Að loknum þjóðfundi, svar til leiðarahöfundar MBL

Sorglegt er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag. Ályktunarorð leiðarans eru, að engin skýring hafi komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.

Sorglegt er að lesa háðslegt orðbragð, niðurbælda reiði, útúrsnúninga og dulinn ótta um þetta mikilsverða mál. Sorglegt er að þetta gamla málgagn heiðarlegra íhaldsmanna leggst svona lágt.

Sorglegt er að svona er komið fyrir umræðu Morgunblaðsins sem undir forystu Matthíasar Johannessens og Styrmis Gunnarssonar fór fyrir í málefnalegri umræðu um ágreiningsmál í stjórnmálum um áratuga skeið.

Nú reynir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að gera vilja meginhluti þjóðarinnar hlægilegan og þykist ekki skilja það sem flestum hugsandi mönnum er ljóst.

Ný stjórnarskrá er nauðsyn eftir verk spilltra stjórnmálamanna og glæpsamlegt athæfi einstakra manna í viðskiptalífinu undanfarin ár. Þjóðin er ekki síður reið en leiðarahöfundur MBL og hefur til þess meiri ástæðu. Afskræmd frjálshyggja og stjórnmálaspilling lagði líf tugþúsunda manna í rúst, ekki gamla, danska stjórnarskráin - heldur brostið siðvit.

Ný stjórnarskrá er nauðsynleg til þess að treysta siðvit og tryggja undirstöður lýðræðis, skýra þrískiptingu valds og eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, stjórnarskrá sem reist á virðingu fyrir öllum – einnig þeim sem hafa andstæða skoðun – en það er grundvöllur heilbrigðrar umræðu.

Heiðarlegum Íslendingum mun á grundvelli jafnréttis á öllum sviðum og skýrrar þrískiptar valds takast að reisa landið úr rústunum frjálshyggjunnar, en verk óbótamanna gleymast ekki.


Bloggfærslur 8. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband