13.3.2010 | 22:23
Þekking og réttsýni
Gaman er að verða vitni að því í spurningakeppni framhaldsskólanna í "sjónvarpi allra landsmanna" hversu margt skólanemendur vita um einskisverða hluti. Það bókstaflega stendur upp úr þeim bunan.
Forðum daga var sagt, að stúdent væri sá sem vissi ekkert um allt, en fræðimaður sá sem vissi allt um ekkert. Þetta hefur sannast í spurningakeppni framhaldsskólanna og í umræðum undanfarinna mánaða. Almenningur virðist vita allt um ekkert og ráðgjafar þjóðarinnar virðast vita allt um ekkert - en enginn virðist vita muninn á réttu og röngu.
Hins vegar sýnist mér sem gömlum skólameistara, gömlum stúdent og starfandi fræðimanni, að þörf sé á því að fræðimenn, stúdentar og almenningur læri að þekkja hvað er rétt og rangt. Því held ég sjónvarpið og skólar landsmanna - frá leikskólum til háskóla - ættu að hætta spurningarugli um einskisverða hluti og taka upp fræðslu, greiningu og beina kennslu um muninn á réttu og röngu. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sú þekking sem máli skiptir. Ef þjóðin hefði vitað mun á réttu og röngu, stæðum við ekki frammi fyrir svikum og blekkingum sem við megum nú horfa upp á og er því miður enn ekki lokið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.3.2010 | 12:56
Lán leysa ekki skuldavanda Íslendinga
Í MBL í dag er viðtal við Alex Jurshevski, hagfræðing fæddan í Kanada en sem starfað hefur víða um lönd, og hefur um 20 ára skeið rekið fyrirtækið Recovery Partners sem sérhæfir sig í skuldavanda fullvalda ríkja.
Í viðtalinu bendir Jurshevski á að aukin erlend lán leysi ekki efnahagsvanda Íslendinga. Þjóðin eigi margra annarra kosta völ en taka lán og geti unnið sig út úr vandanum án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Íslenska ríkið geti axlað ICESAVE skuldbindingar "með réttri skuldastýringu en til þess að það dæmi gangi upp þurfi sennilega að afþakka frekari lánaveitingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum". Allt eins og talað út úr mínum munni!
Þetta viðtal þurfa allir að lesa sem áhuga hafa á efnahagsmálum og sjálfstæði þjóðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)