27.9.2012 | 22:41
Heimsþorpið, Ísland og íslensk tunga
Á einni öld hefur íslenskt þjóðfélag breyst úr einföldu, einangruðu þjóðfélagi bænda og sjómanna í ógagnsætt og margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Fyrir 100 árum var einn framhaldsskóli á landinu með 100 nemendur og fámennur, vanbúinn háskóli að stíga sín fyrstu spor. Nú eru framhaldsskólar 37 með um 30 þúsund nemendur og sjö háskólar og nemendur nær 20 þúsund.
Fyrir einni öld höfðu innan við 30 Íslendingar lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar nær fjórum þúsundum. Verkkunnátta, sem breyttist lítið í 1100 ár, er orðin svipuð og annars staðar í Evrópu og grunnrannsóknir stundaðar á fjölmörgum sviðum. Menntun Íslendinga hefur því aukist mikið á einni öld og er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Það e.t.v. segir þó mest um breytingar á samfélaginu, er sú staðreynd, að fyrir einni öld var barnadauði mestur á Íslandi allra Evrópulanda. Nú er hann minnstur á Íslandi í öllum heiminum.
Því má segja að íslenskt samfélag hafi ferðast þúsund ár á einni öld og breyst meira en flest önnur samfélög í Evrópu. Hins vegar hefur íslensk tunga breyst minna en aðrar tungur. En hvers vegna hefur íslenska breyst minna en önnur tungumál þegar íslenskt samfélag hefur breyst meira en önnur samfélög í Evrópu? Viðhorf samfélagsins ræður miklu um breytingar á tungumáli, þótt fleira komi til, s.s. lega lands og gerð þjóðfélagsins. Þá hefur samhengi í bókmenntum áhrif á tungumál, en styrkur íslenskunnar er m.a. fólgin í því að við getum lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár og það gerir engin önnur þjóð í Evrópu. Sterk vitund um þjóðerni hefur einnig einkennt Íslendinga og þótt ekki sé í tísku að gerast formælandi þjóðernisvitundar, verður því ekki móti mælt, að vitundin um upphaf sitt er ein sterkasta kennd mannsins og á lítið skylt við þjóðernisstefnu öfgamanna.
Nú virðist breyting vera að verða á viðhorfi til tungumálsins og til vitundarinnar um upphaf sitt. Ákveðinn hópur fólks talar gjarna um heimsþorpið og hið alþjóðalega samfélag, þótt átök, yfirgangur og ofbeldi einkenni flest lönd og þjóðir berist á banaspjót. Hugtakið heimsþorp er því nokkurt öfugmæli. Þessi hópur "heimsborgara" leggur litla áherslu á vandað mál, ræður jafnvel illa við flóknar beygingar, föst orðasambönd og orðatiltæki, en slettir erlendum orðum einkum enskum orðum. Þá er minni áhersla lögð á málrækt og málvöndun af hálfu hins opinbera, m.a. í Ríkisútvarpinu, þar sem þrístrikaðar villur koma fyrir á hverjum degi og enginn þáttur um daglegt mál eða íslenskt mál hefur verið á dagskrá í þessu musteri íslenskrar tungu um árabil. Einnig má nefna að gerð er minni krafa um íslenskukunnáttu kennara sem er áhyggjuefni, því að allir kennarar eru íslenskukennarar.
Þegar allt kemur í einn stað, er því sennilegt, að á næstu áratugum breytist íslenska verulega og til verði stéttamállýskur annars vegar mál þeirra sem vilja og geta vandað mál sitt og hins vegar mál þeirra sem hvorki vilja það né geta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2012 | 09:09
Frá vöggu til grafar
Ráðstefna Hollvinasamtaka líknardeilda um notendamiðað heilbrigðiskerfi vill knýja Alþingi til þess að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi sem mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi.
Evrópudeild Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur mótað nýja stefnu í heilbrigðisþjónustu, nefnd er Health 2020. Ástæðan er krafa um aukin áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra á heilbrigðisþjónustu. Einnig má nefna hærri lífaldur, áhrif mengunar og umhverfis á heilsufar, breytingar á búsetu, efnahagslega mismunun og minna fjármagn til heilbrigðisþjónustu í kjölfar óreiðu í fjármálaheiminum. Þá hafa framfarir í tækni aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu en jafnframt opnað nýjar leiðir til að samþætta ólíkar greinar og auka samstarf stofnana og spara fé á þann hátt. Með aukinni menntun hefur verið gerð krafa um gagnsæi í heilbrigðiskerfisinu og aukin áhrif almennings á mótun og rekstur heilbrigðisstofnana.
Í stefnu WHO er lögð áhersla á, að unnið verði að samræmdum aðgerðum og sameiginlegri stefnu með það að markmiði að styrkja heilbrigðisþjónustu landanna í þessum anda og blása lífi í starf heilbrigðisstofnana í samráði við almenning.
Í samræmi við stefnu WHO og tók áætlun um nýtt heilbrigðiskerfi gildi í Noregi í upphafi þessa ára í kjölfar laga norska Stórþingsins frá því í júní í fyrra. Áætlunin er nefnd Samhandlingsreformen samstarfsáætlun um endurbætur í heilbrigðiskerfinu. Með lögunum er almenn heilbrigðisþjónusta og umönnun aldraðra og deyjandi sameinuð undir eina stjórn og lögð áhersla á forvarnir í stað lagfæringa, lækningu strax en ekki þegar allt er komið í eindaga og mælt fyrir um aukið samstarf heilbrigðisstofnana. Þá er stefnt að því að færa heilbrigðisþjónustu nær fólkinu og auka samstarf sérhæfðra þjónustustofnana. Einnig eru fleiri verkefni fengin sveitarfélögum og áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra aukin: bedre for pasientene - sterkere brukermedvirkning, eins og það er orðað.
Í október efna Danir til ráðstefnu í Kaupmannahöfn í samræmi við þessa stefnu WHO. Þar verður fjallað um þátttöku notenda í heilbrigðiskerfinu undir heitinu Brugerinddragelse i sundhedsvæsenet sem felur í sér, að notendur verði kallaðir til áhrifa - eða notendamiðað heilbrigðiskerfi. Eitt meginþema ráðstefnunnar er þátttaka og stuðningur aðstandenda sjúklinga og bent á, að aðstoð og virk þátttaka sjúklinga og aðstandenda þeirra sé einn mikilsverðasti þáttur í lækningu og meðhöndlun sjúkra og aldraðra.
Hollvinasamtök líknardeilda standa fyrir ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík á morgun, 24. september, undir heitinu Frá vöggu til grafar. Með ráðstefnunni vilja samtökin knýja Alþingi til að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi, mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi og aðstandendur þeirra.
Gerð er krafa um að Alþingi setji lög um heildarstefnu í heilbrigðismálum með tilliti til þarfa notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraða og aðstandendur þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2012 | 14:17
Hugsunin og tungumálið
Eitt af undrum sköpunarverksins er hugsun mannsins. Í kvæði eftir enska skáldið Shelley [d 1822] segir, að tungumálið hafi skapað hugsunina (Speech created thought). Undir þau orð má taka. Mannleg hugsun er óskiljanleg manninum, þótt í því kunni að felast mótsögn, en hugsunin er bæði margþætt og margslungin.
Í fyrsta lagi má nefna hina skapandi hugsun, sem er undirstaða í listum, mannskilningi og mannúð. Sumir halda því fram, að þar sem í Biblíunni er talað um að guð hafi skapað manninn í sinni mynd, sé átt við hugsunina. Það sé hugsunin, sem mannskepnan og guð eigi sameiginlegt og geri mannskepnuna líka guði. Í öðru lagi má nefna hina gagnrýnu hugsun, sem er undirstaða þroska og skilnings.
Í þriðja lagi má nefna hugsunina sem býr að baki tungumálinu. Haft er eftir franska stjórnmálamanninum Charles-Maurice de Talleyrand [d 1838], að málið hafi verið gefið manninum til þess að leyna hugsun sinni (La parole a été donnée à lomme pour désguiser sa pensé). Þessi hugmynd kemur raunar fyrir miklu fyrr og er rakin til gríska heimspekingsins Plútarkosar [d um 120] þar sem hann segirað flestir Sófistar noti orðræður sínar til þess að breiða yfir hugsanir sínar. Þetta getur enn átt við bæði heimspekinga og stjórnmálamenn og hugsanlega fleiri.
Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard [d 1854] segir hins vegar að maðurinn virðist ekki hafa hlotið málið til að leyna hugsun sinni heldur til þess að leyna því að hann hugsar ekki neitt (Menneskerne synes ikke at have faaet Talen for at skjule Tankerne men for at skjule, at de ingen Tanker har.)
Ekki er vitað hvernig samband hugsunar og máls er, hvort mannskepnan hugsar í orðum eða í myndum eða hvort tveggja, allt eftir því hverjar aðstæðurnar eru og um hvað við erum að hugsa. Stundum förum við að vísu með orð í huganum til þess að rifja upp eitthvað, s.s. ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, eða við erum að ráða við okkur hvað við ætlum að segja hvernig við ætlum að orða hugsanir okkar. Hins vegar er ljóst að mikið af hugsunum okkar fer ekki fram í orðum heldur í myndum hugarmyndum.
En hvernig sem sambandi hugsunar og mál er farið, er mikilsvert að hugsa áður en við tölum. Sagt er að skipta megi fólki í tvo hópa. Í fyrri hópnum eru þeir sem hugsa áður en þeir tala, í hinum eru þeir sem tala áður en þeir hugsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2012 | 11:47
Johann Friedrich Struense og drottning Dana
Johann Friedrich Struense olli straumhvörfum í Danmörku og við dönsku hirðina og skildi eftir sig djúp spor. Hann fæddist í Halle í Þýskalandi 1737, lauk þar læknanámi 1757, aðeins tvítugur að aldri, og varð árið eftir borgarlæknir í Altona, hinni gömlu hafnarborg Hamborgar. Struense var afsprengi upplýsingarinnar, vel menntaður guðleysingi, frjálslegur í skoðunum með sterka persónutöfra.
Árið 1768 varð Struense líflæknir Kristjáns konungs VII [f 1749-1808] og settist að í Kaupmannahöfn. Hlaut hann nafnbótina etatsráð. Vegna geðveilu hins unga konungs og með undirmálum tókst Struense að ná stjórnartaununum í sínar hendur. Árið 1770 útnefndi Kristján konungur hann maître des requêtes - formann ráðgjafarnefndar - og fékk Struense nánast einræðisvald í Danmörku, rak frá forsætisráðherra konungs, Johan Hartvig Ernst Bernstorff greifa [1712-1772], og hófst handa um að koma á margvíslegum umbótum, einfaldaði stjórnkerfi landsins og mælti fyrir um að embættismenn skyldu ráðnir eftir verðleikum en ekki ætt og ættartengslum, bannaði pyndingar og lýsti yfir fullu prentfrelsi haustið 1770.
Franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Voltaire [1694-1778] sendi Danakonungi þá heillaóskir vegna þessara miklu framfara. Struense skerti völd aðalsins og vildi auka jafnræði og minnka óhóf og eyðslu við hirðina. Hann lét stöðva gagnslitlar framkvæmdir sem hann taldi vera, m.a. smíði Marmarakirkjunnar, og lét gera Kongens Have að lystigarði fyrir almenning þar sem haldnir voru tónleikar og skemmtanir fyrir sauðsvartan almúgann. Hann réð að hirðinni erlenda listamenn og tónskáld til þess að auka veg og virðingu lista og menningar í Danmörku.
Eitt höfuðmarkmið hans var að koma í veg fyrir peningasóun embættismanna og forréttindi og vildi bæta hag almennings, þar á meðal hag almennings í skattlandinu Íslandi. En Struense gerði sér heldur títt um hagi hinnar ungu drottningar Caroline Mathilde [1751-1775], sem var systir Georgs III Bretakonungs [1738-1820], en konungurinn sinnti drottningu lítið. Endaði ástarsamband þeirra með því að drottningin unga varð barnshafandi af völdum Struense og ól stúlkubarn 7. júlí 1771 sem skírt var Louise Augusta og var talin réttborin prinsessa af Danmörku.
Eins og að líkum lætur eignaðist Struense marga óvildarmenn. Með fulltingi móður Kristjáns VII, ekkjudrottningarinnar Juliane Marie [1729-1796], og Rantzau ríkisgreifa [1717-1789] tókst að koma Struense á óvart, þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir hans. Var hann gripinn í rúmi drottningarinnar ungu árla morguns 17. janúar 1772 eftir grímuball í höllinni kvöldið áður. Var hann hnepptur í fangelsi og drottning færð í dýblissu í Krónborgarkastala. Við réttarhöldin báru hirðmeyjar vitni um bólfarir drottningarinnar og Struense.
Struense var færður fyrir dóm. Varð niðurstaða dómsins sú að Kongens Ægteseng fremfor andre bør være ren og ubesmittet. Hjónaband Kristjáns VII og Caroline Mathilde var lýst ógilt og hún send til Þýskalands, þrátt fyrir hótanir bróður hennar Englandskonungs. Dó hún úr bólusótt þremur árum síðar, aðeins 25 ára að aldri. Struense og aðstoðarmaður, danski greifinn Enevold Brandt [1738-1772], voru dæmdir til dauða og hálshöggnir í Nørre Fælled, þar sem nú er Fælledparken, 28. apríl 1772. Voru lík þeirra hlutuð sundur og sett á hjól og steglu, fólki til skræk og advarsel.
Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um Struense og ágæti umbóta þeirra er hann vildi koma á. Hins vegar sagði enska tímaritið Gentlemans Magazine að breytingar þær, sem Struense hefði beitt sér fyrir í Danmörku, ættu eftir að breyta allri álfunni. Sjö árum eftir dauða Struense hófst franska byltingin sem breytti öllu lífi og stjórnarháttum í Evrópu í það veru sem Struense hafði viljað og barist fyrir í anda upplýsingarinnar.
Úr KAUPMANNAHAFNARBÓKINNI Borginni við Sundið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)