3.11.2010 | 14:23
Er Evrópusambandið eina leiðin?
Lengi fannst mér tvær þjóðir búa í þessu landi, þjóðin í borgríkinu Reykjavík - og hin þjóðin. Nú er mér farið að finnast eins og margar þjóðir búi í þessu fagra og landi og gjöfula: fátækt fólk og ríkt, menntað fólk og ómenntað, hógvært fólk og dónar, hugsandi fólk og götulýður og að sjálfsögðu ungt fólk og gamalt, konur og karlar, sjómenn og bændur, iðnaðarmenn og ófaglærðir - og svo atvinnustjórnmálamenn sem ekki koma sér saman um neitt, þótt landið sé að sökkva - eða hvað.
Ýmislegt bendir nefnilega til þess, að landið hafi aðeins sokkið að hluta. Meðan þúsundir þurfa að þiggja mat í plastpokum og íbúðir 20 þúsund fjölskyldna séu á uppboði, getur fjölmargt fólk leyft sér hvað sem er í efnalegu tilliti. Bjórkrár eru fullar af fullu fólki kvöld eftir kvöld, veitingastaðir og sælkerahús eru troðin af úttroðnu fólki á besta aldri viku eftir viku, uppselt er að verða í sólarlandaferðir í vetur og dýrir bílar eru farnir að seljast aftur eins og heitar lummur, en sumir virðast telja það bera vitni um velmegun í landinu.
Hefur eitthvað gleymst? Hefur hrunið ekki kennt nýríkum og sjálfselskum Íslendingum neitt? Getur ekkert komið okkur í skilning um að jafnrétti, hófsemi og mannvirðing á að gilda? Eða getum við ef til vill ekki bjargað okkur sjálf? Þurfa aðrir að koma okkur til hjálpar, eins og lærðir menn frá útlöndum í Silfri Egils prédika sunnudag eftir sunnudag? Er Evrópusambandið ef til vill eina leiðin?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)