29.10.2010 | 11:15
Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild
Eins og áður hefur komið fram, hef ég gerst svo djarfur að bjóða mig fram til stjórnlagaþings til þess að leggja mitt af mörkum við að móta nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.
Stjórnarskrá skal tryggja öllum lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna, treysta undirstöður nútímalýðræðis, sem er mannvirðing og umburðarlyndi, tryggja réttlátt samfélag, skýra þrískiptingu valds, eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum, landsréttindi og umhverfisrétt sem móti samskipti fólks við umhverfi sitt.
Stjórnarskráin skal reist á skýlausri virðingu fyrir öllum einstaklingum, traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.
Stjórnarskrá skal vera á vönduðu máli og gagnorð svo að allir skilji.Stjórnskráin á aðeins að geyma grundvallarlög lýðveldisins. Stjórnskráin á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og tryggja lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna.
Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og fyrsta setningin að vera: Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild, sbr. upphafsorð þýsku stjórnarskrárinnar: Die Würde des Menschen ist unantastbar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)