2.12.2010 | 10:39
Mikilsvert stjórnlagaþing
Komið er í ljós, hverjir sitja stjórnlagaþing 2011. Að mínum dómi hefur valið tekist mjög vel. Óska ég þingfulltrúum og þjóðinni allri til hamingju með þetta val.
Þótt búast hefði mátt við betri kjörsókn, er meira um vert, að 83.500 kjósendur nýttu sér atkvæðisrétt sinn í þessum mikilsverðu kosningum. Betra er, að hinn skapandi minnihluti velur 25 fulltrúa á stjórnlagaþing en sundurleitt Alþingi hefði kosið 12 vildarvini sína til þess að fjalla um drög að nýjum grundvallarlögum fyrir lýðveldið Ísland.
Fulltrúarnir 25 búa yfir mikilli þekkingu og mikilli reynslu, þeir hafa brennandi áhuga á þessu mikilsverða máli, hafa fjölbreytileg tengsl út í samfélagið og eru ekki fulltrúar stjórnmálaflokka. Þetta er mikils virði og mun gagnast vel.
Þjóðin mun fylgjast með störfum stjórnlagaþings og meðferð Alþingis á tillögum þingsins. Umræðan, sem staðið hefur undanfarin ár um lýðræði og jafnrétti, mun halda áfram og lýðræðis- og réttlætisvitund þjóðarinnar á eftir að eflast af þeim sökum.
Mikilsvert er að skólar landsins taki fræðslu um lýðræði, jafnrétti - og mannvirðingu skipulega í námsskrár sínar, því að lýðræði er hugsun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)