Ný stjórnarskrá

Brýna nauðsyn ber til þess að móta nýja stjórnarskrá nú. Til þess leggja margar ástæður. Í fyrsta lagi er núverandi stjórnarskrá úrelt og gamaldags og tákn um liðinn tíma. Uppbygging og skipulag hennar, orðalag og efnistök svara ekki kalli tímans. Stjórnskrá á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og hún á að tryggja á borði – enn ekki aðeins í orði – þrískiptingu valds, jafnrétti á öllum sviðum, frelsi til orða og athafna, en um leið ábyrgð einstaklinga, félaga og stofnana, lýðræðisleg réttindi og félagslegt öryggi.

Í öðru lagi er það krafa þjóðarinnar að setja ný grundvallarlög. Hrunið varð þess valdandi að viðhorf til stjórnmálamanna hefur breyst. Nú er krafan að stjórnmálamenn sýni heiðarleika og gangist við ábyrgð – og allar stjórnarathafnir séu gagnsæjar. Ný stjórnarskrá á að stuðla að trausti milli kjósenda og stjórnmálamanna í upplýstu fulltrúalýðræði.

Í þriðja lagi er sundrung í þjóðfélaginu, vartraust á Alþingi, reiði og vonleysi. Gildi nýrrar stjórnarskrár felst í því að sameina þjóðina, lægja öldur, vekja von og efla traust á Alþingi, efla traust á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Í upplýstu fulltrúalýðræði komumst við ekki af án stjórnmálaflokka, en við verðum að geta treyst stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá á að veða samfélagssáttmáli.

Stjórnskrá á aðeins að geyma grundvallarlög – meginreglur samfélagsins. Þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt - heldur stjórnlagaþing sem kjörið er af almenningi með landið allt sem eitt kjördæmi. Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og heiðarleika, sem er krafa þjóðfundar. Fyrsta setning stjórnarskrárinnar á að vera: Virðing fyrir sérhverjum einstaklingi er ófrávíkjanleg og algild.

Fækka á þingmönnum í 36 og bjóða fram í 18 tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með þessu verður ábyrgð þingmanna meiri og þekking þeirra á hagsmunum fólksins meiri og tengsl þingmanna við kjósendur meiri - og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking og persónuleg kynni eru nauðsynleg í upplýstu fulltrúalýðræði.

Stjórnarskrá skal reist traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.


Bloggfærslur 22. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband