi verið leiðinlegar í útvarpinu, einkum vegna þess hversu veðrið á Íslandi er leiðinlegt. Nú bætist við þetta leiðindaveður leiðinlegir veðurfræðingar - einkum í sjónvarpi RÚV. Þar er fallegasti veðurfræðingurinn leiðinlegastur, þótt hún sé búin eins og á ball, og talar barnamál við okkur heldra fólkið, um að landið okkar og að hjá okkur á landinu okkar megi reikna með og gera ráð fyrir að reikna með að veðrið á landinu okkar verði leiðinlegt.
Sjónvarpsáhorfendur vita, að um er að ræða spá - spá um veður, veðurspá. Því er óþarfi að segja tíu sinnum, að reiknað sé með að veðrið verði leiðinlegt. Veðurstofa Íslands þarf að senda veðurfræðinga sína til Danmerkur. Þar eru ekki aðeins fallegri veðurfræðingar heldur miklu betra veður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2011 | 22:15
Skítlegt eðli íslenskra stjórnmála
Eins og áhugasamir lesendur vita, er kosið til þings í Danmörku í dag. Fyrir tveimur dögum voru sveitarstjórnarkosningar í Noregi og á mánudag kom Alþingi Íslendinga, elsta löggjafarþing Evrópu, saman til þess að ræða aðkallandi umbætur.
Fróðlegt er að bera saman yfirvegaða umræðu í þessum tveimur menningarlöndum, Danmörku og Noregi, og strákslega umræðu á Íslandi þar sem núverandi forseti talaði sem alþingismaður 1993 um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra en var í gær kallaður forsetaræfill úr sama ræðustól.
Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár megum við - sauðsvartur almúginn - hlusta á alþingismenn kýta um einskisverða hluti og þess á milli kasta skít í andstæðingana. Hefðum við götustrákar á Akureyri um 1950 mátt vera hreyknir af þessu orðbragði.
Orðræða íslenskra stjórnmála er ólík því sem gerist í Danmörku og Noregi. Þar er að sjálfsögðu tekist á og menn eru sannarlega ekki sammála, en nota ekki orðbragð götustráka en ræða um ágreiningsmál af hlutlægni og virðingu fyrir andstæðingunum.
Einnig hefði verið fróðlegt að fylgjast með skýringarþáttum í danska og norska sjónvarpinu. Þar búa stjórnendur yfir þekkingu, spyrja skynsamlegra spurninga og eru vel undir verk sitt búnir og lenda aldrei í karpi við viðmælendur sína eða ásaka þá um ósannindi, eins og tíðast í íslensku sjónvarpi.
Það hefur vakið athygli mína, að gamlir stjórnmálamenn, sem skrifa um stjórnmál í blöð, eru enn fastir í dómgirni og bundnir af ósiðum íslenskrar stjórnmálaumræðu. Styrmir, Ragnar Arnalds, Þorsteinn Pálsson, Eiður, Svavar Gestsson og Jón Baldvin hefðu getað lagt heilbrigðri umræðu lið og upplýst okkur sauðsvartan almúgann með yfirvegaðri umræðu og byggt á þekkingu og áratuga langri reynslu.
Ætla hefði mátt, að fullþroska menn, sem gegnt hafa stöfum alþingismanna, ráðherra, formanna stjórnmálaflokka, blaðamanna og verið ritstjórar og sendiherrar hefðu getað lagt lið upplýstri umræðu og stuðlað að heilbrigði skoðanamyndun.
Því miður. Þeir eru enn við sama heygarðshornið og slá sjálfa sig til riddara eða reyna að slá pólitískar keilur með hálfsannleika og dómgirni. Þetta er skítlegt eðli íslenskra stjórnmála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2011 | 18:40
Harpa, fegursta tónlistarhús heims

Harpa, heimili Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitarinnar, er eitt fegursta tónlistarhús heims og fegurst nýrra tónlistar- og óperuhúsa í Evrópu. Eina tónlistarhús heimsins, sem mér þykir fegurra, er óperan í Sidney frá 1957 eftir Utzon. En það verður að sýna Hörpu virðingu og gæta þess að það fái notið sín. Hún nýtur sín ekki frá Lækjartorgi, eins og myndin sýnir, þar sem auglýsingaskilti skyggja á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2011 | 12:37
Íslensk umræðuhefð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2011 | 12:27
Enn verið að hengja bakara fyrir smið
Síðustu misseri hafa margir mánudagar verið svartir. Þetta er einn af þeim, þótt sól skíni í heiði hér syðra. Landsdómur var í morgun settur til að rétta yfir Geir H. Haarde. Vera kann að Geir hefði getað gert betur þótt hann væri allur af vilja gerður. En það réð enginn einn maður við þau ósköp sem yfir dundu - þessar hamfarir - og þar voru aðrir sekari.
Hér er um pólitísk réttarhöld að ræða, ekki á sama hátt og í Kína eða Rússlandi, en það er verið að gæta hagmuna myrkra afla í þjóðfélaginu, sefa réttmæta reiði almennings og breiða yfir mistök margra. Ef eitthvert vit væri í þessari vitleysu ættu allir, sem sátu á Alþingi í október 2008, að vera fyrir dómi. En það voru aðir sekir í þessu máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2011 | 17:57
Ný stjórnarskrá – ný grundvallarlög
Stjórnlagaráð Alþingis lagði í fyrra mánuði fram frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga sem hlýtur að vekja athygli allra sem áhuga hafa á þróun lýðræðis og mannréttindum. Stjórnlagaráð Alþingis vann á stuttum tíma gott starf og náði samstöðu um erfið ágreiningsmál.
Skiptar skoðanir eru um frumvarpið. Það er eðlilegt í lýðræðislandi þar sem ekki er amast við ólíkum skoðunum og ekki krafist pólitísks rétttrúnaðar. Vonandi kemst Alþingi að farsælli niðurstöðu á grundvelli frumvarpsins sem byggt er á gildandi stjórnarskrá og tekur mið af afstöðu þjóðfundar sem þúsund manns af öllu landinu og á öllum aldri sátu í lok síðasta árs, enda benda líkur til að meirihluti alþingismanna sé hlynntur grundvallaratriðum frumvarpsins.
Hafa ber í huga að Alþingi Íslendinga þiggur vald sitt frá þjóðinni, enda er slíkt tekið fram í stjórnarskrám margra lýðræðisríkja og í frumvarpi stjórnlagaráðs Alþingis segir: Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.
Öll stórmál ber í framtíðinni að leggja í dóm þjóðarinnar eins og hið nýja lýðræði gerir ráð fyrir. Þetta er grundvöllur lýðræðis nýrrar aldar og það er m.a. þetta sem stefnt er að með nýrri stjórnarskrá: að efla lýðræði í landinu, auðvelda aðkomu almennings að stjórn landsins og koma í veg fyrir óheft flokksræði sem ríkt hefur á Íslandi um áratuga skeið.
Hins vegar er æskilegt að víðtæk samstaða nást um nýja stjórnarskrá ný grundvallarlög lýðveldisins Íslands með málefnalegri umræðu þar sem skipst er á skoðunum um mikilsverðasta mál íslenskrar stjórnskipunar.
Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2011 | 14:33
Ný stjórnarskrá er einnar messu virði
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var í fyrra lesin upp í skólum, leikhúsum og kirkjum og Blindrabókasafn hefur gefið hana út á hljóðbók. Skýrslan opnaði augu margra fyrir brestum í íslensku þjóðlífi og stjórnmálum og benti á leiðir til úrbóta. Verður til hennar vitnað um ókomin ár.
Nú liggur fyrir frumvarp til stjórnskipunarlaga drög að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð Alþingis samþykkti einróma á dögunum. Frumvarpið er ekki síður þarflegt, og nú ber skólum að taka það til meðferðar og kynna nemendum eftir því sem aðstæður leyfa. Þá ætti að lesa það upp í öllum kirkjum og leikhúsum til að kynna almenningi efni þess og vekja til umræðu um lýðræði og mannréttindi sem eru mikilvægustu mál dagsins.
Frumvarpið að nýrri stjórnarskrá er í 114 greinum, níu köflum og um sex þúsund orð. Tekur innan við klukkustund að lesa það. Samsvarar lesturinn meðalmessu - og er frumvarpið sannarlega einnar messu virði.
Að sjálfsögðu nægir ekki að lesa frumvarpið, heldur verður að skýra það og ræða, enda fylgja því vandaðar skýringar frá hendi stjórnlagaráðs Alþingis sem styðjast má við. Þá ætti Endurmenntun HÍ að bjóða almenningi námskeið í stjórnskipunarlögum og fá formann stjórnlagaráðs Alþingis og aðrar hæfar konur og karla til þess að skýra frumvarpið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)